Kennaraháskóli Íslands

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 15:03:06 (4722)


[15:03]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirra ræðna sem hér hafa verið fluttar. Ég er alveg sammála hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um að það sé ástæða til að ræða skipan kennaranámsins í landinu hér á hv. Alþingi og ég vona að við fáum tækifæri til þess sem allra fyrst. Á því er áreiðanlega full þörf.
    Hv. þm. spurði hvað breytingin á 14. gr. gildandi laga fæli í sér. Ég hef í sjálfu sér svo sem engu

við það að bæta sem ég sagði áðan og er raunar rakið í athugasemdum við greinina, þ.e. að ákvæðið fjallar um skiptingu kennaranámsins í faglega þætti og vægi þeirra og sýnist ekki vera sérstök ástæða til að skipa þessu í lögum og þetta á sér ekki hliðstæðu í lögum um sambærilegar stofnanir. Það er ósk Kennaraháskólans að þessu ákvæði verði svona breytt og mér þótti sjálfsagt að verða við þeirri ósk. Þetta sé sem sagt ákvörðunarvald skólans sjálfs um faglegar áherslur af þessu tagi og ég held að það sé skynsamlegt að hafa þann háttinn á eins og skólinn hefur raunar óskað eftir.
    Það sama gildir um atkvæðisrétt fulltrúa stúdenta. Það er rétt að þarna er um nýmæli að ræða. Þetta er annað ákvæði í lögunum um Háskóla Íslands. En þetta er á sama hátt ósk Kennaraháskólans og ég taldi rétt að verða við þessari beiðni um að flytja frv. í þessum búningi. En þetta verður að sjálfsögðu kannað í hv. menntmn.
    Um frekari frestun á lengingu kennaranámsins hafa hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir gert að umtalsefni. Vissulega er rétt að kennaranámið er sérstakt og í því felst veruleg starfsþjálfun og svo það að þarna er um býsna umdeilt atriði að ræða, þótt það hafi ekki verið hér á hv. Alþingi þegar gildandi lög um Kennaraháskóla Íslands voru sett 1988. Ég veit að um það var góð samstaða að hafa ákvæðið eins og það var, að gera ráð fyrir lengingu kennaranámsins í fjögur ár. Síðan hafa komið upp efasemdir og eins og ég benti á í framsöguræðu minni þá varð það niðurstaðan með Kennaraháskólann á Akureyri. Að vísu voru settir þar upp tveir kostir, en þar var ákvörðun tekin um að kennaranámið skyldi vera þrjú ár.
    Í framhaldi af þessu öllu saman setti ég nefnd á laggirnar sem gera skyldi drög að frv., rammalöggjöf um kennaramenntunina, sem sýnist vera full þörf á. Það eru það margir skólar sem sinna kennaramenntun í landinu og hver þeirra hefur sín lög og sýndist full ástæða til að setja um þetta rammalöggjöf og að því er sem sagt unnið. Og af því að einnig var spurt hvað liði störfum nefndarinnar, þá hefur hún fengið leyfi til þess að taka sér lengri tíma heldur en ætlað var þegar hún var skipuð. Það var gert ráð fyrir að hún lyki störfum fyrir sl. áramót, en verkefnið reyndist viðameira en sýndist í fyrstu. Ég get ekki svarað því nákvæmlega hvenær hún muni ljúka störfum en ég vona að það verði núna fyrir vorið.
    Það er rangt að ég gefi mér það að kennaranámið verði þrjú ár. Ég gef mér það ekki, en ég vil sem sagt bíða eftir niðurstöðum nefndarinnar. Ég geri mér alveg grein fyrir þessum sívaxandi kröfum sem gerðar eru til menntunar kennara og því kann vel að fara svo að það verði niðurstaða nefndarinnar og þeirra sem hún kemur til með að leita til og hefur leitað til að þessum málum verði ekki skipað með öðrum hætti en þeim að námið verði fjögur ár. Ég ætla ekki á þessu stigi að fullyrða neitt um það. En vegna vafans og vegna þess að málin eru í þessari endurskoðun, þá er mér nauðsynlegt að fá heimildina til að fresta þessu enn. Það hefur svo sem enga dýpri merkingu að farið er fram á þetta langa framlengingu. Ég get ekki spáð í það hversu langan tíma það tekur að koma nýrri löggjöf á hér í þinginu um kennaramenntunina og allur er varinn góður til þess að þurfa ekki að vera sífellt með þetta hér uppi á borðum.
    Vegna þess sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði að hún vonaðist til að það væri ekki ætlunin að keyra þessi frumvörp í gegn bút fyrir bút, eins og ég held að hv. þm. hafi orðað það, þá er það ekki ætlunin. Framhaldsskólafrv., sem er núna í kynningu, var sett í kynningu einfaldlega til þess að vinna tíma, en það er auðvitað ætlunin að ræða hér á hv. Alþingi breytingarnar á skólalöggjöfinni í samhengi og það er nokkuð sem hefur þá aldrei verið gert fyrr. Og ég legg mikla áherslu á það að einmitt ný löggjöf um grunnskóla, framhaldsskóla og raunar leikskóla líka verði rædd hér á hv. Alþingi í samhengi. Ég vonast til að frv. um grunnskóla verði tilbúið nú um miðjan mánuðinn og þá verður það kynnt með sama hætti og framhaldsskólafrv. er kynnt núna og þessi frumvörp ættu því að verða samferða hér á hv. Alþingi. Sama er um leikskólafrv. Það er nú til meðferðar í þingflokkum stjórnarflokkanna og kemur væntanlega fyrir Alþingi nú á allra næstu dögum. Allt verður þetta sem sagt rætt í samhengi og ég ítreka að slíkt hefur ekki verið gert fyrr svo undarlega sem það nú hljómar.
    Ég held ég hafi engu við þetta að bæta. Ég held að ég hafi komið inn á meginatriðin í ræðum hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og Valgerðar Sverrisdóttur. Ég er sammála því sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að það er auðvitað óþægilegt fyrir skólann að vera í vafa um framtíðina, hvort námið verður fjögurra ára nám eða áfram þriggja ára. Ég hef hins vegar látið rektor skólans vita af þessum fyrirætlunum sem hér eru uppi á borði í tæka tíð þannig að þetta er ekkert sem kemur þeim á óvart núna öfugt við það sem auðvitað var haustið eða sumarið 1991 þegar horfið var frá því að taka upp nýja námsskrá vegna fyrirhugaðrar lengingar.
    Að öðru leyti þakka ég fyrir málefnalegar umræður og legg til, hæstv. forseti, ég held að ég hafi gleymt því áðan, að málið fari til hv. menntmn. að lokinni þessari umræðu.