Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á ári fjölskyldunnar

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:42:35 (4697)


[13:42]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að svara en heldur þótti mér svarið lítið upplýsandi. Mér var fullljóst að frv. um embætti umboðsmanns barna er loksins komið inn í þingið og ber að þakka hæstv. félmrh. fyrir það. En er ég virkilega að heyra að ekkert sé í gangi á ári fjölskyldunnar, engin marktæk vinna til þess að horfast í augu við nýtt þjóðfélag og öðruvísi en við höfum áður haft? Eins og ráðstefna sem haldin var í janúar fjallaði um höfum við horft upp á það um skeið að æ fleiri börn og unglingar lenda í umtalsverðum vanda. Fólk er í þúsundatali við að missa íbúðir sínar ofan af fjölskyldunum. Vandinn blasir alls staðar við og ég hélt að til þess hefði ráðstefna þessi verið haldin að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að setjast niður og reyna að leysa þessi mál. Það er ekkert einkamál hæstv. félmrh. Það er verkstjóri hæstv. ríkisstjórnar, hæstv. forsrh., sem ber ábyrgð á framkvæmdum vegna árs fjölskyldunnar svo það verði ekki orðin tóm.