Ráðning sjúkraþjálfara við heilsugæslustöðvar

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:35:37 (4104)


[18:35]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Við þessa stuttu umræðu er kannski ekki miklu við að bæta. Ég vil þó koma því hér á framfæri þannig að af séu tekin öll tvímæli í því sambandi að ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda í þá veru að starfsemi heilsugæslustöðva í okkar heilbrigðiskerfi hefur kannski um margt verið vanmetin. Þetta fyrsta stig þjónustunnar í okkar um margt þróaða heilbrigðiskerfi þarf mjög nauðsynlega að efla og ég held að þegar til lengri tíma er litið þá leiði það til sparnaðar eins og hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson kom inn á og þá eru það ekki síst þættir sem lúta að ýmiss konar fræðslu- og forvarnastarfi. Ég held að flestar efasemdarraddir sem uppi voru á árum áður um þetta fyrirkomulag sem upp var tekið, heilsugæslustöðvar vítt og breitt um landið, hafi með tíð og tíma þagnað og þvert á móti hafi flestir orðið um það sammála að þetta tæki sem við höfum byggt upp um landið allt og er orðið býsna þétt og vel úr garði gert þótt, eins og hér hefur fram komið, megi enn betur gera, sé orðið sá snari, öflugi þáttur í heilbrigðisþjónustu við okkar landsmenn eins og ráð var fyrir gert. Þannig að ég vænti þess og vona svo sannarlega að hv. fyrirspyrjandi og aðrir geti undir það tekið með mér að við eigum að beina sjónum okkar í auknum mæli að forvörnum, að fyrirbyggjandi aðgerðum sem fyrst og síðast verða best inntar af hendi á heilsugæslunni og auðvitað í öðrum stofnunum sem til þess eru bærar.