Rækjukvóti loðnuskipa

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:47:57 (4025)


[15:47]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hér er borin fram nokkuð sérstæð fsp. Það kann nú að vera að fsp. af þessu tagi hafi verið bornar fram áður en ég hygg að það sé ekki daglegt brauð að hér séu bornar fram fsp. til ráðherra um það hvort þeir ætli að brjóta gildandi lög sem þingið hefur falið þeim að framfylgja. En svo er í þessari fsp.
    Ég á því í nokkrum erfiðleikum með að ráða í það hvað fyrir hv. þm. vakir í þessu efni. Ekki ætla ég að hv. þm. sé að fara fram á að ráðherra brjóti skýr lagaákvæði. Ef hv. þm. hefði ætlað að bera þessa fsp. fram á málefnalegan hátt þá hefði þingmaðurinn tilgreint þau skip sem hún telur rétt að flytja aflaheimildir af og þau skip eða byggðarlög sem hún telur að flytja eigi aflaheimildina til og spurt hvort viðkomandi ráðherra ætlaði að beita sér fyrir lagabreytingu til að koma þessum málefnum fram. Það hefði verið málefnalega rétt að staðið hjá hv. þm. en eins og þessi fsp. stendur þá verð ég að svara því alveg skýrt: Það stendur ekki til af hálfu ráðuneytisins að brjóta skýr lög sem gilda um þessi efni.