Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 20:31:01 (4629)


[20:31]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns víkja að nál. 2. minni hluta sem er á þskj. 592 um stöðvun á verkfalli fiskimanna. Enginn vafi leikur á því að dugleysi ríkisstjórnarinnar að hafa ekki lokið endurskoðun laganna um stjórnun fiskveiða eins og skýrt er kveðið á um á stóran og trúlega drýgastan þáttinn í því að til verkfalls kom.
    Ríkisstjórnin náði ekki samkomulagi að vinna þá heimavinnu sem henni hafði verið sett fyrir, því miður, vegna ósamkomulags stjórnarflokkanna um fiskveiðistjórnunina. Við hljótum að reikna með því að við endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða verði þau atriði er deilunni hafa valdið tekin til gaumgæfilegrar skoðunar í sjútvn. Það er með þessa löggjöf um stjórn fiskveiða sem og önnur mannanna verk að ekkert er fullkomið. Ég legg þó áherslu á að við þá endurskoðun sem fram undan er á lögunum sé skynsamlegra að lagfæra núverandi kerfi en bylta því eins og mér finnst sumir tala um að sé nauðsynlegt að gera.
    Í mínum huga er það ekki kvótakerfið sjálft sem vandanum veldur í sjávarútveginum. Það er fremur sóknin til hafsins og hve stórkostlega hún hefur verið takmörkuð. Í nál. 2. minni hluta segir svo m.a.:
    ,,Allt frá síðasta vori hefur legið ljóst fyrir að það stefndi í átök milli samtaka sjómanna og útgerðarinnar, einkum vegna þeirra áhrifa sem viðskipti með aflaheimildir hafa á kjör sjómanna  . . .
    Annar minni hluti telur að þessi staða sem upp er komin sé alfarið á ábyrgð ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar. Stjórnarandstaðan hefur ekki átt aðild að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og lítið sem ekkert samráð haft við hana frekar en hagsmunaaðila.
    Annar minni hluti sjútvn. er andvígur setningu bráðabirgðalaganna samkvæmt frv. þessu og munu einstakir nefndarmenn gera nánari grein fyrir afstöðu sinni við umræðu um málið.``
    Það er ámælisvert hvernig staðið var að þeirri lagasetningu sem hér er til umræðu þó ekki sé fastara að orði kveðið. Það er staðfest að aðeins var haft samráð við tvo af þingmönnum Sjálfstfl. utan ráðherra flokksins um setningu bráðabirgðalaganna eins og rækilega hefur komið fram hjá ræðumönnum sem hafa talað á undan mér í dag. Þegar hæstv. forsrh. gekk á fund forseta Íslands til að fá staðfestingu á lögunum lá því ekki fyrir að meiri hluti alþingismanna styddi lagasetninguna. Það hlýtur að teljast alvarlegt fráhvarf frá öllum fyrri venjum og hefðum þegar svo hefur staðið á.
    Það er erfitt að trúa því, svo ekki sé fastara að orði kveðið, að forseti spyrjist ekki fyrir um stuðning Alþingis við slíka lagasetningu áður en forseti staðfestir slíka gerð með undirskrift sinni. Forsrh. skuldar þeim er hlut eiga að máli skýringu á þessu mjög svo alvarlega máli því í mínum huga er þessi gerð með hreinum ólíkindum. Í bráðabirgðalögunum var ákvæði um skipan nefndar sem falið var að gera tillögur um hvernig koma mætti í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hefðu óeðlileg áhrif á skiptakjör. Í tillögum nefndarinnar voru m.a. þessir punktar:
    Að koma á tilboðsmarkaði til að annast viðskipti með afla.

    Að koma í veg fyrir viðskipti með afla, svokallað tonn á móti tonni.
    Að fella niður umsagnarrétt sveitarstjórna og sjómanna áður en aflaréttur er seldur úr byggðarlögum.
    Það er skemmst frá því að segja að þessar hugmyndir sem nefndin lagði fram féllu víðast hvar í grýttan jarðveg, enda vandséð að þær tækju á þeim vanda er leiddi til verkfalls sjómanna eins og þeim var þó ætlað að gera. Enda segir svo í lokaorðum nefndarinnar:
    ,,Með skipulagsbundnum markaði er hins vegar ekki hægt að koma í veg fyrir að beinar peningagreiðslur hafi áhrif á skiptakjör sjómanna.``
    Þetta er lokaniðurstaðan í áliti nefndarinnar, svokallaðrar ráðuneytisstjóranefndar.
    Þann 8. febr. skrifaði hæstv. sjútvrh. sjútvn. bréf þar sem málið er nánast tekið frá nefndinni. Hv. 6. þm. Vestf. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir vék að því áðan. Vegna orðaskipta þeirra hæstv. sjútvrh. þykir mér rétt að lesa niðurlag bréfsins sem hæstv. sjútvrh. skrifaði sjútvn. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eðlilegt er að umfjöllun um áhrif viðskipta með aflaheimildir á skiptakjör sjómanna tengist umfjöllun um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 39/1990, um stjórn fiskveiða, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi og tekið verður fyrir til 1. umr. nú á næstunni. Ráðuneytið telur því eðlilegt að fyrrgreint frv. til laga um stöðvun verkfalls sjómanna verði afgreitt úr nefndinni, en`` --- og ég legg áherslu á það sem hér kemur á eftir --- ,,viðskipti með aflaheimildir og skiptakjör komi til umfjöllunar samhliða afgreiðslu fiskveiðistjórnarfrv.``
    Þessi lokaorð segja okkur það að meiningin er að tilefni deilunnar, sem var meint þátttaka sjómanna í kaupum á aflarétti, sé dreginn út úr og eigi að koma til umfjöllunar í sjútvn. samhliða frv. um stjórnun fiskveiða.
    Það er öllum ljóst að ráðherra hefur tekið í taumana og telur eðlilegast að leysa þessi ágreiningsmál samhliða endurskoðun laganna um stjórnun fiskveiða hvernig svo sem þau verða afgreidd frá Alþingi eða hvort þau verða afgreidd frá Alþingi. Það er líka spurning hvort Alþingi afgreiðir þetta mál, hvort stjórnarflokkarnir ná saman í þessu máli. Yfirlýsingar alþýðuflokksmanna í því sambandi hafa verið á þann veg að ég sé ekki fyrir mér að það náist að afgreiða þetta mál á þeim tíma sem eftir lifir þinghalds. En tíminn mun skera úr um það eins og svo margt annað.
    Ég hef þá skoðun enn sem ég talaði fyrir við 1. umr. málsins, að ríkisstjórnin hefði átt að binda í lög þá yfirlýsingu Sjómannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands frá 26. apríl 1992. Sú yfirlýsing sem Sjómannasambandið og Vinnuveitendasambandið undirrituðu hljóðar þannig:
    ,,Samningsaðilar eru sammála um að útgerðarmanni sé óheimilt að draga útlagðan kostnað vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum frá heildarsöluverðmæti aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað. Yfirlýsing þessi hefur engin áhrif á frjáls viðskipti útgerðarmanna sín á milli með aflaheimildir né samning áhafna einstakra útgerða við fiskkaupendur um fiskverð.``
    Ég tel, eins og ég gat um þegar þetta mál kom til 1. umr., að ríkisstjórnin hefði þá þegar átt að beita sér fyrir því að binda þessa yfirlýsingu í lög og jafnframt ná sátt um það við sjómenn eða deiluaðila að komið yrði upp þeirri úrskurðarnefnd sem margrædd hefur verið en því miður tókst ekki að koma upp vegna óskiljanlegs ágreinings að mér skilst um tölu nefndarmanna eða ég veit ekki hvað það nú var. Ekki fékkst það upp í sjútvn. hvar endanlega brast í þeim efnum. Ég tel að það hafi verið mikil mistök af ríkisstjórninni að lögbinda ekki þegar í upphafi þá yfirlýsingu sem deiluaðilar höfðu skrifað undir og koma þessari svokölluðu úrskurðarnefnd á laggirnar. Þar var tekið á kjarna deilunnar. Deilan fór síðan að snúast um marga aðra hluti, því miður, um sérkjarasamninga og ýmis önnur mál. Ég tel að það hafi verið miður og þess vegna hefði ríkisstjórnin átt að bregðast skjótt við og binda þetta í lög því að ég hef trú á því að á Alþingi sé mikill meiri hluti fyrir því að tryggja það að sjómenn verði ekki látnir taka þátt í kvótakaupum.
    Setning bráðabirgðalaga er vitaskuld ætíð neyðarúrræði sem ekki á að grípa til nema

öll önnur sund séu lokuð. Ég tel að ekki hafi verið reynt til þrautar að ná fram sáttum í þessari deilu, því miður. Það er í mínum huga, virðulegi forseti, ámælisvert, svo ekki sé fastara að orði kveðið, hvernig staðið var að þessari lagasetningu. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að grípa til þessara gerræðislegu vinnubragða með bráðabirgðalagasetningu vekur upp þá spurningu hvort ekki eigi að takmarka enn frekar rétt stjórnvalda til slíkrar lagasetningar. Mér finnst það verðugt umhugsunarefni fyrir alþingismenn hvort hér þurfi ekki að binda hnútana nokkuð fastar en verið hefur þannig að slíkir hlutir og hér hafa gerst geti ekki endurtekið sig.
    Það er umhugsunarefni hvernig komið er fyrir þjóðinni þegar réttur manna til að verja kjör sín með frjálsum samningum er svo freklega brotinn með beinum aðgerðum ríkisvaldsins eins og hér hefur orðið. Virðulegi forseti, ég vil undirstrika það enn og aftur að slíkt mun ég aldrei geta samþykkt.