Fríverslunarsamtök Evrópu 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 16:03:05 (4462)


[16:03]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 609 er skýrsla Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fyrir árið 1993. Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 og hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir EFTA. Þingmannanefndin starfar í heilu lagi má segja og síðan er innan nefndarinnar starfandi dagskrárnefnd og þrír vinnuhópar, einn um landbúnað og fisk, einn um fjármál og einn um umhverfismál.
    Í vinnuhópnum um fjármál hafa starfað hv. þm. Guðrún Helgadóttir og Gísli S. Einarsson. Í hópnum um umhverfismál starfa núna hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og í vinnuhóp um fisk starfar sá sem hér stendur og auk þess hv. þm. Páll Pétursson.
    Þingmannanefnd EFTA fjallar um málefni Fríverslunarsamtakanna og eins samskipti við Evrópuþingið og um samskipti ríkja Mið- og Austur-Evrópu.
    Á síðasta ári fór mikill tími í það hjá nefndinni að undirbúa gildistöku samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og hvernig þing EFTA-þjóðanna ættu að búa sig undir gildistöku samningsins. Það voru haldnir allmargir fundir á árinu, bæði í dagskrárnefndinni og í þingmannanefndinni sjálfri, sem getið er í skýrslunni.
    Þau mál sem mun bera hæst á næstu mánuðum í störfum nefndarinnar og hafa verið í gangi á síðasta ári eru fyrst og fremst það hlutverk sem þingmannanefndin mun hafa í framkvæmd samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Þingmannanefnd EFTA skipar EFTA-hluta hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES en hinn hlutann skipa þingmenn af Evrópuþinginu. Það skiptir miklu máli að gott upplýsingastreymi sé frá stjórnvöldum EFTA-ríkjanna og frá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins til þingmannanefndarinnar og það skiptir líka miklu máli að þingmannanefndin velji úr þau mál sem mestu máli skipta fyrir framkvæmd samningsins og hafi áhrif á gang þeirra. Eitt af því sem mun t.d. reyna á í þessu sambandi á næstu mánuðum eru þeir erfiðleikar sem við höfum átt við að glíma varðandi viðskiptin við Frakkland. Ég tel víst að um þau vandræði verði fjallað á vettvangi þingmannanefndar EFTA og hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES.
    Í annan stað hefur verið fjallað mikið um Mið- og Austur-Evrópuríkin og þá leið sem hægt er að nota til þess að þróa samstarf þeirra við ríki Vestur-Evrópu á efnahagssvæðinu. Á síðasta ári voru haldnir tveir stórir fundir með fulltrúum þessara ríkja. Það eru Ungverjaland, Pólland, Slóvakía og Tékkneska lýðveldið og síðan Litáen, Eistland, Lettland, Albanía, og Slóvenía. Það hefur komið fram á þessum fundum að þessi ríki stefna á inngöngu í Evrópusambandið, en það liggur líka fyrir að það getur liðið nokkuð langur tími áður en sú innganga verður að veruleika.
    Fulltrúar nokkurra þessara ríkja hafa lýst miklum áhuga á því að ganga í Fríverslunarsamtök Evrópu eða EFTA á meðan þau eru ekki komin inn í Evrópubandalagið. Það munu væntanlega verða til umfjöllunar í þingmannanefndinni á þessu ári.
    Virðulegi forseti. Hér hef ég stiklað á stóru varðadi starf þingmannanefndarinnar, en að öðru leyti er skýrslan greinargott yfirlit yfir þá starfsemi sem þar hefur verið.