Viðræður við Bandaríkin um fríverslun

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:43:15 (4107)


[18:43]
     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svarið og vænti þess að við megum síðar, jafnvel bráðlega ef við tölum ekki í mjög stuttum tímabilum, sjá fram á viðræður við Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir í Ameríku, eins og hann nefndi sjálfur, og við Kyrrahafslönd sem mundu treysta mjög okkar viðskiptamöguleika í þeim viðskiptaheimi sem nú er að skapast þar sem ljóst er að ríki meginlandanna eru óðum að festa í sessi bandalög af þessu tagi. Væntanlega getum við vakið athygli Bandaríkjamanna og annarra þjóða vestan hafs á þeim möguleika sem við getum boðið upp á sem hlið að efnahagssvæði Evrópu.