Réttur vörubílstjóra til atvinnuleysisbóta

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:58:35 (4060)


[16:58]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held ég hljóti fyrir hönd minnar gömlu stéttar að þakka málshefjanda og taka undir eindregnar kröfur um að þessu máli verði kippt í liðinn. Það er nú svo að bílstjórar hafa verið félagsmenn í Alþýðusambandi Íslands um áratuga skeið og það er auðvitað gersamlega út í hött, það sér hver maður að það er gersamlega út í hött að einhver stjórn úti í bæ geti flutt heila stétt manna til í þjóðfélaginu og tekið hana út af atvinnuleysibótum. Það er bara út í hött. Og svona reglugerðarkjaftæði nær auðvitað engri átt. Bílstjórar hafa notið þessara bóta um langt árabil og eiga að gera það áfram. Það var aldrei ætlunin þegar málin fóru í gegnum Alþingi að það mundi skerða möguleika einhvers hóps til bóta heldur þvert á móti átti þetta að opna nýjum aðilum leið inn á skrána. Ég skora því á hæstv. ráðherra að kippa þessu í liðinn nú þegar og ef ekki vill betur til gegnum breytingar á túlkun sjóðstjórnarinnar að gefa þá út reglugerð sem tekur af öll tvímæli um það að þessir sjálfstætt starfandi einyrkjar geti nýtt sér þennan bótarétt.
    Auðvitað geta bílstjórar ekki selt bílinn í hvert sinn og keypt hann svo aftur til að komast kannski í útskipun á vöru á hálfs mánaðar fresti. Það sér hver heilvita maður þannig að þessir menn sem eru þá að fást við þessi mál verða að fá sér eitthvað annað að gera heldur en manna stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ef þeir geta ekki kippt þessu í liðinn.