Starfsemi Landgræðslu ríkisins

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:38:21 (4052)

[16:38]
     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. landbrh.:
  ,,1. Hve miklu melfræi var safnað í sumar? Hvað taldi Landgræðslan æskilegt að safna miklu magni?
    2. Hvaða girðingar í umsjá Landgræðslunnar njóta þess viðhalds að viðunandi sé?
    3. Hagnýtir Landgræðslan sér búfjáráburð í starfi sínu?``
    Ástæðan fyrir því að ég ber þessar fsp. fram er að ég tel að það sé mikil nauðsyn að við náum ágrangri í landgræðslu og ég efa það mjög að það form að hafa eitt stórt ríkisrekið apparat til að sinna þessu starfi sé æskilegt.
    Ég hef fengið mjög góðan lista yfir þær girðingar sem eru á vegum Landgræðslunnar og vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það. Ég mun að sjálfsögðu lesa þau skjöl yfir, en ég mun bíða eftir svörum við þeirri fsp. sem ég hef lagt fram og reyna að glöggva mig á því í framhaldi af þeim svörum hvort sú stefna að hafa eitt stórt ríkisrekið apparat til að sjá um þessi málefni geti talist rétt.