Alþjóðaþingmannasambandið 1993

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 17:11:11 (4477)

[17:11]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Skýrsla Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir sl. ár liggur frammi á þskj. 610. Þessi skýrsla er ítarleg og tæmandi um störf Íslandsdeildar sambandsins og ég sé ekki ástæðu til þess að fylgja henni neitt sérstaklega úr hlaði við þetta tækifæri.
    Ég vil hins vegar geta þess að á síðasta ári og sömuleiðis á þessu ári hefur það komið í hlut Íslandsdeildar sambandsins að annast verkstjórn og stýra starfi hins svokallaða Vesturlandahóps innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins og í því sambandi hefur verulega reynt á starfskrafta ritara deildarinnar, Þorsteins Magnússonar. Ég vil þakka honum sérstaklega fyrir vel unnin störf á vettvangi þessa starfs því án hans atbeina hefði ekki verið hægt að inna þessi störf af hendi með þeim hætti sem gert hefur verið.
    Kannski örlítil viðbót, virðulegi forseti. Alþjóðaþingmannasambandið eru umfangsmestu þingmannasamtök sem þingmenn á vegum Alþingis starfa innan. Það spannar 110 þjóðþing og er þar af leiðandi í eðli sínu nokkuð frábrugðið þeim samtökum sem rædd hafa verið hér á þessum þingfundi en þar er um að ræða ýmis svæðabundin samtök sem við Íslendingar eigum aðild að. Ég tel að það sé vissulega ástæða til þess að taka þátt í starfi sem þessu þó að hinir beinu hagsmunir séu e.t.v. með öðrum hætti en í til að mynda EFTA-samstarfinu. Það er vissulega mikils um vert fyrir Íslendinga og íslenska þingmenn að taka þátt í störfum samtaka sem spanna heiminn allan eins og þetta samband gerir og halda þar uppi merki og málstað Íslands þegar því er að skipta.
    Ég vil þakka meðstjórnarmönnum mínum í Íslandsdeildinni fyrir ágætt samstarf á liðnu ári og læt máli mínu lokið.