Skráning og mat fasteigna

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 12:44:40 (4438)


[12:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Varðandi þá fyrirspurn sem hv. 6. þm. Vestf. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir flutti, þá ætti að draga úr framlagi ríkissjóðs og sé ég hér með rétta útgáfu af fjárlögum ársins 1994 og 1993 þá kemur í ljós að munurinn á framlagi ríkisins er sá að í frv. til fjárlaga, reyndar eftir 2. umr., ég skal viðurkenna að það er ekki endanleg gerð sem ég hef hér í höndum, er mismunurinn milli tekna og gjalda 18,8 millj. Áætlunin gengur því út á það að eftir sitji 18,8 millj. en framlag úr ríkissjóði verði 43 millj. Ef hins vegar er litið á fjárlög sl. árs, og ég tek fram að það eru fjárlög en ekki ríkisreikningur, þá var gert ráð fyrir að framlög yrðu 44 millj. kr. úr ríkissjóði en mismunur 36 millj. sem lentu hjá stofnuninni.
    Ég get því miður get ekki svarað því nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur. Hugmyndin er sú, eins og kom fram hjá hv. þm., að þessi stofnun geti selt þjónustu sína annars vegar sveitarfélögum og hins vegar ríkisstofnunum ýmiss konar, þar á meðal ríkisskattstjóra og skattstofu, fjmrn., en einnig einkaaðilum. Þar kem ég að því, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. gat um, að hugmyndin er sú að Fasteignamatið geti boðið tryggingafélögum þjónustu sína eftir að EES-samningurinn kemst á en ég gat þess í minni framsöguræðu að nú geta erlend tryggingafélög komið til skjalanna og nú verður meira jafnræði á milli innlendra tryggingafélaga en innan tíðar verður lagt fram frv. af hálfu trmrh. sem gerir frekari grein fyrir þeim breytingum sem verða á því kerfi sem fyrir er. Þetta kann að hafa einhver áhrif á Reykjavíkurborg þar sem Húsatryggingarnar hafa tryggt öll hús í Reykjavík en ég ætla ekki að hætta mér út í þá sálma að skýra það hér að hve miklu leyti þær breytingar taka til Reykjavíkur enda verður umræða um það innan tíðar.
    Ég tel hins vegar að Fasteignamatið geti aflað tekna með fjölbreyttari hætti en hingað til hefur tíðkast. Ég er einnig þeirrar skoðunar að Fasteignamat ríkisins og aðrar stofnanir sem færa svokallaðar miðlægar skrár eigi að vinna betur saman og tími sé kominn til t.d. að merkja fasteignir með samsvarandi hætti af hálfu allra aðila. En það er nokkur brestur á að svo sé gert vegna þess að stofnanirnar sem hafa verið að fjalla um þessa hluti eru margar og það hefur borið á nokkrum erfiðleikum á samræmingu í störfum þeirra.
    Þegar kemur síðan að stjórn þessarar stofnunar þá hef ég a.m.k. ekkert hugsað um það hvaða tveir aðilar sem koma frá ríkinu eigi að setjast í þessa stjórn. Það kemur að sjálfsögðu vel til greina að fulltrúi félmrh. komi að því en ég sé ekki heldur að það sé nein nauðsyn á því því að fulltrúi fjmrn. á að vera fulltrúi ríkisvaldsins og almannahagsmuna í þessari stjórn. Ég er einnig þeirrar skoðunar að það sé ekki gott að kjósa á Alþingi stjórn fyrir þessa stofnun. Þetta er beint framhald af framkvæmdarvaldinu og ég tel eðlilegt að í stjórn séu settir þeir aðilar sem mestra hagsmuna hafa að gæta af því að sjá til þess að rekstrargjöldin bólgni ekki, verði ekki of há. Hins vegar á Alþingi að hafa sterkt og gott eftirlit með þessari stofnun þannig að hún sé ekki að færa út kvíarnar eða gera annað en það sem Alþingi vill að hún geri. Þetta er umræða sem kannski frekar hefði átt heima í umræðunni um ríkisreikning fyrr í dag.
    Varðandi svo að síðustu flutning stofnana út á land get ég einungis sagt að ég kannast við skýrslu um þetta efni. Ég held að engin ákvörðun hafi verið tekin um að flytja þá tillögu á Alþingi. Það kann þó að gerast. En ég tel að forsrh. verði þá að svara þeirri fyrirspurn.
    Um það hvort Fasteignamatið flytji að einhverju leyti starfsemi sína t.d. til Vestfjarða tel ég að þurfi að metast af þeim sem best þekkja til málanna. Ég þekki umræðuna sem hefur átt sér stað a.m.k. tvisvar í þingsölum um þetta tiltekna atriði. Það eru deildar meiningar um hvort það sé heppilegra að vinna þetta frá Reykjavík eða frá einhverjum stað á Vestfjörðum og mér finnst að fagleg niðurstaða eigi að ráða því. En ég vil jafnframt að það komi fram að ég er ekkert gegn því að stofnunin færist í heilu lagi eitthvað út á land ef menn eru ásáttir um slíkt. Það kunna að vera á því framkvæmdaörðugleikar því að hér er um að ræða skráningu sem eðli máls samkvæmt hlýtur að fara mest fram þar sem fasteignirnar eru flestar.