Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:29:46 (4627)


[19:29]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er misskilningur að þessar tillögur hafi með bréfi verið dregnar til baka. Ég skrifaði hv. sjútvn. bréf þar sem ég vakti athygli á því sem ég sagði hér fyrr í andsvari við ræðu hv. þm. að það stóð ekki til að afgreiða þau mál efnislega samhliða bráðabirgðalögunum heldur kæmi umfjöllun um þau efni síðar samhliða umfjöllun um fiskveiðistjórnunarlögin. Það var efni þessa bréfs sem var sent hv. sjútvn. en fól ekki í sér neins konar afturköllun á þeim tillögum. Þær hafa ekki verið færðar í lagabúning vegna þess að við höfum talið rétt og skylt að fá viðbrögð þeirra aðila sem fengu tilögurnar til umsagnar. Þær komu fram fyrir tilsettan tíma og þegar umsagnir allra liggja fyrir, þar á meðal hv. sjútvn., þá geta menn tekið afstöðu til þess hvort rétt er að byggja á þeim tillögum eða setja fram aðrar hugmyndir. Ég hef nefnt í því sambandi að það sé ekki útilokað að reyna að byggja á svipuðum grundvelli og samningsaðilar voru að ræða um og áttu satt best að segja ekki langt í land að mínu mati að ná saman þegar þeir ítrekað hrukku frá samningsborðinu þar sem þeir voru að ræða um úrskurðaraðila í þessu efni. Það er annar kostur sem kæmi til álita ef hugmyndirnar um kvótaþing hljóta ekki stuðning.