Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

91. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 14:44:31 (4256)


[14:44]
     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. allshn. á þskj. 586 við frv. til laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Við umfjöllun um þetta frv. í allshn. fyrir 2. umr. kom m.a. fram tillaga nokkurra nefndarmanna um að breytingar yrðu gerðar á því með tilliti til kostnaðar sem gæti fallið á aðila af dómsmáli ef dómarinn tæki ákvörðun um að neyta heimildar samkvæmt frv. til að leita álits EFTA-dómstólsins um atriði máls undir rekstri þess að eigin frumkvæði eða að frumkvæði annars aðila að málinu. Töldu þeir nefndarmenn rétt að kostnaður af máli sem kæmi sérstaklega til vegna slíkrar álitsöflunar yrði borinn af ríkissjóði undir þeim kringumstæðum. Um þetta náðist ekki samstaða innan nefndarinnar og flutti því 2. minni hluti hennar tillögu um breytingu á frv. sem sneri að þessu við 2. umr. Samkomulag tókst síðan um að þessi brtt. yrði dregin til baka og að nefndin tæki frv. enn til athugunar milli 2. og 3. umr. af þessari ástæðu en að því gerðu var frv. afgreitt til 3. umr. og því vísað aftur til nefndarinnar.
    Við athugun allshn. á frv. eftir 2. umr. hefur orðið að samkomulagi að flytja tillögu um breytingu á því sem nefndin stendur að í sameiningu. Rétt er að taka fram að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarstaddir er þessi brtt. var endanlega afgreidd úr allshn.
    Í þessari tillögu er farin nokkuð önnur leið en var ráðgerð í fyrri tillögum 2. minni hluta nefndarinnar en hún felst í því að nýrri grein verði bætt inn í frv. þar sem dómsmrh. yrði heimilað að veita málsaðila gjafsókn vegna kostnaðar sem aðgerðir í tengslum við öflun álits EFTA-dómstólsins gætu bakað honum. Er þá gengið út frá að almennar reglur um gjafsókn, sem eru í XX. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, gildi undir þessum kringumstæðum með vissum frávikum sem mælt er nánar fyrir um í brtt. nefndarinnar.
    Til að skýra frekar brtt. má í byrjun vekja athygli á því að skv. 1. mgr. hennar yrði hægt að veita málsaðila gjafsókn í tilvikum þegar dómstóll þar sem mál er rekið hefði tekið ákvörðun um að leita álits EFTA-dómstólsins án þess að viðkomandi aðili hefði sjálfur krafist þess. Með þessu eru höfð í huga tilvik þar sem annar hvor gagnaðilinn ætti frumkvæði að öflun álitsins með kröfu um það eða dómstóllinn sjálfur án kröfu frá öðrum hvorum aðilanum. Undir þessum síðarnefndu kringumstæðum kæmi til greina að báðir aðilarnir gætu sóst eftir gjafsókn. Gjafsóknina yrði hægt að veita eingöngu vegna kostnaðar sem álitsöflunin gæti haft í för með sér fyrir málsaðilann og þá án tillits til þess hvort hann hafi óskað eftir gjafsókn vegna kostnaðar af málinu að öðru leyti. Í 1. mgr. er síðan byggt á því að almenn skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar ráði hér úrslitum í meginatriðum en samkvæmt 126. gr. laganna um meðferð einkamála felast þessi almennu skilyrði í því að annars vegar verður málstaður umsækjanda um gjafsókn að gefa nægilegt tilefni til málshöfðunar hans eða málsvarnar að mati gjafsóknarnefndar sem gerir tillögu til dómsmrh. um afgreiðslu umsóknar og hins vegar verður einhverju af þrennu að vera fullnægt: Í fyrsta lagi að efnahagur umsækjanda sé þannig að kostnaður af málinu gæti orðið honum ofviða, í öðru lagi að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi eða í þriðja lagi að málið varði miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.
    Skv. 1. mgr. í brtt. er enn fremur gert ráð fyrir því sérstaka skilyrði fyrir gjafsókn í þessum tilvikum að EFTA-dómstóllinn hafi ekki veitt viðkomandi málsaðila gjafsókn eftir starfsreglum sínum. Með þessu er haft í huga að skv. 72. gr. draga að starfsreglunum, eins og þær liggja nú fyrir, gæti aðili að máli sem kæmi til kasta EFTA-dómstólsins sótt um gjafsókn til hans. Heimild EFTA-dómstólsins til að veita slíka gjafsókn virðist þó ætla að verða þrengri en heimildin sem allshn. leggur hér til því samkvæmt drögum að starfsreglum dómstólsins kæmi gjafsókn aðeins til álita þar vegna fjárhagslegra aðstæðna málsaðila.
    Í 2. mgr. er gengið út frá að ef málsaðila yrði veitt gjafsókn vegna álitsöflunar fyrir EFTA-dómstólnum, þá nyti hann sömu hlunninda úr hendi ríkisins og fylgja gjafsókn venjulega. Þannig félli m.a. undir gjafsókn allur kostnaður gjafsóknarhafa af ferðalögum sínum eða umboðsmanns hans vegna rekstrar máls ytra, þóknanir handa matsmönnum, vitnum og túlkum í þessu sambandi að því leyti sem slíkur kostnaður væri ekki borinn af EFTA-dómstólnum og þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafans fyrir flutning málsins.

    Í 2. mgr. er tekið sérstaklega fram að gjafsóknarhafinn gæti fengið allan útlagðan kostnað sinn endurgreiddan strax vegna ferðalaga og þóknana handa öðrum en lögmanni sínum, en um þóknun lögmannsins fyrir um málflutning fyrir EFTA-dómstólnum er gert ráð fyrir þeirri reglu að innlendi dómstóllinn, þar sem málið er rekið, ákveði þóknunina í dómi sínum og hún greiðist þá fyrst að gengnum dómnum.
    Þegar litið er til 3. mgr. í brtt. nefndarinnar er rétt að taka fram til skýringar að samkvæmt almennum reglum í 128. gr. laga um meðferð einkamála breytir gjafsókn því ekki að í dómi í máli er hægt að leggja á gagnaðila gjafsóknarhafans að greiða málskostnað, t.d. ef gagnaðilinn tapar málinu öllu. Í slíku tilviki rennur málskostnaðurinn úr hendi gagnaðilans yfirleitt að öllu leyti í ríkissjóð og þá sem eins konar endurgreiðsla til ríkisins vegna kostnaðar gjafsóknarhafans.
    Í 3. mgr. í brtt. er gert ráð fyrir að hægt verði að víkja frá þessum almennu reglum á þann hátt að í dómi mætti ákveða að gagnaðili gjafsóknarhafans þyrfti ekki að endurgreiða í ríkissjóð kostnað af gjafsókn fyrir EFTA-dómstólnum heldur yrði hann borinn af ríkinu. Þessi heimild er þó skilyrt á þann veg að þetta yrði yfirleitt ekki gert ef gagnaðilinn hefði sjálfur átt frumkvæði að því að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins í málinu.
    Að öðru leyti en nú hefur verið getið er ætlast til að almennu reglurnar í lögunum um meðferð einkamála gildi um gjafsókn sem yrði veitt í tengslum við öflun álits EFTA-dómstólsins. Taka má fram að þetta hefur m.a. í för með sér að ekki yrði hægt að endurkrefja gjafsóknarhafann sjálfan um þau hlunnindi sem hann nyti í þessu skjóli hvernig sem málið kynni að fara heldur gæti endurgreiðsla aðeins fengist í ríkissjóð úr hendi gagnaðila gjafsóknarhafans eftir þeim reglum sem var áður lýst.
    Þá er rétt að geta þess, virðulegi forseti, að mér hefur borist bréf fyrir hönd allshn. frá hæstv. dómsmrh. þar sem hann lýsir því yfir að hann sé tilbúinn til þess að láta skoða þennan þátt málsins sérstaklega þegar endanlegar starfsreglur EFTA-dómstólsins liggja fyrir. Að endingu má vekja athygli á því að í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir breytingu á gildistökuákvæði frv. en á henni er ekki þörf sérstakra skýringa.