Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 15:42:23 (4375)


[15:42]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram hafa um margt verið athygliverðar. Það hefur komið fram eins og stundum áður í umræðum um sjávarútvegsmál blæbrigðamunur a.m.k. í ræðum stjórnarandstæðinga í þinginu. Það er talsverður munur á afstöðu þingmanna Alþb. annars vegar og Framsfl. hins vegar í umfjöllun um þetta mál eins og önnur sem lúta að uppbyggingu sjávarútvegsins í landinu.
    Ef ég hef skilið ræðu hv. 1. þm. Austurl. rétt þá er ekki ágreiningur um mikilvægi þess að halda áfram því verki að starfrækja sérstakan sjóð og afla til þess fjár til að standa að úreldingu fiskiskipa og hækka úreldingarhlutfallið enda átti hv. þm. frumkvæði að því að betrumbæta löggjöf þar að lútandi á sínum tíma. Það er ekki ágreiningur um það að mikilvægt er að standa að lánastarfsemi til þess að treysta fjárhagslega endurskipulagningu í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hins vegar kom fram hjá hv. þm. að hann hefði efasemdir um að unnt væri að styrkja fjárhagslega stöðu fyrirtækja með kaupum á fiskvinnsluhúsnæði. Í sjálfu sér er það rétt að það er engan veginn jafneinfalt að koma sjávarútveginum til aðstoðar við fjárhagslega endurskipulagningu með þeim aðgerðum eins og varðandi fiskiskipin. En rétt þótti að hafa slíkar heimildir í þessum lögum sem ástæða er til að ítreka að fela ekki í sér réttindi til handa eigendum fiskvinnsluhúsa né heldur skyldu af hálfu sjóðstjórnarinnar til kaupa. Hvort tveggja verður að meta í hverju falli þegar horft er á möguleika í viðkomandi fyrirtæki til þess að treysta rekstrarstöðu sína.
    Hv. 1. þm. Austurl. spurði að því hvort nú væru forsendur fyrir slíkri gjaldtöku eins og frv. gerir ráð fyrir. Rétt er að minna á í því sambandi að frv. mælir fyrir um það að gjaldtaka sem ella hefði farið fram samkvæmt gildandi lögum til þess að standa undir hluta af kostnaði við Hafrannsóknastofnun fellur niður í þrjú ár en leggst síðan á sjávarútveginn til þess að nýtast atvinnugreininni sjálfri. Hér er því um að ræða millifærslu í þeim tilgangi að standa undir þeim aðgerðum sem frv. gerir ráð fyrir að sjóðurinn annist. Það má e.t.v. líta á þær skuldbindingar sem sjóðurinn er að yfirtaka frá atvinnutryggingardeild og ella hefðu fallið á ríkissjóð.
    Þá kemur í ljós þegar það er skoðað að það þarf um 180 millj. á ári fram til 2005 til þess að standa undir þeim skuldbindingum en ráð hefur verið fyrir því gert að sala á 12.000 þorskígildislestum Hagræðingarsjóðs geti í meðalárferði skilað rúmlega 500 millj. kr. en miðað við núverandi stöðu aflaheimilda innan við 400 millj. kr. Þegar á þetta er litið má alveg ljóst vera að hér er verið að létta byrðum af sjávarútveginum. Sá kostnaður sem á hann leggst vegna skuldbindinga atvinnutryggingardeildar er a.m.k. helmingi minni en þær tekjur sem fengjust miðað við núverandi aflaheimildir við sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs. Þessi gjaldtaka kemur fyrst til framkvæmda í ársbyrjun 1996.
    Hv. þm. sagði að því hefði verið haldið fram að hér væri um að ræða fyrsta skerf að auðlindaskatti. Þetta var líka sagt og kom úr einhverjum hornum þegar hv. þm. sjálfur beitti sér fyrir stofnun Hagræðingarsjóðsins á sínum tíma. Þá var því haldið fram að þar væri vegna sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs um að ræða fyrsta skrefið í átt að auðlindaskatti.
    Þegar ég beitti mér í upphafi starfstíma núv. ríkisstjórnar fyrir breytingum á lögum um Hagræðingarsjóð var aftur sagt að hér væri á ferðinni fyrsta skrefið að auðlindaskatt og nú heyrist það enn þegar þessi gjaldtaka fellur niður en verður breytt yfir í fast form á aflaheimildir með sambærilegum hætti þá sé það fyrsta skrefið í átt til auðlindaskatts.
    Ég verð aðeins að segja út af þessu að það er búið að nýta þetta fyrsta skref býsna vel þegar búið er að nota þessar 12.000 lestir, sem hv. 1. þm. Austurl. beitti sér fyrir að Hagræðingarsjóður fengi á sínum tíma, þrisvar sinnum sem fyrsta skref í átt til auðlindaskatts þá hafa þær heimildir verið nýttar býsna vel í þeim tilgangi og ekki verður sagt að menn hafi gengið ýkja langt á þeirri braut þegar sömu heimildirnar eru notaðar í þrígang með þessum hætti.
    Aðalatriðið í þessu er hin efnislega niðurstaða. Það er verið að leggja niður gjaldtöku í formi sölu á aflaheimildum, það er verið að breyta því yfir í fasta krónutölu og sú upphæð rennur út til sjávarútvegsins sjálfs en ekki til annarra þarfa og er þess vegna ekki frá honum tekið en rétt að taka það fram að hér er auðvitað um millifærslu að ræða.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. lýsti afstöðu sinni með nokkuð öðrum hætti en hv. 1. þm. Austurl. Hann lýsti því yfir að í eðli sínu væri sjóður af þessu tagi samdráttarsjóður. Ég mótmæli þessar fullyrðingu enda hefur hún ekki við nokkur rök að styjast. Það felur ekki í sér samdrátt að nýta betur þá fastafjármuni sem fyrir hendi eru í atvinnugreininni. Það er fyrst og fremst tilraun til þess að fá meiri arð út úr atvinnustarfseminni og skapa þannig skilyrði til þess að takast á við ný verkefni og er reyndar forsenda fyrir framfarastefnu í atvinnugreininni þannig að atvinnufyrirtækin sjálf geti tekist á við ný verkefni sem aftur skapa

aukin verðmæti.
    Hv. þm. sagði að það væri réttlætanlegt að eyða meiri peningum en þyrfti til þess að sækja afla úr sjó vegna þess að þann aukakostnað mætti borga með verðmætaaukningu í atvinnugreininni. Ég ætla ekki að deila við hann að það er hægt að halda þannig á málum að þetta gerist með þessum hætti. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að verðmætaaukninguna í atvinnugreininni eigi ekki að nota til þess að stunda veiðarnar með meiri kostnaði en nauðsynlegt er heldur til þess að veita þeim afrakstri og þeirri verðmætasköpun út til þjóðfélagsins, út til fólksins í landinu til þess að bæta lífskjör þess. Og það er að því marki sem við erum að stefna þannig að hér er algerlega um grundvallarágreining að ræða milli mín og hv. þm. ef hann talar fyrir hönd Alþb. í þessu efni. Ég tel að það sé keppikefli að við aukum hagræðingu í greininni, nýtum fjármuni hennar sem best til þess að launafólkið í landinu njóti afraksturs sjávarútvegsins í ríkari mæli því að það er auðvitað verðmætasköpun sjávarútvegsins sem fyrst og fremst stendur undir lífskjörum alls almennings í landinu og velferðarþjóðfélaginu sem við höfum byggt upp og við þurfum á þessum afrakstri að halda til þess að bæta lífskjörin og standa undir eðlilegri velferð í landinu.
    Hv. þm. hafði svo af því áhyggjur að í þessu frv. fælist ekki nægjanleg skipulagshyggja, það væri ekki nægjanlega ákveðið af stjórnvalda hálfu hvaða fiskiskip ætti nú helst að nota, hvers konar fiskiskip ætti að kaupa og hvers konar fiskiskipum ætti að fórna. Ríkisvaldið yrði að stýra því hvort það ætti að kaupa fleiri eða færri fiskiskip af þessari tegundinni eða hinni.
    Ég er algerlega andvígur miðstýringarhugmyndum af þessu tagi. ( Gripið fram í: Hvað er sjóðurinn?) Ég tel að þær þjóni ekki hagsmunum atvinnugreinarinnar og ríkisvaldið og hverjir þeir sem sitja við stjórnvöl á hverjum tíma séu ekki betur til þess fallnir en þeir sem í atvinnugreininni starfa að taka þessar ákvarðanir. Það er meginsjónarmið og þó að við stígum hér skref til millifærslu innan atvinnugreinarinnar vegna þess vanda sem hún stendur frammi fyrir þá erum við að gera það í þeim tilgangi að auðvelda fyrirtækjum að takast á við þau verkefni. Það er ekkert fyrirtæki neytt til þess að sækja til þessa sjóðs. En þau eiga kost á að fá fyrirgreiðslu af hálfu sjóðsins við fjárhagslega endurskipulagningu. Hér er því um að ræða djúpstæðan ágreining að þessu leyti, fyrst og fremst við þá talsmenn Alþb. sem hér hafa talað og kemur glöggt fram hversu mikill munur er ekki aðeins á milli afstöðu stjórnarflokkanna annars vegar og Alþb. heldur augljóslega mjög verulegur munur á milli stjórnarandstöðuflokkanna því að talsmenn Framsfl. hafa talað með allt öðrum hætti um þennan sjóð og starfsemi af þessu tagi en alþýðubandalagsmenn hafa gert í þessari umræðu.