Skráning notaðra skipa

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 15:27:44 (4494)


[15:27]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ef flett væri upp í þingtíðindum kemur í ljós að andinn var annar í umræðum fyrir ári þegar þessi mál voru til afgreiðslu í þinginu hversu gömul fiskiskip mættu vera sem flutt væru inn til landsins og væri kannski hollt fyrir ýmsa hér að rifja þær umræður upp og kannski fletta því upp líka hvernig viðkomandi alþingismenn hafi greitt atkvæði á þeim tíma um þá lagabreytingu.
    Ég vil í annan stað taka fram að það er auðvitað algjörlega út í hött að vera að tala um þann pramma sem fluttur var til landsins, það var erlendur prammi og það er fullkomlega rétt að ég veitti leyfi til þess að hann yrði notaður við framkvæmdir. Ég hygg að það hafi verið vegna skolpræsisgerðar á Reykjavíkursvæðinu og var nauðsynlegt að hafa skip til þeirra hluta til þess að sú framkvæmd gæti náð fram að ganga. Þannig að þar var auðvitað ekki um neitt fiskiskip að ræða, það er algjörlega út í hött, en hitt mun vera rétt að skipið mun hafa sokkið. (Gripið fram í.) Ég hef hins vegar ekki kynnt mér sérstaklega æviskrá þessa skips eða þessa pramma og hef næsta lítinn áhuga á því máli. Aðalatriðið í þessu máli er það að lögum samkvæmt er óheimilt að flytja inn fiskiskip sem er eldra en 15 ára. Rökin fyrir því eru þau að við höfum talið rétt að reyna að halda fiskiskipastólnum í lágmarki og til þess að geta gert það var sú ákvörðun tekin, ég hygg að það hafi verið af Matthíasi Bjarnasyni á árinu 1978, að krefjast þess ef nýtt skip kæmi inn til veiða þá yrði annað úrelt eða selt úr landi. Það er þetta vandamál sem við erum í varðandi fiskiskipin og af þessum sökum eru mörg fiskiskip hér á landi í eigu Íslendinga sjálfra sem ekki hafa fiskveiðiheimildir og við höfum ekki veitt þeim slíkar heimildir. Þar að auki veitum við verulegt opinbert fé til úreldingar á fiskiskipum. Meðan staðan er þannig er auðvitað ekki skynsamlegt að breyta þessum eina þætti sem hér hefur verið til umræðu.