Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 11:37:19 (4283)


[11:37]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hafði fengið upplýsingar hjá hæstv. forseta hver mælendaröðin væri og vissi ekki betur en tveir væru á mælendaskrá. Og mig undrar það ef slíkur ruglingur er á mælendaskránni að ekki sé hægt að bregða sér út úr þingsalnum í eina eða tvær mínútur án þess að allt fari í steik.
    En ég mun víkja að þeirri ársskýrslu sem hér er til umræðu og byrja að lýsa því yfir að ég fagna því að hæstv. forsrh. er kominn á það stig sem við teljum að sé grundvallaratriði til að menn séu hæfir til að vera skipstjórar og það er að snúa við ef þeir álpast út í svo vont veður að það sé ekki um annað að ræða en að snúa að landi á nýjan leik í staðinn fyrir að halda sjó það lengi að skip og áhöfn farist.
    Hæstv. forsrh. gerði það nefnilega áðan í andsvari við hv. 1. þm. Vestf. að lýsa því yfir að það stæði til að endurskoða ákvæði í reglugerðinni, sem víkur að því hvort Byggðastofnun megi eiga hlutafé í fyrirtækjum eða ekki.
    Ég fagna því að hæstv. forsrh. er farinn að átta sig á því að stundum er skynsamlegast að snúa aftur og skoða stöðuna upp á nýtt.
    Reglugerðin eins og hún er í dag kemur í veg fyrir að Byggðastofnun geti varið sína fjármuni. Svo alvarlegt er málið. Byggðastofnun getur ekki varið sína fjármuni eins og Landsbankinn, eins og Iðnlánasjóður. Því ástæðan fyrir því að þessir aðilar hafa farið í það að eiga hlutafé í fyrirtækjum er fyrst og fremst sú að þeir eru að reyna að verja sína hagsmuni, verja þá fjárhagsstöðu sem þeirra fyrirtæki eru komin í og þeir sjálfir sem eigendur aðalkrafna á fyrirtækið. En með reglugerðinni eins og hún er er búið að loka fyrir það að Byggðastofnun geti varist á sama hátt.
    Jafnframt er það staðreynd og þar hygg ég að forsrh. trúi frekar breskum heimildum heldur en þeim sem hér stendur, að Margrét Thatcher, fyrrv. forsætisráðherra Bretlands, járnfrúin öðru nafni, af sumum talin hneigð til framsóknarmennsku á vissu tímabili, beitti óspart þeirri aðferð að leggja hlutafé í fyrirtæki og henni datt ekki í hug sú hringavitleysa að selja fyrirtækin án þess að skoða hvernig markaðsástandið væri. Hún vildi skila fyrirtækjunum í standi þegar hún seldi þau. Og það er líka algjörlega út í hött í reglugerðinni að setja ákvæði um að það skuli skilyrðislaust auglýsa öll hlutabréfin á hverju einasta ári. Það þarf að tryggja það að rekstur fyrirtækjanna sé í eðlilegu standi. Þá er hægt að selja hlutabréfin, þá er hægt að láta fyrirtæki sigla sinn sjó. En það er engin lausn að standa þannig að málum að þau séu seld þegar staðan er sú að það verður að þjappa eigendunum utan um fyrirtækið til þess að verja það og koma því á réttan sjó.
    Með leyfi forseta, hyggst ég fá að lesa hér stutt bréf sem mér hefur borist afrit af. Þetta bréf er ritað af vestfirskum sveitarstjórnarmanni sem er oddviti í litlu byggðarlagi og er að meta stöðuna út frá sínum sjónarhóli og ég hygg að það sé mjög fróðlegt fyrir þingheim allan að hlýða á þetta bréf. Með leyfi forseta, þá ætla ég að hefja lesturinn:
    ,,Til forustumanna sveitarstjórna á Vestfjörðum. Flateyri 25. jan. 1994.
    Ágæti vestfirski samherji og vinur. Þú fyrirgefur mér framhleypnina en mig langar til þess að senda þér þessar línur í von um að við getum sameinast um kröfur um aðgerðir til hjálpar atvinnulífi byggðarlaga okkar og stutt þá sem þegar eru að berjast fyrir slíku.
    Ég hef rætt um þessi mál við ákaflega marga aðila sem vilja ljá málinu stuðning, en breiðfylking um úrlausn er nauðsynleg. Við erum ekki bónbjargafólk, en stjórnvöld geta ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð sem þau hafa á tilverurétti okkar. Krefjumst aðgerða.
    Gráturinn. Fyrirtæki eru og hafa verið að fara á hausinn. Fyrirtæki eru að loka. Heilu sveitarfélögin eru í upplausn vegna fólksfækkunar og minnkandi tekna. Útgerðin kvartar yfir að allur kvóti sé búinn. Atvinnuleysi brýst fram í fyrsta sinn í áratugi í hverju sveitarfélaginu á fætur öðru. Nú er staðfest fólksfækkun á Vestfjörðum eitt árið enn í röð frá árinu 1981 eða í heil 12 ár samfellt. Fólksfjöldi á Vestfjörðum hefur ekki verið minni síðan fyrir 1880 eða í 113 ár. Já, því miður væri hægt að hafa þennan lista lengri og jafnvel enn óhugnanlegri.
    Úrræðaleysið. Á undanförnum vikum hefur mikil umræða farið fram í þjóðfélaginu um ástandið í undirstöðuatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, og þá ekki hvað síst hér á okkar landsvæði, Vestfjörðum. Ekki þarf að fjölyrða um þessi mál við þig og ástandið í þínu byggðarlagi. Sum byggðarlög eru þó því miður verr stödd en önnur. Með vissu má segja að veikleiki eins byggðarlags er ekki styrkur annars, heldur þvert á móti eykur vanmáttur eins á vanmátt heildarinnar til átaka og framþróunar. Allir þykjast skynja

hið alvarlega ástand landsvæðis okkar og jafnvel að það sé hvergi verra. Hjáróma stakar raddir sem ræða vandann kafna í fjölmiðlaflórunni. Stjórnvöld sem ráða vilja skoða, athuga, rannsaka, íhuga og guð má vita hvað til þess að hjálpa, en hjálpin gagnar ekki framliðnum.
    Lindin. Forustumenn atvinnufyrirtækja eiga auðvitað einhverja sök á því hvernig komið er málum. Sumir forustumenn okkar hafa jafnvel verið svo kokhraustir að segjast vera bjartsýnir á framtíð fyrirtækja sinna á sama tíma og þeir hafa verið að selja frá sér mjólkurkýrnar. Það gagnast samt engum eftir dauðann að kalla: Bjargið mér. En nú þegar virðist vera orðið ljóst að í algjört öngþveiti stefnir með atvinnulíf heilu byggðarlaganna, ekki bara einstaka fyrirtækja. Þá eru menn að koma fram í dagsljósið einn á eftir öðrum og lýsa yfir því að þeir gangi á síðustu blóðdropunum. Stoltið hefur eitthvað með þetta að gera, en stoltið verður ekki mikið eftir eftir að allt er tapað.
    Við forustumenn einstakra byggðarlaga höfum enn fremur verið ákaflega þröngsýnir í afstöðu til mála og málaflokka. Við höfum talið að okkur gæti tekist að halda betur á hagsmunum okkar umbjóðenda með því að pukrast einir úti í horni að úrlausn mála fremur en með því að standa saman að úrlausn þeirra í samvinnu við nágranna okkar. Ég vil leyfa mér að segja að stundum er eins og við sjáum sumir hverjir ekki skóginn fyrir trjánum.
    Baráttan. Vissulega hafa nokkrir aðilar reynt að vekja athygli stjórnvalda á vandanum og er ekki að mínu áliti á nokkurn hallað þó ég nefni að þeir sem fremstir í flokki fara í dag í þeim efnum eru forustumenn Byggðastofnunar. Við Vestfirðingar erum þó svo stoltir að við getum ekki komið fram fyrir skjöldu og sagt opinberlega: Þetta er rétt sem blessaðir mennirnir eru að segja. Einstaka þingmenn og forustumenn atvinnulífsins hafa einnig lagt þessum málum lið. Mín skoðun er að þeir séu reyndar líkast til heldur bjartsýnir þegar þeir mæla fyrir þessum vanda, trúlega vegna þess að viðmælendur þeirra gapa út í loftið í úrræðaleysi sínu þegar vandinn er skoðaður í hnotskurn og segja að fyrr megi nú rota en dauðrota, eins og gáfumenn núlifandi kynslóða hafa komist að orði.
    Aðgerðir. Nú er svo komið málum að við verðum að snúa bökum saman og styðja hvern annan. Styðja við bakið á þeim sem eru nú þegar að vinna í okkar málum og koma til með að gera það. Forustumenn Byggðastofnunar verða að finna að þeir hafi stuðning í fjórðungnum í sinni baráttu. Baráttu fyrir því að gripið verði nú þegar til sértækra aðgerða fyrir Vestfirði, enda deilir enginn upplýstur og viti borinn maður um þá staðreynd að ástand mála er hvergi eins slæmt og á þessu landsvæði.
    Fara verður fram á það að nú þegar verði úthlutað til Vestfirðinga auknum þorskkvóta, þorskkvóta sem úthlutað yrði til sveitarstjórnanna sem aftur úthlutuðu kvótanum til útgerðaraðila. Útgerðaraðilar yrðu síðan að tryggja að aflinn yrði unninn innan byggðarlaganna sjálfra. Þannig og aðeins þannig er unnt að tryggja atvinnu sjómanna og landverkafólks og framtíð fyrirtækja og sveitarfélaga sem á þessu svæði eru. Rök fyrir þessu eru næg, svo sem stöðug skerðing á þorski undanfarin ár umfram aðra stofna, en þorskur hefur verið uppistaða veiða vestfirskra skipa. Það má benda á að svokallaðar aukategundir eins og loðna, humar og síld eru utan veiðiheimilda Vestfirðinga. Ekki þarf heldur að fjölyrða um neikvæð áhrif á fjölmörg fyrirtæki og einstaklinga vegna þess banns sem stjórnvöld settu á hrefnuveiðar. Viðbótarráðstafanir við þessa aukaúthlutun á veiðiheimildum, eins og skuldbreytingar og lækkun alls tilkostnaðar, eru augljóslega nauðsynlegar að auki.
    Sjómenn hafa gengið ötullega fram í því síðustu missirin að berjast gegn því sem þeir kalla kvótabrask, sem allir hljóta að geta stutt einarðlega. Vonandi verður barátta þeirra til þess að gera lýðum ljósa þá staðreynd að kvótakerfið í heild sinni er gersamlega vonlaust stjórntæki. Kvótakerfið er ákaflega vel til þess fallið að rústa tilveru heilla byggðarlaga og því er það lífsnauðsyn að afnema það. Leggjum því öllum kvótaandstæðingum lið í baráttu þeirra.
    Sveitarstjórnarmönnum ber að ganga fram fyrir skjöldu í baráttunni og draga úr álögum á atvinnufyrirtæki í stað þess að þyngja myllusteina þá sem um háls þeirra hafa verið hengdir. Margir hafa þegar gert það með beinum og óbeinum hætti. Heill sé þeim, en aðrir hafa án efa ekki verið upplýstir um nauðsyn málsins af réttum aðilum. Dæmin sanna hvert stefnir og við einfaldlega þurfum ekki frekari vitna við. Tími aðgerða er runninn upp. Sýnum styrk og samstöðu, látum í okkur heyra. Við eigum allt okkar undir því að gripið verði til raunhæfra aðgerða til lausnar vandans nú þegar.
    Niðurlag. Kæri samherji. Ég vona að þú sjáir þér fært að styðja þetta mikilvæga baráttumál okkar með aðgerðum af hálfu sveitarstjórnar þinnar. Ef þú telur rétt eða vilt og átt þess einhvern kost að slá á þráðinn til mín og spjalla um málið, möguleika þína og þinnar sveitarstjórnar, þá bið ég þig um að hafa samband við mig. Það er auðvelt þessa dagana á kvöldin heima í síma 94-7779. Í vinnunni er ég með síma 94-7700. Faxið mitt er 94-7801. Munum að til þess að vinna orrustur þá þurfum við að heyja þær. Stríð okkar vinnst örugglega þó að einstaka orrustur hafi og muni tapast. Því getum við treyst ef samstaða næst.
    Með fyrir fram þökk.

Eiríkur Finnur Greipsson, oddviti Flateyrarhrepps.``

    Þessum lestri er lokið.
    Að mínu viti er hér skrifað af hógværð vel stílað bréf. En alvöruþungi bréfsins dylst engum heilvita manni sem les bréfið.
    Nú stendur hæstv. ríkisstjórn frammi fyrir því að aðgerðir verða að koma. --- Ég sé og heyri að hæstv. forseti vill fá annan í ræðustólinn. Ég mun því gera hlé á þessari ræðu og biðja aftur um orðið.