Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 11:53:23 (4743)


[11:53]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að rengja það að hv. 8. þm. Reykn. hafi ekki tekið eftir því hver afstaða ríkisstjórnarinnar er í þessu efni. En sé svo þá er það vegna þess að hann hefur ekki hlustað. Afstaða ríkisstjórnarinnar er afar skýr. Hún hefur gefið fyrirheit um það og er að vinna að því að tryggja með lagalegum hætti að viðskipti með aflaheimildir hafi ekki áhrif á skiptakjör sjómanna. Til þess að ná því markmiði og þeirri stefnu er hægt að fara fleiri en eina leið. Og á grundvelli nefndarálits sem fyrir liggur, álits nefndar sem skipuð var með sérstökum lögum, hefur verið til umsagnar með eðlilegum hætti ákveðin tillaga í því efni. Það hefur verið að koma smám saman fram að þær tillögur eru umdeildar þó að formleg og endanleg ástæða liggi ekki fyrir af hálfu sjútvn. Ég hef lýst því yfir að það sé hægt að fara aðrar leiðir í því efni og hvaða kostur sé líklegastur til þess að ná stefnumarkinu. Og komi það í ljós eftir eðlilegt samráð við hv. sjútvn. þá verður málið unnið á þeim grundvelli.
    Ég vona að það eigi ekki að skilja orð hv. þm. á þann veg að hann telji óeðlilegt að hafa samráð við hv. sjútvn. um þetta mál.