Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á ári fjölskyldunnar

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:40:14 (4695)

[13:40]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Nefnd til undirbúnings undir ár fjölskyldunnar hefur starfað í mörg ár og í upphafi þessa árs var haldin ráðstefna um vanda barna og unglinga og allt það sem gera mætti til að styrkja fjölskylduna í þjóðfélaginu. Voru flestir málaflokkar ræddir og ljóst að velferð fjölskyldnanna í landinu tekur til skattamála, heilbrigðismála, skólamála, atvinnumála, dagvistarmála, skipulagsmála og allra þeirra annarra málaflokka sem undir hv. Alþingi heyra.
    Þessa dagana stöndum við frammi fyrir því að 7 þúsund manns fá ekki atvinnu í landinu. Fátækt sem við höfum ekki þekkt lengi bíður nú fjölmargra fjölskyldna. Það er því ekki úr vegi að spyrja þegar farið er að líða að sumarhléi og ég beini máli mínu til hæstv. forsrh.: Hvaða ráðstafanir ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að efna loforð hæstv. félmrh. um raunhæfar lausnir í málefnum fjölskyldnanna í landinu? Vandann þekkja allir. Er hafin vinna við frumvörp sem bera í sér nýjar hugmyndir og ný tök á nýjum vanda sem við höfum ekki þekkt áður?