Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 14:43:43 (4305)


[14:43]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir að svara þessari fyrirspurn hjá mér. Ég þóttist reyndar vita það að Byggðastofnun hafi lagt fram hlutafé, framlag, í þetta fyrirtæki þegar það var stofnað. En ég var fyrst og fremst að spyrjast fyrir um þær milljónir sem áttu að fara til þess að þessi stofnun meðal annarra fengi verkefni. Það virtist vera að þó að ákveðið hefði verið og auglýst að þær stofnanir sem nýttu sér það fengju sérstakt framlag til þess þá dugði það ekki. Og mér er spurn hvort eitthvað frekar hafi á gerst í þeim málum, hvort það sé enn þá uppi að styrkja m.a. opinberar stofnanir hér á Reykjavíkursvæðinu til þess að nýta sér þessa þjónustu eða ekki.
    Hvað varðar hitt málið með atvinnuráðgjafa fyrir konur þá veit ég það einnig að víða eru starfandi konur sem atvinnuráðgjafar. En það sem ég átti við er að það verði sérstaklega stofnað til atvinnuráðgjafar með föstu starfi, starfi sem konur væru ráðnar í úti í kjördæmunum og það væri ekki tilviljun heldur væru þessar konur ráðnar til þess að sinna atvinnumálum kvenna í fjórðungunum. Þetta er sums staðar komið af stað en ekki alls staðar. Og ég held að stofnunin ætti að vinna markvisst að þessu.