Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:05:53 (4368)


[15:05]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. staðfesti sjálfur að tveir fundir hefðu verið haldnir í sjútvn. að beiðni nefndarinnar sagði hann til að ræða þessi mál. ( StG: Að beiðni sjútvn.) Því næst fullyrti hann og ég er ekki til frásagnar um það að þeir menn sem setta hafa saman hér mjög ítarlega og greinargóða skýrslu um sjávarútveginn hafi sagt pass á þeim fundi. Ég bið nú forláts en ég á bágt með að trúa því að menn sem koma á fund sjútvn. til að kynna sérstök mál hafi ekkert um það að segja en skila síðan skýrslu til sjútvrh. upp á nokkur hundruð síður eða á annað hundrað síður. (Gripið fram í.)
    Um orðhengilsháttinn auðlindaskattur o.s.frv. hef ég engu við að bæta. En mér kemur það spánskt fyrir sjónir sérstaklega af því að hér er á ferð hv. þm. Norðurl. v., síðan hvenær er hann svona mikill andstæðingur millifærslusjóða innan atvinnugreinar? Þegar við ræðum um landbúnað þá þykir það hin besta munkalatína að hafa þá sjóði sem flesta og sem digrasta hvers kyns gjaldtöku og sjóðagjöld til millifærslu innan greinarinnar. Er það þá auðlindaskattur á þessa grein? Og er þá meginstefna Framsfl. í landbúnaði að reka auðlindaskatt á landbúnaðinn? Hvers konar rugl er þetta? ( Gripið fram í: Það var ekki það sem maðurinn var að tala um.)