Ríkisreikningur 1992

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 11:37:25 (4427)


[11:37]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Rétt í lokin á umræðunni, a.m.k. að mínu leyti, ætla ég að nefna það að ríkisreikningur fyrir árið 1991 er enn ófrágenginn. Hvernig hann verður afgreiddur hlýtur að hafa áhrif á þann ríkisreikning sem við erum nú að ræða, ríkisreikning fyrir árið 1992. Ríkisreikningur fyrir árið 1991 liggur enn hjá hv. fjárln. og það er að öllu leyti vegna ágreinings milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar um það hvernig skuli fara með Framkvæmdasjóð Íslands. Árið 1991 var talið að staða hans væri þannig að það þyrfti að færa rúmar 1.600 millj. kr. í ríkisreikning fyrir árið 1991 vegna sjóðsins. Bæði yfirskoðunarmenn ríkisreiknings og Ríkisendurskoðun eru ósammála því áliti. Það kom skýrt fram í umræðu um ríkisreikning fyrir árið 1991 að lagt var til að rúmlega 1.600 millj. kr. framlag til Framkvæmdasjóðs Íslands, sem þar er sett inn, yrði fært á árinu 1992. Þeim vanda hvernig á þessu ætti að taka hefur verið velt á undan sér og verið vísað til ríkisreikningsnefndar að taka á því máli hvernig með skuli fara. Þó kemur það alls staðar fram ef maður les vel yfir yfirlýsingar bæði Ríkisendurskoðunar, yfirskoðunarmanna og líka löggiltra endurskoðenda Framkvæmdasjóðs að sú afstaða sem tekin er í sambandi við þetta mál á þeim tíma mun ekkert breytast. Því þó svo að breyting yrði á lögum um ríkisreikning og bókhald mun hún ekki ná aftur fyrir sig.
    Ég held því að það verði að vísa því til hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarmeirihlutans á Alþingi að koma sér saman um, það er sjálfsagt pólitískt samkomulag, hvernig með þetta skuli fara svo hægt sé að afgreiða ríkisreikning fyrir árið 1991.
    Í stuttu máli til skýringar fyrir þá sem á hlusta þá er umrædd yfirtaka ríkissjóðs á skuldum Framkvæmdasjóðs rúmar 1.600 millj. kr. og var veitt samkvæmt heimild í 13. gr. lánsfjárlaga fyrir árið 1992 og reyndar ekki greidd út fyrr en í mars á því ári. Hún var notuð í mars árið 1992 en er síðan færð í reikning fyrir árið 1991. Þessu eru bæði yfirskoðunarmenn og Ríkisendurskoðun ósammála og það kemur raunar fram líka í skýrslu löggiltra endurskoðenda um Framkvæmdasjóð Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Í rekstrarreikningi 1991 er fært til tekna framlag frá ríkissjóði að upphæð 1.633 millj. kr. Byggist það á heimildarákvæði til fjmrh. samkvæmt lánsfjárlögum sem samþykkt voru 23. jan. 1992 og fjmrh. hefur þegar nýtt sér, samanber samkomulag við Framkvæmdasjóð sem er dags. 9. mars 1992. Þar sem ákvörðun um þetta framlag ríkissjóðs lá ekki fyrir á árinu 1991 sýnir rekstrarreikningur Framkvæmdasjóðs betri afkomu sem þessu nemur svo og eigið fé hans í árslok 1991.``
    Þarna stangast þetta því allt saman á við það sem kemur fram í ríkisreikningi 1991. Ég tel að það væri gott að fá það upplýst í þessum umræðum hvort búið sé að ná pólitísku samkomulagi um það hvernig skuli fara með afgreiðslu á ríkisreikningi fyrir árið 1991 áður en við förum að ræða afgreiðslu á ríkisreikningnum fyrir árið 1992. Þrátt fyrir að ríkisreikningsnefnd muni á næstunni skila áliti þá tel ég ekki að það geti virkað aftur fyrir sig þannig að það muni ekki hafa nein áhrif á þetta. Það er fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvernig með þetta skuli fara.