Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:40:05 (4684)


[23:40]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Mér finnst eiginlega miður hvað hæstv. forsrh. hefur tekist að hylja sig í reyk í þessu máli í kvöld og fá umræðuna til að snúast um aðra hluti en skipta máli. Hann hefur fengið menn til að tala í löngu máli um bráðabirgðalög fyrri tíma sem voru sett undir öðrum formerkjum, öðrum kringumstæðum en nú eru. Það er búið að breyta reglum um þessa hluti og hæstv. forsrh. hefur tekist það ætlunarverk sitt að fá umræðuna til að snúast um samanburð þessara mála á fyrri tíð og núna.
    Þannig hefur hann verið að draga athyglina frá þessu ámátlega máli sem þeir eru tveir einir að verja hér, hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hefur að vísu komið í ræðustólinn en mér hefur ekki fundist að hann hafi átt það erindi upp í þennan ræðustól að verja þessi bráðbirgðalög sem slík. Það er alveg æpandi að hér skuli eingöngu vera mættir þessir tveir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar til að verja þessi bráðabirgðalög. Það hefði farið betur að menn hefðu eytt svolítið meiri tíma í það að fara nákvæmlega yfir það um hvað þau fjalla og hvernig þau liggja fyrir mönnum í dag. Hæstv. forsrh. hefði betur eytt svolítið meiri tíma í að útskýra það fyrir mönnum hvernig í ósköpunum honum gat dottið í hug að koma með lausn á þessu máli sem felst í bráðabirgðalögunum án þess að bera það undir nema tvo þingmenn í sínum þingflokki, hvernig hann taldi að hann gæti þá verið búinn að tryggja stuðning við þetta mál. Það er ekki tilviljun að það skuli liggja fyrir núna að ekki er stuðningur við þessa niðurstöðu. Ryki var slegið í augu manna þegar verið var að ljúka þessari deilu með því að þarna væri lausnin fundin, að með þessum hætti mætti komast fram hjá því vandamáli sem var verið að takast á um í þessari deilu.
    Það var annað sem fékk mig til að biðja um orðið í þessari umræðu --- ég tel hana vera orðna nógu langa út af fyrir sig --- en það var það sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan að hann væri að bíða eftir umsögn sjútvn. um minnisblaðið sem hann sendi okkur frá ráðuneytisstjórunum þremur og það stæði á sjútvn. að skila áliti á þessu til hans. Ég verð að segja það alveg eins og er að það eru fréttir fyrir mig að málið skuli snúa svona. Þetta er í fyrsta skipti sem málið er svona lagt fyrir mig a.m.k. Ég hélt að það væri ekki hægt að misskilja seinna bréf hæstv. sjútvrh. til nefndarinnar þar sem hann tekur það mjög skýrt fram að hann ætlist til þess að það verði fjallað um þennan hluta málsins í tengslum við umfjöllunina um lögin um stjórn fiskveiða að öðru leyti. Ég held að það hafi ekki verið hægt að misskilja þann texta sem hæstv. sjútvrh. sendi nefndinni. En síðan mætir hann í ræðustól í kvöld og heldur því fram að hann sé að gefa nefndinni tækifæri til að fara vel yfir þetta mál og skoða það og bíði eftir því að fá niðurstöðu nefndarinnar á þessu máli akkúrat. ( Gripið fram í: Við skulum biðja um það í fyrramálið. Það er fundur í nefndinni.) Ég held að sjútvn. þurfi að ræða þessa stöðu alveg sérstaklega. Ég trúi því illa að hún hefði beðið mig að svara hæstv. ráðherra ef menn hefðu vitað að málið lægi svona fyrir og ekki ætti að taka mark á síðasta bréfi. Það er kannski von á þriðja bréfinu með þriðju útgáfunni á því hvað hv. sjútvn. á að gera við þetta mál.
    Sannleikurinn er auðvitað sá að þarna eru gersamlega áttavilltir menn á ferð. Þeir hafa breytt stefnunni gang eftir gang í þessu máli. Hæstv. sjútvrh. er búinn að skrifa tvö bréf til nefndarinnar og kannski er það þriðja á leiðinni. Menn hrekjast fram og til baka í málinu, mæta í þingsali til þess að verja málið og verja það fyrst og fremst með því að fá umræðuna til að snúast um fortíðina. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég tel að hv. Alþingi standi frammi fyrir afskaplega erfiðu vandamáli, þ.e. að afgreiða bráðabirgðalög sem eru orðin nánast spaugileg í ljósi þess sem gerst hefur síðan þau voru sett og í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um þau.