Norðurstofnun á Akureyri

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 14:33:49 (4576)


[14:33]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér aðeins hljóðs hér til að taka undir þessa tillögu og þakka fyrir flutning hennar. Ég held að flm. hafi unnið mjög þarft verk með því að safna saman þeim gögnum sem hér liggja fyrir í formi greinargerðar og fylgiskjala með tillögunni og þá ekki síður með því að leggja til að málin verði tekin þessum tökum, að samræmd verði þátttaka okkar í öllum þessum málum sem lúta að umhverfi, náttúru og rannsóknum og öðrum slíkum verkefnum og tengjast okkur norðlægu breiddargráðu og þeim hluta hnattarins sem er norðan við okkur. Það er í raun umhugsunarvert hvers vegna Ísland hefur ekki fyrir löngu og í miklu ríkari mæli en raun ber vitni haslað sér völl á þessu sviði og sinnt þessum verkefnum meira og jafnvel nýtt sér, bæði í eigin þágu og annarra, betur stöðu sína, þessa norðlægu stöð og það hlið sem við ættum að geta orðið að starfsemi hér í kringum okkur og lengra norður með sambærilegum hætti og ýmsar aðrar þjóðir hafa gert. Reyndar hefur hugmyndum um það verið hreyft með ýmsum hætti á undanförnum árum að Ísland gerði sér mat úr stöðu sinni og reyndi að byggja sig upp sem ákveðna miðstöð á þessu sviði. Mætti þar nefna ýmsar hugmyndir frá umliðnum árum, svo sem eins og um alþjóðlega rannsóknastöð, miðstöð hafrannsókna, miðstöð umhverfismála hér við norðanvert Atlantshaf o.fl.

En hvað sem um það má segja, þá er hér lögð til ákveðin aðgerð í því skyni að samræma tök okkar á þessum málum og safna þeim saman, þessum verkefnum, á einn stað og það held ég að sé mjög tímabært og þarft. Þetta er í góðu samræmi við aukna meðvitund eða aukna vitund manna um mikilvægi umhverfismálanna og mikilvægi þess að taka á hlutunum á þessu sviði þannig að að því leyti til einnig eru þetta orð í tíma töluð.
    Það er enginn vafi á því að staðsetningin á Akureyri er vel til fundin, bæði vegna þess að þar eru að mörgu leyti ákjósanlegar aðstæður og eðlilegar aðstæður til að vinna að þessum verkefnum af Íslands hálfu, en það er ekki síður mikilvægt í mínum huga að þetta mundi verða til þess að efla mjög þá uppbyggingu á sviði æðri mennta og vísinda og það umhverfi af slíkum toga sem er að byggjast upp á Akureyri í tengslum við háskólann þar og eflingu rannsóknastofnana á svæðinu, einnig og ekki síður þá áherslu sem menn hafa hugsað sér þar að leggja á náttúrufræði og lífrænar greinar, umhverfi og málefni umhverfisins og hinnar lifandi náttúru.
    Þetta er einnig í góðu samræmi við ályktun Alþingis um að gera Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið að sérstakri miðstöð rannsókna og fræðslu á sviði sjávarútvegs því að augljóst er að lífríki hafsins hlýtur að verða mjög gildur hluti af öllum viðfangsefnum sem tengjast hinum norðlægu slóðum.
    Ég held að tillagan sem slík tali síðan fyrir sig sjálf og rökstyðji sig sjálf og svo sú ágæta greinargerð sem henni fylgir, sem og framsöguræða flutningsmanns þannig að af minni hálfu sé ekki efni til að bæta þar neinu við.
    Ég vona svo að þessi tillaga fái vandaða meðferð hér í þinginu og það verði skoðað af fullri alvöru að afgreiða hana á yfirstandandi þingi og hvet eindregið til þess að sú nefnd sem fær hana til umfjöllunar taki hana föstum og jákvæðum tökum. Það væri mjög þarft framlag okkar til þessa málaflokks m.a. ásamt með ýmsum öðru sem hér er á dagskrá þessa þings og fellur undir umhverfismál og náttúruvernd og ber að fagna því að mikil hreyfing er á þeim málum af ýmsum toga eins og m.a. dagskrá þessa fundar í dag ber glöggt vitni um. Því hljótum við að fagna sem höfum látið okkur umhverfismál einhverju varða hvað snertir störf Alþingis.
    Ég endurtek svo þakkir mínar til flutningsmanns fyrir þetta framtak sem ég tel mjög þarft og þá myndarlegu vinnu sem lögð hefur verið í málið og vona að það skili góðri niðurstöðu í samræmi við það sem til er stofnað.