Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:54:38 (4615)


[18:54]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég hygg að það séu fá dæmi um það að tveir hv. þingmenn hafi samtímis og á jafnskömmum tíma vaðið jafnmikinn reyk í lagatúlkunum til þess að reyna að koma pólitísku höggi á andstæðinga sína eins og þeir hafa gert hér, hv. 7. þm. Reykn. og hv. 8. þm. Reykn. Svo vill til að báðir þessir hv. þm. eru ekki óbreyttir þingmenn því þeir eru formenn tveggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna og eru þar að auki ekki að tala um almenn lög eða túlkun á almennum lögum heldur túlkun á stjórnarskrá landsins.
    Hér er um nokkuð óvenjulega uppákomu að ræða og ég held að ég hafi ekki í annan tíma heyrt jafnfátækleg og haldlaus rök með lagalegum túlkunum eins og í þessu tilviki. Það kemur hvergi fram í stjórnskipunarlögum landsins og hvergi í fræðiritum um stjórnskipunarrétt að það sé áskilið að bráðabirgðalöggjafinn kanni fyrir fram og tryggi fyrir fram að meiri hluti sé fyrir bráðabirgðalögum í þinginu. Það kann vel að vera að ýmsum þyki það vera góð vinnuregla en góð vinnuregla að mati einhverra á ekkert skylt við stjórnskipunarrétt sem hér er notaður sem uppistaða í gagnrýni og órökstuddum árásum. Það liggur alveg ljóst fyrir og því hefur í raun og veru ekkert verið mótmælt að það er ekki skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðalaga að gera slíka könnun. Þvert á móti leiðir það af eðli máls að bráðabirgðalög eru þess eðlis að stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að ríkisstjórn á hverjum tíma hafi möguleika á því að setja lög án þess að kalla Alþingi saman og um leið án þess að fyrir fram sé vitað hvort á Alþingi sé meiri hluti fyrir þeim. Það liggur í eðli bráðabirgðalaganna. Það kemur líka skýrt fram í ákvæðum stjórnarskrárinnar um það að bráðabirgðalögin eru þeirrar náttúru að þau falla sjálfkrafa úr gildi innan ákveðins tíma ef Alþingi hefur ekki tekið afstöðu til þeirra sem sýnir auðvitað með öðru að stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir því að fyrir fram sé tryggt að meiri hluti sé á Alþingi.
    Þetta kemur líka í ljós þegar menn skoða málið og fara ekki aðeins undir yfirborðið heldur líta á hlutina í breiðu samhengi. Það er öllum ljóst og aldrei hefur því verið mótmælt að minnihlutastjórn getur sett bráðabirgðalög og ekki hefur hún tök á því að tryggja fyrir fram að fyrir hendi sé þingmeirihluti. Og það er meira að segja alveg ljóst að utanþingsstjórn getur sett bráðabirgðalög og stjórnarskráin takmarkar það ekki á nokkurn hátt. Allur málatilbúnaður þessara tveggja hv. þingmanna á því ekkert skylt við stjórnskipunarrétt eða túlkun á stjórnskipunarlögum. Hér er einvörðungu um að ræða pólitíska útúrsnúninga sem verið er að reyna að setja í búning stjórnskipunarréttar eða túlkunar á stjórnskipunarlögum. Og allt þetta upphlaup fellur því um sjálft sig. ( JÁ: Þetta er allt í fína lagi bara?)
    Það kemur enn betur í ljós þegar menn skoða með hvaða hætti þessar ásakanir eru bornar fram á ríkisstjórnina. Hér hafa þessir tveir hv. þingmenn, formenn tveggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna, borið þungar ásakanir á hæstv. forsrh. Ef þessir tveir hv. þingmenn tryðu því sjálfir að þeir væru að byggja gagnrýni sína á rökstuddum túlkunum á stjórnskipunarrétti þá hefðu þeir auðvitað ekki borið gagnrýnina fram með þessum hætti vegna þess að sá ráðherra sem ber ábyrgð stjórnskipulega á útgáfu laganna, leggur þau fyrir forseta Íslands og ber ábyrgð á þeim gagnvart Alþingi, er sá sem undirritar lögin með forseta Íslands. Ef þessir tveir hv. þingmenn hefðu á stjórnskipulegum grundvelli ætlað að bera fram gagnrýni á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra þá hefðu þeir beint gagnrýni sinni gegn þeim ráðherra sem á stjórnskipulegan hátt ber ábyrgð gagnvart þinginu á lögunum. En það gerðu þeir ekki. Með því eru þeir auðvitað að viðurkenna að grundvöllur þessarar gagnrýni eru pólitískir útúrsnúningar en ekki túlkun á stjórnskipunarrétti á nokkurn einasta máta. Að öllu þessu athuguðu er alveg ljóst að þessi gagnrýni og þetta upphlaup hefur ekki við nein stjórnskipunarlög að styðjast og færi miklu betur á því að þessir tveir hv. þingmenn viðurkenndu þetta.