Þróunarsjóður sjávarútvegsins

95. fundur
Þriðjudaginn 22. febrúar 1994, kl. 16:29:15 (4387)


[16:29]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ætli það hafi ekki verið lagðir einhverjir fjármunir í þróunarverkefni varðandi hugsanleg orkukaup meðan hv. 8. þm. Reykn. var fjmrh. ( ÓRG: Jú, jú.) Það hygg ég að hafi verið gert. Ég er sammála hv. þm. og endurtek að það hefði verið æskilegra og betra að þetta frv. hefði komið fram fyrr, það er deginum ljósara. Hins vegar hefur tíminn nýst á marga lund, það hefur mikið verið að gerast í íslenskum sjávarútvegi, stórkostlegar nýjungar sem hafa komið fram á ýmsum sviðum og ný sókn í markaðstækifærum. Ég minni á að á síðasta ári var varið 50 millj. kr. til nýrra markaðsmöguleika vegna þeirrar opnunar sem verður á Evrópumarkaði. Það er aftur gert á þessu ári. Það hefur verið um að ræða aukningu á framlögum til rannsóknasjóða sem hafa styrkt verkefni af því tagi. En umfram allt hafa fyrirtækin sjálf verið að takast á við slík verkefni með mjög markverðum og athyglisverðum árangri sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. En sókn á þessu sviði þarf að halda áfram og við eigum mikið verk að vinna. Ég held að við hv. 8. þm. Reykn. getum verið sammála um það. Ég er alveg sannfærður um að það skiptir máli til þess að skapa svigrúm til þeirrar sóknar að við gefum fyrirtækjunum svigrúm sem eru að kikna undan skuldabagga fjárfestingar sem ekki nýtast nægjanlega til þess að nota kraftana til þeirra verkefna sem við erum sammála um að sjávarútvegurinn þarf að sinna í enn ríkara mæli til þess að treysta eigin undirstöður og undirstöður efnahagslífs í landinu.