Varnir gegn útbreiðslu alnæmis

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:40:20 (4551)


[17:40]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Um þessar mundir eru 12 ár síðan sjúkdómurinn alnæmi var uppgötvaður. Sökum þess að hvorki bóluefni né lækning gegn HIV-sýkingu hefur fundist er eingöngu hægt að stemma stigu við sjúkdómnum með því að forðast smit. Til að forðast HIV-smit þarf almenningur að þekkja smitleiðir og jafnframt að læra að forðast smit og fara eftir þeim upplýsingum. Landlæknisembættið og landsnefnd um alnæmisvarnir hafa gengist fyrir könnun á kynhegðun og þekkingu á alnæmi og landlæknisembættið hefur einnig gert könnun um kynfræðslu og fræðslu um alnæmi í grunnskólum Íslands. Sú könnun var gerð á árunum 1990 og 1992. Í þessum tveimur fyrrnefndu könnunum eru margar mjög mikilvægar upplýsingar sem eru góður grunnur undir fræðslu og víðtækari varnarherferð gegn alnæmi. Því er það spurning mín hvernig heilbrigðisyfirvöld hyggjast nota þessar kannanir.
    Talið er að 200 einstaklingar smitist daglega í heiminum af þessum illvíga sjúkdómi. Hér á Íslandi greinist að meðaltali einn einstaklingur á mánuði með HIV-smit. Í lok árs 1993 hafa greinst samtals 83 einstaklingar á Íslandi með smit af völdum HIV-veirunnar. Á árinu 1993 greindust þrír nýir einstaklingar með HIV-smit. Sex greindust með alnæmi og átta létust vegna sjúkdómsins. Á Íslandi hefur því greinst samtals 31 einstaklingur með alnæmi, lokastig sjúkdómsins, og þar af hafa 20 látist.
    Fyrir fáum árum síðan var gerð mikil fræðslu- og upplýsingaherferð í öllum fjölmiðlum gegn þessum vágesti og spurning mín til hæstv. heilbrrh. er: Hyggst heilbrrh. gangast fyrir nýrri fræðsluherferð? Fsp. mín er á þskj. 594 og er svohljóðandi:
    ,,Hvað eru heilbrigðisyfirvöld að gera í fræðslumálum til varnar útbreiðslu alnæmis?``