Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:33:16 (4680)


[23:33]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja ömurlegur vitnisburður um hve veikan málstað hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur að verja í þessu máli að hann skuli enn á ný grípa til þess að fara að ráðast á ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens því að sú ríkisstjórn sem hann var að ræða um núna og áðan og kallaði alltaf ,,þessa ríkisstjórn sem þessi þingmaður átti sæti í`` og annað í þeim dúr var ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens.
    Það vill svo til, hæstv. forsrh., að ég þekki mjög vel hvernig þáv. forsrh. Gunnar Thoroddsen stóð að setningu bráðabirgðalaga. Ég tók þátt í fundum með Gunnari Thoroddsen þar sem farið var yfir það að bráðabirgðalögin hefðu meiri hluta áður en þau voru sett. Gunnar Thoroddsen vandaði sig mjög vel við setningu bráðabirgðalaga og það var aðdáunarvert að fylgjast með því hvað prófessorinn í stjórnlagarétti og varaformaður Sjálfstfl., Gunnar Thoroddsen, vandaði sig í þeim efnum. Þess vegna mælist ég til þess enn á ný við hæstv. forsrh. að hann fari ekki að grípa til árása á Gunnar Thoroddsen til þess að reyna að verja óverjanleg vinnubrögð sín í þessu máli.
    Um þau einstöku bráðabirgðalög sem hæstv. forsrh. gerði að umræðuefni fyrr í þessum umræðum og nokkuð var um deilt hvort hefðu þingmeirihluta, þá get ég ítrekað það sem ég sagði fyrr að mér er kunnugt um það að hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen ræddi við einn af þingmönnum Sjálfstfl., sem ekki var í upphaflegu stuðningsliði ríkisstjórnarinnar, og fékk frá honum þau svör að hann mundi sitja hjá við afgreiðslu bráðabirgðalaganna. Þess vegna er það staðreynd að það eru engin fordæmi í íslenskri stjórnskipun fyrir jafnóvandaðri setningu bráðabirgðalaga og þeirrar sem við erum hér að ræða.