Áfengis- og vímuefnavarnir

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:55:21 (4557)


[17:55]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Frv. sem hér um ræðir, þ.e. frv. til laga um áfengisvarnir og aðrar vímuefnavarnir, var lagt fram til kynningar vorið 1992 í lok 115. löggjafarþingsins. Haustið 1992 ákvað þáv. heilbrrh. að leggja frv. ekki fram sem stjfrv., en ritaði þann 2. des. 1992 þáv. formanni heilbr.- og trn., Sigbirni Gunnarssyni, og segir svo í bréfi hans, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. eru ýmis nýmæli sem sum hver eru álitamál. Heilbr.- og trmrh. sendir frv. hér með til heilbr.- og trn. Alþingis með beiðni um að nefndin yfirfari frv. og athugi hvort náðst getur samstaða í nefndinni um flutning þess á 116. löggjafarþingi.``
    Af þessu er ljóst að fyrrv. heilbr.- og trmrh. gerði ráð fyrir að heilbr.- og trn. Alþingis tæki frv. til athugunar og legði það fram ef hún teldi að um það gæti náðst samstaða. Það gekk ekki eftir.
    Þetta frv. hef ég kynnt í ríkisstjórn á sl. hausti. Þar var samþykkt að senda það í kostnaðarmat í fjmrn. Það er enn þá óafgreitt á borðum ríkisstjórnar. Ég hef hins vegar mikinn áhuga á að koma málinu fram. Á hinn bóginn er ljóst að álitamál eru nokkur, þverpólitísk, og hef ég samhliða látið yfirfara frv. með

það í huga að koma til móts við ábendingar og fækka þessum álitamálum ef það gæti orðið til þess að greiða frv. leið í gegnum ríkisstjórn og síðan hið háa Alþingi.
    Um þetta er út af fyrir sig ekki meira að segja. Ég vil hins vegar árétta það að ég hef fullan hug á því að koma frv. fram lítt breyttu. Ég vil hins vegar vísa á bug þeim fullyrðingum sem fram komu í máli hv. fyrirspyrjanda í þá veru að forvarnastarfi væri ekki sinnt. Ég hygg að það hafi komið skýrt fram í umræðu hér fyrr í dag að þar hafa upphæðir þvert á móti margfaldast milli ára og ég hygg að hv. þm. hafi heyrt það af vörum mínum. Þess vegna eru það staðlausir stafir fullyrðingar í þá veru að hér sé allt á hverfanda hveli.