Skólaskip

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:41:56 (4081)


[17:41]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki einleikið með okkur Íslendinga sem köllum okkur sjávarútvegsþjóð og erum það að það var fyrst á árinu 1994 að útskrifaðir voru sjávarútvegsfræðingar úr háskóla. Og það er ekki einleikið að með þessa sömu þjóð háttar þannig til að það er ekki til skólaskip til þess að stunda og kenna sjóvinnu í grunnskólum landsins. Það er ekki til skólaskip og hefur ekki verið til í 2--3 ár. Skólaskipið Mímir hvarf fyrir þremur árum eða svo. Þannig háttar til að tryggingafé hefur legið fyrir lengi í sjútvrn. en það hefur ekki verið notað fyrr en núna sl. haust að hæstv. sjútvrh. tilkynnti að það væri meiningin að kaupa fyrir þetta tryggingafé skip fyrir Hafrannsóknastofnun. Og áfram er staðan þannig að það er ekki til neitt skólaskip. Að meðaltali hafa verið 350 nemendur í sjóvinnunámi í grunnskólum í landinu. Þeir hafa farið upp í 600--700 og núna eru þeir um 250 talsins og menn hafa leyst það með því að það hefur verið mögulegt að skjóta nemendum í róður og róður en þetta þyrfti auðvitað að vera með reglubundnum hætti hjá sjómönnum, fólki og kennurum sem kunna að þjálfa þessa ungu og áhugasömu e.t.v. tilvonandi sjómenn.
    Staðreyndin er sú að auðvitað kostar nokkra fjármuni að kaupa svona skip en peningarnir hafa legið í sjútvrn. og auk þess er það þannig að á síðasta ári bauðst Fiskifélaginu bátur án nokkurrar greiðslu þannig að það var hægt að fá skip en auðvitað kostar eitthvað að reka þetta. Það er talað um að það kosti 10--12 millj. á ári að reka skólaskip og fyrir nokkrum árum var þannig að hlutunum staðið að það vann fyrir sér yfir sumarið þar sem kennarinn, Magnús Grímsson skipstjóri, hélt skipinu til veiða.
    Áhugi á þessu máli sjútvrn. hefur verið núll komma núll um langt árabil þó að uppruni málsins sé þar reyndar í sjávarútvegsráðherratíð Lúðvíks Jósepssonar sem árið 1973 tók um það ákvörðun að skip skyldi keypt í þessu skyni.
    Af þessum ástæðum hef ég ákveðið að spyrja hæstv. menntmrh. þeirrar spurningar sem hér liggur fyrir á þskj. 507:
    ,,Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að tryggja nemendum í sjóvinnunámi í grunnskóla aðgang að skólaskipi?``