Dýravernd

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 13:51:26 (4568)


[13:51]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Erindi mitt hingað í ræðustólinn er fyrst og fremst að færa hv. umhvn. þakkir fyrir hennar mikla starf. Það frv. sem hún fékk í hendur var einstaklega gallað. Þó vafalaust hafi það verið samið í góðri meiningu þá voru á því mjög margir annmarkar, jafnvel svo óvenjulegt má teljast á Alþingi. Nú hefur nefndin lagt fram brtt. á þskj. 621 og eru það hvorki meira né minna en 25 brtt. Ég hygg að það sé einstætt í þingsögunni, að minnsta kosti man ég ekki eftir þvílíkri yfirferð á einu frv. Þegar maður skoðar brtt. veldur það manni nokkrum erfiðleikum að frv. skuli ekki bara hafa verið prentað upp á nýtt því það er dálítið verk að lesa allar þessar brtt. saman við hinn upphaflega texta. En við fljótan yfirlestur sýnist mér að flestallar brtt. séu til góða og þær séu bót frá því sem upphaflega var sett í frv. Ég vil gera örfáar athugasemdir til viðbótar.
    Frv. er samið að nokkru leyti a.m.k. með hagsmuni dýralækna í huga og þeirra hagsmuna er ákaflega vel gætt í frv., jafnvel um of. Að sjálfsögðu er ómögulegt að umgangast búfé öðruvísi en að bóndinn eða hirðirinn verði iðulega að grípa til einhverra aðgerða sem eru markatilfelli hvort er læknisaðgerð eða ekki og algjörlega óþarfi að kalla til dýralækni. Það hefur verið dregið úr þessu í frv. en mér hefði þótt meinlaust þó það hefði verið gert enn meira en þarna er gert.
    Það er numið úr frv. hið fáránlega ákvæði um það að fara megi án dómsúrskurðar inn í hús sem náttúrlega stangast bæði á við önnur lög og réttarvenjur. Mér finnst að nefndin hefði líka mátt taka til athugunar 8. gr. frv. sem mér finnst vera óþarflega afdráttarlaus. Greinin er að vísu ekki nema tvær línur eða hálf önnur lína en slapp í gegnum nálarauga nefndarinnar einhverra hluta vegna. Það er illt að þeim skuli hafa yfirsést með að breyta einni grein. Greinin hljóðar svona í frv., með leyfi forseta, og mér skilst að það sé hugmyndin að hún standi áfram:
    ,,Eyrnamarka skal dýr sem yngst og á þann hátt að valdi sem minnstum sársauka. Óheimilt er að eyrnamarka fullvaxið dýr án deyfingar.``
    Fyrri setningin er réttmæt og eðlileg og góð en að krefjast þess að dýr sé í öllum tilfellum deyft ef það þarf að eyrnamarka það fullvaxið er allt of langt gengið. Nú gildir ekki það sama um öll dýr. T.d. er að mínum dómi stórkostlegt afbrot að hugsa sér að eyrnamarka fullvaxið hross eða yfirleitt hross sem er meira en fárra daga gamalt öðruvísi en með deyfingu og veit ég ekki einu sinni hvort deyfing dugir til að bæta hrossinu þann sálræna skaða sem það verður fyrir við eyrnamörkun. En það gildir allt öðru máli með sauðfé. Sauðkindin er miklu harðgerðari og hennar tilfinningakerfi er öðruvísi en t.d. hrossins og mér finnst það fáránlegt að krefjast þess í lögum að ef marka þarf fullorðna sauðkind þá sé hún deyfð. Ég held að það sé algjör óþarfi.
    Nú skiptir þetta dálitlu mál. M.a. vegna niðurskurðar vegna riðu og vegna annarra sjúkdómavarna er mjög mikilvægt að það sé ljóst hver á viðkomandi dýr, að menn séu ekki að fóðra dýr af öðrum búum í ógáti og það sé með glöggum mörkum þannig að hver sauðkind lendi hjá sínum eiganda. Þeir sem hafa orðið fyrir því að þurfa að skera niður vegna riðu kaupa sér lömb í öðrum landsfjórðungum eftir tilskildan tíma og reyna að koma sér upp bústofni aftur. Þau lömb hafa verið mörkuð ung og það er ákaflega mikilvægt að þeir sinni þeirri skyldu að marka þau upp þannig að það sé ljóst að þeir eigi lömbin og ekki verði misdráttur á milli manna. Margir bændur geta keypt lömb sama haustið á sama bænum eða haust eftir haust og við gætum hugsað okkur að ef þetta væri ekki gert þá væri kannski á 10 bæjum í Austur-Húnavatnssýslu lömb með markinu frá Hjarðarfelli. Það fyndist mér ekki viskulegt og það væri betra ef það væri vitað fyrir fram hver ætti hvert þannig að ef riða kæmi upp aftur á einhverjum af þeim bæ sem hefur keypt

lömb frá Hjarðarfelli þá væri hægt að rekja það hver ætti hina sjúku skepnu. Menn hafa verið að reyna að leysa þetta með eyrnamerkjum eða brennimerkjum en hornin geta brotnað og merkin dottið úr. Eyrnamark er gleggst og ábyggilegast.
    Hér er talað um tæknivædd stórbú sem eðlilegt er að menn gefi sérstakan gaum. Ég held að hér á Íslandi séu ekki í hefðbundnum búskap rekin tæknivædd stórbú í þeim skilningi að ástæða sé til að búast við að þess vegna sé dýrum misboðið. Hitt er að vísu rétt að í hinum miklu kjötsöluvandræðum sem nú hafa yfir þjóðina gengið hafa menn ekki fengið slátrað kálfum sínum með eðlilegum hætti og þeir eru e.t.v. orðnir of stórir fyrir þær stíur sem þeim eru ætlaðar. En að öðru leyti held ég að yfirleitt sé þetta í góðu lagi á Íslandi. Ég hef hins vegar komið í nokkur stórbú erlendis, bæði í Danmörku og Svíþjóð sérstaklega, þar sem dýrum hefur ekki liðið vel vegna þrengsla og vegna aðbúnaðar og þar af leiðir er ástæða til að taka þetta fram í lögum.
    Ég held að það sem okkur varðar kannski frekast sé meðferð á dýrum sem geymd eru í búrum og á þá sérstaklega við hænsni. Ég er ekki viss um að hv. alþm. væru sérstaklega ánægðir ef þeim væri búinn slíkur aðbúnaður sem hænsnfuglum sums staðar þar sem hænsnarækt er stunduð í hvað áköfustu skyni.
    Ég ætla ekki að orðlengja meira um frv. Ég vil endurtaka þakkir mínar til hv. umhvn. fyrir vönduð vinnubrögð og mikla vinnu. Það getur skeð að hægt sé að tína ýmislegt fleira til en ég ætla að láta þetta duga í bili.