Kennaraháskóli Íslands

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 15:15:19 (4724)


[15:15]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Fyrst um framhaldsskólafrv. og það kynningarstarf sem nú fer fram. Ég verð einfaldlega að biðjast afsökunar á því að það skuli ekki hafa verið sent með formlegum hætti til þingflokka stjórnarandstöðunnar. Það eru einfaldlega mistök vegna þess að þetta er að sjálfsögðu ekkert leyndarmál lengur. Það hefur verið sent til kynningar til ýmissa þeirra aðila sem við óskuðum eftir strax í upphafi að eiga sem best samstarf og samráð við. Þar er fyrst og fremst um að ræða hin ýmsu samtök kennara og skólameistara. Þangað hefur sem sagt þetta frv. verið sent og fundir haldnir með fulltrúum þessara aðila. En ég skal bæta úr þessu og koma frv. til þingflokka stjórnarandstöðunnar.
    Aðeins frekar varðandi 14. gr. Reglugerð varðandi skólann er að sjálfsögðu sett af menntmrh. en skólarnir sjálfir þurfa að hafa ákveðið frjálsræði og sjálfstæði og þar á meðal ákvörðunarvald um hinar faglegu áherslur. Það er það sem þarna er fyrst og fremst átt við.
    Um rökin fyrir þriggja ára náminu við Háskólann á Akureyri. Ég hef ekki tíma til að fara út í það. Það var allt rætt hér á sínum tíma, en það eru nokkuð aðrar áherslur sem eru í kennaranáminu á Akureyri. Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir að það kann að vera vafasamt, og kem þá inn á það sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan, að það yrði að vera jafnlangt námið, bæði við Háskólann á Akureyri og Kennaraháskólann. Það má vel vera. Ég hef ekki mjög ákveðnar meiningar um það en það kann líka að vera réttlætanlegt að mismunandi áherslur séu milli hinna ýmsu skóla.