Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 22:56:04 (4182)


[22:56]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich hefur legið undir þeim grun norðan heiða að vera að semja frv. til útvarpslaga. En nú blasir það við að hann mun hafa verið að lesa tvíhöfða en villst í Austfjarðaþokunni. Það er nú svo að villtir menn eiga erfitt með að vísa öðrum veginn en hann boðaði að hér væri boðað að koma á þoku. Þeir sem völdin hafa í þessu landi ráða stefnunni og mín spurning er: Er þetta frv. Austfjarðaþoka fyrir útgerðarmenn í landinu? Er það rétt að það sé verið að veikja stoðir kvótakerfisins að dómi þingmannsins og þar með ráðast á fjárfestingarforsendur fyrirtækjanna í landinu og þar með að skapa verri grundvöll en var fyrir? Og samt hikar þingmaðurinn við að gefa yfirlýsingu um hvort hann ætli að styðja frv. eða ekki að styðja það.
    Hins vegar fullyrti þingmaðurinn að útgerðarmenn hefðu ekki fengið kvótann ókeypis. Mín spurning er bein: Hvað borgaði Samherji fyrir kvótann sem hann fékk út á aflareynslu skipstjórans á sínum tíma? Hvað kostaði kílóið?
    Hér er nákvæmur maður sem svarar, hv. 5. þm. Norðurl. e., og ég veit að hann hefur á því reiður hvað var greitt fyrir kílóið hafi það ekki verið ókeypis.