Norðurstofnun á Akureyri

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 14:17:07 (4575)


[14:17]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um Norðurstofnun á Akureyri. Tillaga þessi var lögð fram hér á Alþingi í desember sl., og er svohljóðandi, svo ég fari hér í upphafi yfir tillögutextann:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að sett verði á fót á Akureyri Norðurstofnun sem hafi það hlutverk að stuðla að sem öflugustum rannsóknum innlendra aðila á norðurslóðum og alþjóðlegri þátttöku Íslendinga í málum er varða heimskautssvæðið.
    Meðal verkefna stofnunarinnar verði eftirfarandi:
    að vera íslensk miðstöð fyrir norðursamstarf og rannsóknir;
    að safna og miðla upplýsingum um heimskautamálefni;
    að eiga hlut að og skipuleggja rannsóknir sem m.a. varða umhverfisvernd í norðurhöfum;
    að samræma innlenda og alþjóðlega þátttöku Íslendinga í rannsóknum á norðurslóð;
    að annast tengsl við hliðstæðar miðstöðvar og stofnanir erlendis og laða þær til samstarfs;
    að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og aðra um norðurmálefni.
    Stofnunin heyri undir umhverfisráðuneytið og verði að meginhluta kostuð af íslenska ríkinu. Hún skal rækta tengsl og samvinnu við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir.
    Sett verði á fót föst samvinnunefnd um norðurmálefni skipuð fulltrúum tilnefndum af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Veðurstofu Íslands, Vísindaráði, svo og formanni sem umhverfisráðherra skipi án tilnefningar. Samvinnunefndin velji tvo úr sínum hópi í stjórn Norðurstofnunar auk formanns.
    Miðað verði við að Norðurstofnun hefji starfsemi í ársbyrjun 1996.``
    Þetta er tillögutextinn. Ég mun hér í framhaldi rökstyðja þetta mál nokkuð, m.a. með vísan í greinargerð allítarlega sem fylgir þessari tillögu.
    Eins og menn þekkja hér á Alþingi hafa heimskautasvæðin að undanförnu fengið mjög aukna þýðingu í alþjóðasamstarfi, sérstaklega norðurskautssvæðið. Ástæður fyrir þessu eru margar en meðal þeirra þýðingarmestu eru lok kalda stríðsins og sú þíða í samskiptum ríkja á norðurslóð sem fylgdi í kjölfarið. Meðal áfanga í þessari auknu samvinnu heimskautalanda má nefna stofnun Alþjóðaráðs norðurvísinda (IASC) 1990, Rovaniemi-samstarfið á sviði umhverfismála 1991, samvinnu um Barentshafssvæðið frá ársbyrjun 1993 og Norðurráðstefnuna sem haldin var á vegum Norðurlandaráðs í ágúst 1993 hér í Reykjavík.
    Í greinargerð með tillögunni er hverjum þessara áfanga gerð nokkur skil og ég vona að sú samantekt um samstarf um norðurskautssvæðið komi ýmsum að gagni þar eð slíkt yfirlit hefur ekki legið fyrir á íslensku mér vitanlega.
    Tillagan sem hér er flutt tekur mið af þessum breytingum og nauðsyn þess að Íslendingar taki fastar en hingað til á þeim málum sem snerta norðurslóðir á sviði rannsókna og alþjóðlegs samstarfs með því að koma hér á fót íslenskri miðstöð fyrir norðurmálefni.
    Af þeim samstarfsþáttum sem ég gat um áðan er kannski hvað þýðingarmestur sá sem fyrst var getið, þ.e. stofnsetning Alþjóðaráðs norðurvísinda, sem svo er kallað, en undirbúningur að því hófst 1987 og Íslendingar voru þátttakendur í fundum þess frá byrjun, undirbúningsfundunum einnig. Þetta ráð var formlega stofnað árið 1990 af norðurheimskautslöndunum átta en það er hin formlega tala. Til þeirra teljast átta fullvalda ríki, þ.e. Bandaríkin (vegna Alaska), Danmörk (vegna Grænlands), Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Að auki eiga nú aðild að Alþjóðaráði norðurvísinda (IASC) sex önnur ríki, þ.e. Bretland, Frakkland, Holland, Japan, Pólland og Þýskaland, sem öll láta sig norðurslóðir miklu varða og hafa um langt skeið átt þar hlut að rannsóknum. Átta ríkja hópurinn myndar svæðisnefnd (Regional Board) sem fjallar um sérhagsmuni norðurskautslandanna en annars starfa löndin fjórtán saman í ráði (Council) sem er aðalvettvangur starfseminnar.
    Alþjóðaráð norðurvísinda (IASC) er fjölfaglegt ráð þar sem aðild eiga vísindaakademíur eða rannsóknaráð viðkomandi landa. Hérlendis er Vísindaráð aðili að IASC. Magnús Magnússon prófessor, sem hefur lagt mikið af mörkum til þessara mála frá upphafi, er nú frá hausti 1993 forseti IASC og mun halda því starfi um nokkurt skeið.
    Ég vísa til greinargerðar um einstök verkefni þessa Alþjóðaráðs norðurvísinda sem eru fjölmörg og merkileg og fjölmargir sem tengjast þeim rannsóknum sem þetta ráð hefur með höndum.
    Í öðru lagi vil ég geta sérstaklega um Rovaniemi-samstarf norðurskautsríkjanna í umhverfismálum. En það eru umhverfisráðherrar norðurskautsríkjanna átta sem undirrituðu þetta samkomulag í júnímánuði 1991. Það er kennt við bæinn Rovaniemi í Finnlandi þar sem stofnfundurinn fór fram og felst í víðtæku samstarfi rkisstjórna í umhverfismálum á norðurslóðum. Þar er m.a. gert ráð fyrir samvinnu um vísindarannsóknir vegna umhverfismála, mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda á norðurslóðum, stöðugum upplýsingum um breytingar á umhverfi, sérstöku vöktunar- og matsverkefni vegna mengunar á norðurslóðum --- skammstöfun sem notuð er um þetta verkefni er AMAP, sem er stytting úr ensku heiti --- svo og verndun sjávarauðlinda og verndun plöntu- og dýralífs á norðurskautssvæðinu. Í undirbúningi er alþjóðleg ráðstefna sem halda á um síðasttalda verkefnið, þ.e. verndun plöntu- og dýralífs á norðurslóðum og hana á að halda hér á landi.
    AMAP-verkefnið hefur hingað til að mínu mati skilað mestum árangri af þessu samstarfi en það felst í mælingum og mati á ástandi umhverfis á norðurslóð og magni mengunarefna. Bráðabirgðaskýrslu var skilað til umhverfisráðherra norðurskautslandanna í Nuuk í september sl. en von mun á fyllri skýrslu á árinu 1996, sem á að draga fram ástand umhverfis á norðurslóðum með nokkuð skýrum hætti.
    Íslendingar eru þátttakendur í fleiri þáttum þessa norðursamstarfs, þar á meðal í samvinnuverkefninu um Barentssvæðið en til þess var stofnað í ársbyrjun 1993 undirritað af utanríkisráðherrum sex ríkja og raunar svo sérkennilegt sem það er þá var Evrópubandalaginu bætt í hóp þeirra sem undirrituðu --- kannski forboði þess sem koma skyldi og við erum að heyra fréttir af um þessar mundir. En ég get svona nefnt það hér að það var afskaplega lítil hrifning í Norður-Noregi af þeirri viðbót sem tengdist þessu samstarfi með formlegri undirritun Evrópubandalagsins undir samstarfið.
    Af norrænni samvinnu, svo aðeins sé drepið á hana, þá hefur hún vissulega verið nokkur um norðurmálefni. Þar eru sérstaklega Norðurkollu-nefndin innan ramma Norðurlandaráðssamvinnunnar sem hefur verið allfyrirferðarmikil og varðar nyrstu héruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Og síðan vestnorræna samstarfið milli landanna þriggja í norðvestri sem auðvitað snertir meira og minna norðurmálefni sem gefur að skilja.
    Ráðstefnan sem ég gat um, Norðurráðstefnan sem haldin var hér í Reykjavík í ágúst sl., markaði með vissum hætti þáttaskil í starfi Norðurlandaráðs að þessum málum. Hún var haldin eftir að samþykkt hafði verið tillaga í Norðurlandaráði sem Halldór Ásgrímsson flutti þar. Það var ágætt frumkvæði sem þar var tekið og af þessari ráðstefnu hefur ýmislegt sprottið.

    Við undirbúning þessa máls sem hér liggur fyrir hefur flm. m.a. horft til starfsemi sem komið hefur verið á legg og reyndar viðgengist lengi hjá nágrannalöndum austan og vestan hafs. Ég hef sérstaklega farið yfir málefni Norsk Polarinstitutt og rætt við talsmenn frá því við undirbúning málsins en 1992 og 1993 fékk norska Stórþingið í hendur sérstaka ,,meldingu`` sem svo er kölluð, stortingsmelding, um málefni Norsk Polarinstitutt og eitt af því sem ákveðið var um málefni þess við endurskoðun var í fyrsta lagi að það skyldi lifa, það skyldi eflt, en það skyldi jafnframt flutt frá Ósló til Tromsö og þeim flutningi á að ljúka í ársbyrjun 1998. Þá á þessi stofnun, sem stendur fyrir ekki minna en um 250 ársverk, að vera komin með miðstöð sína í Tromsö.
    Kanadamenn hafa verið að endurskipuleggja sín mál og þess er getið í greinargerð með hvaða hætti það er gert. Það er með talsvert öðrum hætti en í Noregi, enda landið stærra og aðstæður ólíkar en einnig má af því margt læra.
    Í greinargerð er vikið að, virðulegur forseti, helstu verkefnum íslenskrar Norðurstofnunar. Þar er vísað til þess sem áður er komið að sterk rök séu fyrir því að sérstök stofnun verði sett á fót hérlendis sem sinni málum er varða norðurslóðir þar eð fáar þjóðir eru jafnnátengdar norðurskautsvæðinu og við Íslendingar. Tillagan gerir ráð fyrir því það að ríkisstjórnin undirbúi að þessari stofnun verði komið á fót á Akureyri innan tveggja ára eða í ársbyrjun 1996. Og eins og kemur fram í tillögutextanum eru verkefnin ærin sem henni er ætlað að sinna. Hér er þó vissulega ekki gert ráð fyrir því að sett verði á fót mjög stór stofnun. Það skal ósagt látið hver vísirinn þurfi að vera, hversu öflugur hann þurfi að vera í upphafi en ég hef sett fram hugmynd til þess að miða við hugsanlegan kostnað af því að koma slíkri stofnun á laggirnar. Væri þarna um að ræða sex manna stofnun með tilheyrandi húsnæði og aðstöðu og búnaði þá mætti ætla að kostnaður við það gæti numið allt að 25 millj. kr. En á móti kemur það beina og óbeina gagn sem menn hljóta að hafa af stofnun af þessu tagi með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, með verkefnum sem Íslendingar geta komið höndum yfir og tekið þátt í og ella færu ofan garðs hjá okkur þannig að ég er ekki í neinum vafa um að þeim fjármunum, sem varið yrði til þess að sameina kraftana í málefnum sem varða norðurskautssvæðið, sé mjög vel varið og þeir eigi eftir að koma til baka með margvíslegum hætti okkur til hagsbóta.
    Okkur Íslendingum gleymist það oft hversu nátengdir við erum norðrinu, hversu háðir við erum umhverfisskilyrðum norðursins. Á þessu þarf að verða breyting. Það er mikil þjóðhagsleg nauðsyn að hér verði vakning í þessum efnum og við séum ekki eingöngu að mæna í suður þó að ólöstuðu samstarfi sem þar er efnt til á skynsamlegum grundvelli. En þá þurfum við að gæta að okkar hagsmunum að því er varðar okkar landfræðilegu legu, okkar möguleika sem þjóð á norðurslóðum og sem þjóð sem byggir sig öðru fremur á náttúruauðlindum hafsins en vöxtur og viðgangur þeirra náttúruauðlinda er mjög háð því sem gerist til norðurs.
    Tillagan um samvinnunefnd er ætluð til þess að auka ekki á umsvif umfram það sem nauðsynlegt er því að vissulega eru ýmsar stofnanir hér sem sinna norðurmálum og með samvinnunefnd, sem er ætlað að kjósa úr sínum hópi stjórn stofnunarinnar eða leggja til hennar ásamt formanni sem umhvrh. tilnefni, er ætlað að sameina kraftana og byggja á þeirri reynslu sem þegar er fengin hér með rannsóknum á ýmsum sviðum. Við undirbúning þessa máls átti ég viðræður við ýmsa á Akureyri en mér finnst vera einsýnt og svo augljós rök fyrir því að setja þessa stofnun niður þar að ég hef ekki eytt mörgum orðum að því, en þar er þegar komið umhverfi sem getur hlúð að þessari stofnun þegar frá upphafi og tengst henni. (Forseti hringir.) Og það þarf ekki að orðlengja það, virðulegur forseti, enda tími minn á þrotum, að undirtektir þar nyrðra við því að taka við þessari stofnun voru ágætar og ég efast ekkert um að þar verði lagst á árar í þessum efnum. En hér er sannarlega um landsstofnun að ræða og þannig þarf að taka málinu frá upphafi.
    Ég legg til að að lokinni umræðu verði þessari tillögu vísað til umhvn. þingsins.