Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 16:48:11 (4592)


[16:48]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. þann mikla áhuga sem hann hefur sýnt Snæfellsnesi. Hæstv. umhvrh. hefur ekki setið auðum höndum þann stutta tíma sem hann hefur setið í valdastól. Hann lýsti yfir fyrir skömmu að utanvert Snæfellsnes skuli gert að þjóðgarði og fékk lof heimamanna fyrir þó svo ég telji að það sé ekki fullkomlega búið að útfæra það hvernig sá þjóðgarður eigi að líta út.
    En það eru ýmsar spurningar sem vakna hjá heimamönnum einmitt varðandi það hvað það þýði þegar svo stórt landsvæði er gert að þjóðgarði eins og þarna er áætlað. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í þessari umræðu t.d. um það hvort það sé leyfilegt í þjóðgarði að skjóta ref og mink. Það er mjög mikilvægt fyrir fuglalíf á þessu svæði og reyndar annað dýralíf að það sé leyfilegt að skjóta ref og mink en mér skilst að almennt sé það ekki leyft í þjóðgörðum.
    Það frv. sem hér er til umfjöllunar hefur nú þegar fengið mjög mikla og ítarlega umfjöllun, þ.e. vernd Breiðafjarðar. Markmið frv. er gott eins og hér hefur komið fram. Í 1. gr. frv. á að stuðla að vernd Breiðafjarðar. Það er tilgangur lagafrv. þessa og það er gott. Það á um leið að vekja athygli á þessari fallegu og dýrmætu náttúruperlu. Það á að vernda menningarminjar og það á að styrkja ferðamannaþjónustu á svæðinu. Allt eru þetta góð markmið sem ég tek undir.
    Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að skipa fimm manna nefnd, svokallaða Breiðafjarðarnefnd, sem á að vera umhvrh. til ráðgjafar. En umhvrh., eins og fram hefur komið, á að fara með alræðisvald í þessu máli.
    Það verður að vera í höndum heimamanna hvernig þeir ætla að nýta þau hlunnindi sem eru á þessu svæði nú sem áður hefur verið. Það verður æðiþungt í vöfum ef það á að leita til umhvrh. um allt það sem skiptir máli varðandi hlunnindi á þessu svæði. Mér finnst að ráðherra ætti kannski að gera betur grein fyrir því hvernig hann hugsar sér þessa yfirstjórn umhvrh. á öllum málum þessa stóra svæðis. Annars er þetta frv., ef að lögum verður, svona rammalöggjöf sem erfitt er að fylla upp í með reglugerð og ég tek undir með hv. 1. þm. Vesturl. að það er nauðsynlegt að reglugerðin fylgi með frv. áður en lengra er haldið til að fylla upp í þannig að menn átti sig nákvæmlega á hvað þarna við er átt varðandi verndun þessa svæðis. Það mun skipta miklu máli ef þetta frv. verður að lögum hver er umhvrh. hverju sinni og hvaða skilning hann hefur á lífi og starfi Snæfellinga. ( Umhvrh.: Ert þú ekki kandídat?) Ég svara nú ekki þessari spurningu hæstv. umhvrh. að sinni en mun íhuga hana mjög vandlega. En ég tel sem sagt mjög gott að fá umfjöllun um þetta mikilvæga mál og þakka ráðherra fyrir það en ég er alveg viss um að hv. umhvn. á eftir að koma með margar brtt. við þetta frv.