Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 14:53:50 (4114)


[14:53]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er mjög merkilegt því ég veit ekki betur en blaðið sé gefið út af Alþfl. og hér er ekkert verið að tala um skoðanir ritstjórans. Hér er bara sagt: Skoðanir Alþfl., alveg massíft. ( GunnS: Er ekkert málfrelsi á Tímanum? Hvernig er það?) Það er málfrelsi, en við erum ekki vanir því

í Framsfl. að tala fyrir hönd flokksins nema við höfum flokkssamþykktir að baki okkur. Við höfum alveg fulla heimild til þess, hv. þm., að segja það sem okkur sýnist á slíkum fundum. En þegar við ályktum og tölum fyrir hönd flokksins, þá segjum við ekki í annarri hverri línu: Alþfl. telur . . .   Alþfl. hefur gert . . .   o.s.frv. Það er það sem stendur hér. Ég tek þetta alvarlega. Ég er búinn að fá upplýsingar um að það á ekki að taka þetta alvarlega. Það var einungis verið að álykta um að það ætti að skoða hvort hægt væri að gefa veiðar frjálsar í ákveðnum tegundum. Það er kannski ekki mjög erfitt fyrir aðila að uppfylla að það verði skoðað. En samkvæmt þessum upplýsingum er þetta allt öðruvísi. A.m.k. hefur Pétur Bjarnason ( RG: . . .  að þingmaðurinn er uppteknari af . . .  en áður fyrr.) ekki skilið þetta svona því að hann segir að það sé ekki hægt að gera sér miklar vonir um að Alþfl. gefi tón sem nýtist sem veganesti inn í framtíðina.
    Ég ætla ekki að deila við þá alþýðuflokksmenn frekar um þetta. Ég er búinn að fá það upplýst hér að við eigum ekki að taka þessa ályktjun mjög alvarlega og þar með skil ég það að flokkarnir standi þá alveg að þessu máli og það sé búið að naglfesta þetta allt saman. Þá þarf ekki meira að spyrja um þetta. Þá þarf ekki að halda langan nefndarfund um málið.