Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:46:12 (4611)


[18:46]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef áður skýrt frá því að það vakti sannarlega athygli mína að þegar bráðabirgðalögin voru til umfjöllunar í nefnd, hv. sjútvn., þá var ekki á það minnst hvernig staðið var að útgáfu bráðabirgðalaganna. Miðað við þær umræður sem fóru fram í þinginu, hér á hinu háa Alþingi og stóðu svo klukkutímum skiptir, þá hefði mátt búast við því að á þetta hefði verið minnst í umfjöllun hv. sjútvn. um málið. Ég skýrði einnig frá því að ráðuneytisstjórinn í sjútvrn. og ráðuneytisstjórinn í forsrn. komu báðir fyrir nefndina og þeir voru ekki spurðir um það sem var meginefni umræðunnar hér við 1. umr.,

hvernig að útgáfu bráðabirgðalaganna var staðið. Það var því engin alvara sem stóð að baki þeirri umræðu og ég efast svo sannarlega um að það sé einu sinni alvara á bak við þá umræðu sem hér fer fram núna.
    Í sambandi við þá ákvörðun mína á forsetastóli að fresta ekki fundi þangað til hæstv. forsrh. kæmi til landsins þá hef ég enn betur sannfærst um það nú að sú ákvörðun var rétt svo ekki sé tekið tillit til þess að ef ég hefði tekið á ákvörðun að fresta fundi, þá væri ég að taka undir pólitíska skoðun sem hér er ríkjandi í þinginu og þar með misbeita valdi forsetans við fundarstjórn. Ég stend ekki þannig að þingstjórn á hinu háa Alþingi.