Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:17:26 (4673)


[23:17]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ef hv. 8. þm. Reykn. hefði verið viðstaddur umræðuna í kvöld þá hefði hann ekki þurft að bera fram fyrirspurnina vegna þess að henni hefur verið áður svarað fyrr í kvöld. En það er rétt að endurtaka það að ráðuneytisstjóranefndin sem skipuð var samkvæmt lögunum skilaði tillögum fyrir tilsettan tíma. Ríkisstjórnin sendi þær tillögur til umsagnar, bæði hagsmunaaðila og sérstaklega til hv. sjútvn. Hv. sjútvn. hefur stundum gagnrýnt það að hafa ekki fengið mál af þessu tagi til umsagnar áður en ríkisstjórnin setti fram tillögur og þó að sú gagnrýni hafi stundum verið framsett án þess að fyrir henni væru gild rök þá eru eigi að síður stundum rök fyrir þeirri gagnrýni að það hafa verið ónóg samráð. Við höfum fengið svör frá hagsmunasamtökunum en ekki enn frá hv. sjútvn. Ég tel það vera fullkomlega eðlilegt vegna þess að þetta er býsna flókið mál og hv. nefnd þarf eðlilega nokkurn tíma áður en hún gefur formlegt svar og lætur í ljós sitt álit. Þess vegna held ég að það sé ekki nokkur leið að gagnrýna nefndina fyrir það að hafa dregið það að svara því hér þarf að skoða ýmsa þætti.
    Verði ekki á þessar tillögur fallist þá hef ég áður lýst því að við verðum að leysa málið á annan hátt og þá kemur helst til álita að lögfesta bókunina sem fylgdi kjarasamningunum á sínum tíma og styrkja það enn fremur með einhvers konar úrskurðaraðila. En það kemur fyrst til álita þegar við höfum fengið skoðun hv. sjútvn. á þeim tillögum sem fyrir liggja.