Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 17:19:07 (4133)


[17:19]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir afskaplega vænt um að ég virðist hafa svarað megninu af því sem vakti fyrir hv. þm. Ég ítreka það að ég treysti sveitarfélögum afskaplega vel til þess að finna góða lausn. Ég get svo sem komið með hugmyndir en ég ætla ekki að hafa þær í farteskinu þegar við ráðstöfum heimildum til byggðarlaga. En það má alveg hugsa sér að sérnefndir eða sveitarstjórnir sjái um þetta. Það má hugsa sér ýmsar lausnir og ég veit að sveitarfélögin eru fullfær um að finna þær. Í öðru lagi vil ég tala sérstaklega um það eða fylgja eftir þessu varðandi skuldaskil. Það verður að sjálfsögðu að leysa þau vandamál sem nú eru komin upp. Það verður líka að gera í núverandi kerfi vegna þess að við erum alltaf að súpa seyðið af nákvæmlega sama vandamáli þannig að þarna yrði í rauninni um tímabundið vandamál að ræða og síðan sætum við ekki uppi með það lengur. Í staðinn fyrir að nú endurnýjar þetta vandamál sig sjálft í alveg ótrúlega ríkum mæli og það vitum við ósköp vel vegna þess að þetta kerfi hefur boðið upp á afskaplega óeðlilegt ástand þar sem í rauninni eru eignir gerðar eins og ég rakti hér á undan mismunandi verðmiklar, alls ekki út frá verðgildi sínu heldur vegna þess að kvóta er úthlutað. Og eins og kom glöggt fram í umræðunni hér sem fór fram 25. nóv. sl., um skattalega meðferð á kvóta, þá er enginn sem getur í raun ábyrgst að þetta verði áfram. Það er ekkert loforð hér. Ráðherrar komu hér og fullyrtu hver í kapp við annan að að sjálfsögðu væri ekki hægt að tryggja mönnum samkvæmt núgildandi kerfi örugga eign, ekki einu sinni að fastsetja hversu verðmikil hún er.