Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1991 og 1992

92. fundur
Fimmtudaginn 17. febrúar 1994, kl. 15:01:11 (4307)

[15:01]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Þessar umræður um skýrslu Byggðastofnunar hafa staðið nokkurn tíma nú og verið gagnlegar og að ýmsu leyti ánægjulegar. Auðvitað er það svo að þessar skýrslur eru þess eðlis að það er eðlilegt að umræðan snúst að nokkru leyti um aðra þætti en skýrslurnar beint svo sem almennt atvinnulíf í landinu og þá sérstaklega úti í hinum dreifðu byggðum og ég tel að hér hafi margt athyglisvert verið sagt. Ég hugsaði reyndar aðeins til þess að það segir í lögunum að Byggðastofnun heyri undir forsrh. eins og það er orðað. Það er afskaplega lítið vald sem í þessari setningu felst því að það er nú þannig að samkvæmt lögum um þessa stofnun er stjórnin hinn raunverulegi valdaaðili og kannski væri það eðlilegra þar sem við höfum marga ágæta þingmenn sem eru í stjórn þessarar stofnunar að þeir sætu fyrir svörum fremur en ég um ýmsa þætti í skýrslunum því að þeir eru miklu betur að sér í þeim efnum heldur en ég. Þó að ég gæti spurst fyrir um þessa þætti þá hafa þeir sjálfir vikulega eða svo puttana á þessum atriðum þannig að vel má vera að ég sé að svara hér spurningum sem aðrir í salnum væru mér færari af augljósum ástæðu til að svara.
    Það var rætt hér nokkuð um eiginfjárstöðu Byggðastofnunar og nefnt að hún væri í bærilegu lagi. Ég hygg að það megi segja að svo sé og stjórnin á stofnuninni yfirleitt sé reyndar í ágætu lagi. Við getum horft á þessar skýrslur með ánægju hvað það snertir. Auðvitað skiptir miklu máli varðandi eiginfjárstöðuna að 1991 var yfirfært yfir á ríkissjóð beint 1.200 millj. kr. skuld sem auðvitað létti og breytti eiginfjárstöðu Byggðastofnunar. Síðan tel ég að Byggðastofnun hafi með mjög ábyrgum hætti staðið að stjórn sinna mála og ekkert sé í rauninni sérstakt, almennt að því að finna.
    Ég er líka sammála hv. þm. sem síðast talaði að umræða um landbúnað hér á landi er nokkuð á annan veg en maður sér annars staðar frá. Hér eru uppi raddir um það að íslenskan landbúnað væri hollast að leggja niður og búa algerlega að afurðum erlendis frá. Ég hygg að það sé ekki svona umræða í nokkru landi. Ég hygg að það sé ekki í nokkru landi umræða um að þjóð eigi ekki að vera sjálfri sér næg í frumþörfum af þessu tagi. Ég vek athygli á því til að mynda í viðræðum um Evrópubandalagið þar sem vinir okkar Finnar hafa sótt þar fast um að ganga inn í Evrópubandalagið. Þeir sjá í því ýmsan ávinning, m.a. í öryggislegu tilliti og efnahagslegu tilliti, en þeir eru mjög fastir á því að láta ekki ganga yfir hagsmuni byggðanna og landbúnaðarins þó að það megi segja að það sé óveruleg efnahagsleg stærð miðað við þann ávinning sem þeir þykjast fá við inngöngu í Evrópubandalagið. Þeir hika ekkert við það og það er vilji í öllum flokkum í Finnlandi að setja þau skilyrði mjög ströng. Það þætti skrýtið núna býst ég við hér á landi. En það segir þá sögu sem ég hef verið að reyna að segja að umræðan um íslenskan landbúnað hefur iðulega verið á villigötum og með mjög sérkennilegum formerkjum af hálfu ýmissa í þessu ágæta landi okkar. Ég get tekið undir orð hv. síðasta ræðumanns um þessi atriði.
    Varðandi einstök efnisatriði sem spurt var um efnislega þá spurði hv. 6. þm. Vestf. um 16 millj. kr. sem færð væri sem ábyrgð utan við efnahagsreikning. Ég hef fengið þá skýringu á því að hér sé um að ræða atriði vegna kaupa Árbliks hf. í Garðabæ á birgðum og viðskiptahagsmunum Hildu hf., ullarsölufyrirtækis. Slíkar ábyrgðir væru að jafnaði færðar utan efnahagsreiknings. Ábyrgðin hafi þegar fallið á Byggðastofnun og hafi nú verið gjaldfærð. Þetta eru upplýsingar sem ég aflaði mér eftir að spurningin var lögð fram og hafði ekki hugmynd um svarið meðan á spurningunni stóð að sjálfsögðu.
    Þá var spurt um aðrar byggðaáætlanir sem hafa verið gerðar. Þær hafa auðvitað margar verið gerðar, svo sem Vestfjarðaáætlun og fleiri sem menn kannast við. Þessar áætlanir höfðu ekki með sama hætti og nú er að stefnt lagaramma eða lagagildi, hafa sem sagt verið unnar sem viðmiðunaráætlanir eða upplýsingaáætlanir en ekki í sjálfu sér ætlast til að þær væru bindandi varðandi framþróun eða ákvarðanir um stjórnun Byggðastofnunar. Sú byggðaáætlun sem við ræðum hér á eftir er á öðrum grundvelli unnin varðandi atvinnuráðgjafana sem hv. 6. þm. Vestf. spurði um. Svarið er að þeir eru starfandi í öllum kjördæmum. Hv. þm. spurði einnig um fjarvinnslu og hvernig unnið hefði verið að þeim málum. Byggðastofnun hefur reynt að kynna þá þætti eins vel og kostur er, m.a. gefið út upplýsingabækling til kynningar á möguleikum við fjarvinnslu og veitt fjármuni til þessara þátta eins og kom hér fram í svari hv. 4. þm. Norðurl. v. Þetta hygg ég að hafi verið þær spurningar efnislega sem hv. þm. bar fram.

    Varðandi spurningar hv. 5. þm. Vestf. um flutning ríkisstofnana, hvort það væri hætt við þau áform sem fólust í niðurstöðu nefndar sem skipuð var til þess að fjalla um þau mál. Það er að sjálfsögðu ekki hætt við þau mál. Formaður þeirrar nefndar hefur eftir að nefndastörfum lauk farið í að kynna þessar hugmyndir víða á fundum með sveitarstjórnarmönnum. Ég sagði á sínum tíma þegar málið var rætt hér að málið kæmi til meðferðar þingsins og ég vona að það verði innan skamms tíma og þá verður þingið að taka afstöðu til þess með hvaða hætti það vill bregðast við þessum hugmyndum. Mér er kunnugt um að það eru ýmis sjónarmið uppi í þeim efnum enda eru þetta mjög vandmeðfarin mál. Við sjáum meira að segja þá úlfúð sem skapast þó jafnvel mjög lítil fyrirtæki, menn hafi hugmynd um það að flytja mjög lítil fyrirtæki út á land héðan, þá sér maður á mjög nýlegum dæmum að það geti skapað mikla úlfúð og erfiðleika þannig að það er afskaplega mikilvægt eins og hefur komið fram í umræðunum að að slíkum þáttum sé bærilega staðið.
    Varðandi flutning Byggðastofnunar til Akureyrar þá er sú hugmynd ein af þeim sem þarna eru nefndar og var reyndar nefnd í hvítbók ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. En það er þingsins að taka ákvörðun um það efni enda hefur þingið áður um það fjallað. Örlög þess máls verða að ráðast hér í þinginu.
    Það var spurt um það hvort hægt væri að fá skýrslu þá sem nefnd undir forustu Baldurs Guðlaugssonar vann. Ég veit ekki annað en þeir aðilar sem ræddu við fulltrúa þessarar nefndar hafi staðið í þeirri trú að þau samtöl væru trúnaðarmál enda var fjallað af mikilli hreinskilni um stöðu einstakra fyrirtækja. Ég geri því ekki ráð fyrir að ég geti svarað þessari spurningu játandi á þessu stigi en ég skal þó kanna það mál betur og rifja það upp.
    Fjórða atriðið sem hv. þm. spurði um var um stöðu og vinnu fulltrúa ráðherra og fulltrúa Byggðastofnunar vegna Vestfjarða. Sú vinna er á lokastigi og hefur jafnframt verið tengd hugmyndum um sameiningu sveitarfélaga og ekki alfarið bundin við Vestfirði eða vandamálin þar. Þó að þau séu fyrirferðarmikil í þessu máli hefur þessi vinna teygst yfir á aðra þætti og er unnin samhliða hugmyndum um sameiningu sveitarfélaga. Ég vænti þess að niðurstaða þeirrar vinnu eigi að geta legið fyrir innan allt of langs tíma.
    Hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði í upphafi ræðu sinnar hvort þörf væri á byggðastefnu og hvort við værum hér að ræða um eitthvert séríslenskt fyrirbæri. Umræðan um þessi atriði er sameiginleg umræðunni um landbúnaðarmál á Íslandi. Það eru margir sem standa í þeirri trú að byggðamálapólitík sé sérfyrirbæri á Íslandi og sumir telja hana af hinu vonda. Því fer auðvitað fjarri eins og hv. þm. vakti athygli á og sumir hafa gengið mun lengra í þeim efnum heldur en við. Ég held að það eigi að geta verið sæmileg sátt um það að heilbrigð byggðastefna á fullan rétt á sér og hún er verðugt viðfangsefni þjóðþings og fulltrúa hennar. Og ég held að þó að auðvitað megi gagnrýna sitthvað sem gert hefur verið í nafni byggðastefnu og ekki sé það allt kannski eins og best verður á kosið eins og önnur mannanna verk þá megi segja að mjög margt hefur líka verið unnið jákvætt í nafni og í þágu byggðastefnu sem menn geti verið stoltir af að hafa tekið þátt í eins og margir hv. þingmenn í þessum sal hafa vissulega gert. En eins og sá þingmaður sem síðast talaði áréttaði og hafði eiginlega í áskorunarformi þá ættu menn að horfa meira til framtíðar en fortíðar. Þessar skýrslur eru þótt góðar séu hluti af fortíðinni en hér síðar á fundinum vonandi horfum við aðeins til framtíðarinnar þegar við förum að fjalla um þá byggðaáætlun sem stjórn Byggðastofnunar hefur sameiginlega unnið að og er þaðan komin til þingsins.