Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 14:34:01 (4768)


[14:34]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971, með síðari breytingum. Núgildandi lög um náttúruvernd eru frá 1971, en þó að stofni til mun eldri eða frá árinu 1956. Þau hafa vissulega reynst ágætlega en um langt skeið hefur þó staðið til að endurskoða þau í ljósi breyttra aðstæðna. Þannig lagði þáv. menntmrh. fram á Alþingi á 107. löggjafarþinginu árið 1984--1985 frv. til laga um náttúruvernd sem var samið að tilstuðlan náttúruverndarþings og Náttúruverndarráðs. Frv. varð eigi að síður ekki útrætt á því þingi og var aldrei endurflutt. Umræður héldu eigi að síður áfram um nauðsyn endurskoðunar, m.a. á vettvangi Náttúruverndarráðs.
    Eftir stofnun umhvrn. árið 1990 vöknuðu þessar umræður af endurnýjuðum krafti enda einsýnt að það þurfti að endurskoða stöðu Náttúruverndarráðs í stjórnkerfinu þar sem ráðuneytið mundi að verulegu leyti taka við þeim hlutverkum sem Náttúruverndarráði er ætlað sinna samkvæmt lögum. Fæðing ráðuneytisins ein og sér kallar því á endurskoðun laganna, en það er líka ljóst að ný lagasetning á sviði umhverfismála hefur haft mikil áhrif á framkvæmd náttúruverndarmála. Þar má t.d. nefna lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og reglugerðir settar samkvæmt þeim, lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, lög um mat á umhverfisáhrifum, sem taka yfir stóran þátt af hefðbundnu starfi Náttúruverndarráðs, og jafnframt lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál.
    Í janúar 1992 skipaði þáv. umhvrh. nefnd til að endurskoða þá þætti náttúruverndarlaganna sem lúta að hlutverki Náttúruverndarráðs og stjórn náttúruverndarmála með hliðsjón af stofnun ráðuneytisins. Var óskað eftir því að nefndin lyki störfum fyrir 1. ágúst 1992. Það dróst hins vegar og þegar ég tók við embætti umhvrh. í júní 1993 tók ég þann kost að leysa nefndina frá störfum og láta vinna þennan þátt endurskoðunarinnar í ráðuneytinu.
    Virðulegi forseti. Náttúruverndarráð hefur mikla sérstöðu í ríkiskerfinu. Það er stjórnvald þar sem náttúruverndarþing kýs sex fulltrúa í ráðið en ráðherra skipar hins vegar formann án kosningar. Ríkissjóður fjármagnar rekstur ráðsins, það heyrir undir ákveðið ráðuneyti og er sem slíkt rekið á ábyrgð ráðherra þó ráðherrann hafi hins vegar mjög takmörkuð áhrif á ákvarðanir þess. Náttúruverndarráð er því í þeirri sérstæðu aðstöðu að sækja umboð sitt bæði til frjálsra félaga og ríkisins. Ráðinu er í raun bæði ætlað að framfylgja stefnu ríkisstjórnar eins og hún er á hverjum tíma en jafnframt að móta sína eigin sjálfstæðu stefnu.
    Samkvæmt lögunum frá 1971 er Náttúruverndarráð sjálfstætt og nánast ígildi ráðuneytis í náttúruverndarmálum. Þetta var eðlilegt og raunar skiljanlegt á sínum tíma en fær vart staðist eftir að sérstakt ráðuneyti umhverfismála hefur verið sett á stofn. Skilningur á þessu óvenjulega og að mörgu leyti þversagnarkennda hlutverki Náttúruverndarráðs hefur lengi verið til staðar hjá ráðinu sjálfu. Í þessu sambandi má minna á ræðu sem Elín Pálmadóttir, þáverandi varaformaður ráðsins, hélt á 6. náttúruverndarþingi árið 1987, en hluti þeirrar ræðu er einmitt prentaður í athugasemdum með frv.
    Í ræðu sem ég flutti við setningu 8. náttúruverndarþings á sl. hausti setti ég fram tillögur að breyttu stjórnkerfi náttúruverndarmála. Kjarninn í þessum tillögum var að skapa nýjan grundvöll fyrir starfsemi Náttúruverndarráðs en það getur að mínu viti ekki verið bæði háð og óháð ríkinu, haft í senn með höndum umfangsmikinn ríkisrekstur og stjórnsýslu en jafnframt verið sú sjálfstæða og gagnrýna rödd sem ég tel náttúruvernd í landinu þarfnast svo mjög. Með því að færa ríkisrekstur og stjórnsýslu til umhvrn. og stofnana þess, eins og ég tel eðlilegt, þá skapast grundvöllur fyrir sjálfstætt Náttúruverndarráð óháð valdboði ráðherra. Með þessum hætti má ná einfaldari og betri stjórnsýslu, skýrari verkaskiptingu milli stofnana og jafnframt öflugri vinnu við stefnumótun en hingað til.
    Það frv. sem nú liggur fyrir er að stofni til byggt á þessum tillögum. Ákveðið var að skipta heildarendurskoðun náttúruverndarlaganna upp í tvo hluta. Í fyrri hlutanum, sem liggur fyrir í frv., er stjórn náttúruverndarmála endurskoðuð en í þeim síðari verða önnur ákvæði laganna tekin til skoðunar og þá alveg sérstaklega sá hluti laganna sem fjallar um aðgang almennings að náttúru landsins og umgengni. Síðari hluti endurskoðunarinnar er mun flóknara mál og krefst víðtæks samráðs við samtök áhugamanna og hagsmunaaðila. Í frv. er því fyrst og fremst fjallað um stjórn náttúruverndarmála og II. kafli laganna frá 1971 endurskoðaður frá grunni. Auk þess er í frv. tekið á tveimur málum sem afar brýn þörf var talin á að leysa. Hið fyrra varðar gjaldtöku af ferðamönnum, en 8. náttúruverndarþing skoraði á stjórnvöld að marka án tafar skýra stefnu í gjaldtökumálum.

    Síðara atriðið varðar náttúruminjaskrá sem gerð eru lítil skil í gildandi lögum. Með skýrum ákvæðum um náttúruminjaskrá er ætlunin að styrkja friðlýsingarþátt laganna verulega. Það er mikilvægt í ljósi reynslunnar og ekki síður til að standa við skuldbindingar þjóðarinnar vegna fyrirhugaðrar aðildar okkar að alþjóðasamningnum um vernd líffræðilegrar fjölbreytni sem umhvrh. undirritaði fyrir Íslands hönd í Rio de Janeiro 12. júní 1992.
    Meginmarkmið þeirra breytinga á gildandi lögum sem felast í þessu frv. eru: að laga stjórnun þessa málaflokks að stofnun umhvrn., að styrkja stefnumótun um friðlýsingar og framkvæmd friðlýsinga, að skapa grundvöll fyrir sjálfstætt og virkt Náttúruverndarráð, að skilja ríkisrekstur frá annarri starfsemi Náttúruverndarráðs sem miðar að því að tryggja sjálfstæði þess gagnvart Stjórnarráðinu, að samræma verksvið umhvrn. og stofnana þess, að samræma lög um náttúruvernd nýjum lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og löggjöf á sviði mengunarvarna.
    Samkvæmt frv. mun Náttúruverndarráð ekki sinna stjórnsýslu á vegum ríkisins eða bera ábyrgð á ríkisrekstri. Ráðið verður sjálfstæður en þó lögbundinn ráðgjafar- og umsagnaraðili á sviði náttúruverndar. Gert er ráð fyrir því að Náttúruverndarráð móti sjálfstæða stefnu í náttúruverndarmálum og geti því hvenær sem er sem fulltrúi frjálsra félagasamtaka sem vinna að náttúruvernd gagnrýnt stefnu ríkisins í einstökum málum. Náttúruverndarráð hefur bakhjarl í náttúruverndarþingi þar sem fulltrúar frjálsra félaga koma saman til að ræða stefnuna um náttúruvernd og ekki síður í lögum um upplýsingaskyldu stjórnvalda á sviði umhverfismála.
    Í frv. er lagt til að sérstök stofnun, Landvarsla ríkisins, sem að stofni til er núverandi skrifstofa Náttúruverndarráðs, taki við þeim hluta af verkefnum Náttúruverndarráðs sem fellur undir ríkisrekstur. Þungamiðjan í náttúruverndarstarfi hinnar nýju stofnunar verður rekstur friðlýstra svæða og þjóðgarða, en auk þess mun hún sjá um undirbúning og framkvæmd þeirra friðlýsinga sem ráðist verður í.
    Eftirlit með framkvæmdum hefur verið veigamikill þáttur í starfi Náttúruverndarráðs. Með bættri löggjöf á sviði mengunarmála og með lögum um mat á umhverfisáhrifum er slíkt eftirlit sett í nýjan farveg sem óhjákvæmilega dregur verulega úr því hlutverki sem Náttúruverndarráð hefur gegnt á þessu sviði og byggist ekki síst á velþekkti 29. gr. gildandi laga. Náttúruverndarráð mun þó eftir sem áður gegna ákveðnu og mjög mikilvægu umsagnar- og eftirlitshlutverki og þannig gæta almannahagsmuna á sviði náttúruverndar.
    Sjálft frv., virðulegi forseti, eru sjö greinar og ákvæði til bráðabirgða. Hver grein frv. tekur til einstakra kafla í núgildandi lögum auk gildistökuákvæðis. Hver grein í frv. er því í raun samansafn margra greina. Langviðamesta greinin er hin fyrsta þar sem II. hluti núgildandi laga um stjórn náttúruverndarmála er felldur brott og í stað greina 2--8 í núgildandi lögum koma 15 nýjar greinar. Eins og í núgildandi löggjöf er kveðið á um það í nýrri 2. gr. að umhvrn. fari með stjórn náttúruverndarmála. Nýmæli er hins vegar að kveðið er á um það með skýrum hætti að ráðuneytinu beri að hafa samráð við Náttúruverndarráð, sveitarfélög og samtök áhugamanna um mótun stefnu og framfara á sviði náttúruverndarmála.
    Í alþjóðlegri umræðu á sviði umhverfismála síðustu árin hefur æ meiri áhersla verið lögð á það að stjórnvöld hafi samráð við almenning og þá sem besta þekkingu hafi á málunum á hverjum stað. Þetta var m.a. staðfest á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992.
    Í greinum 3--7 er fjallað um Landvörslu ríkisins. Landvarslan er að stofni til núverandi skrifstofa Náttúruverndarráðs sem er gerð að sérstakri ríkisstofnun sem heyrir undir umhvrn. Burðarásinn í starfi stofnunarinnar verður eins og fyrr segir umsjón með friðlýstum svæðum og þjóðgörðum auk undirbúnings og framkvæmdar friðlýsinga. Gert er ráð fyrir því að stofnunin hafi þriggja manna stjórn þar sem Náttúruverndarráð tilnefni einn, Ferðamálaráð einn og ráðherra skipa formann án tilnefningar. Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Landvörslunnar til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnarinnar. Framkvæmdastjórinn fer svo með daglega stjórn stofnunarinnar. Hann ræður starfsfólk að starfsmönnum þjóðgarða undanskildum.
    Í nýrri 5. gr. er fjallað um hlutverk Landvörslunnar. Þar kemur skýrt fram að stofnunin hafi umsjón með friðlýstum svæðum og þjóðgörðum auk þess sem gert er ráð fyrir því að hún geti tekið að sér umsjón með öðrum náttúruverndarsvæðum í samræmi við ákvæði annarra laga og sé þess óskað með svæðum sem ekki hafa verið friðlýst en þykja sérstök sakir dýralífs, landslags eða gróðurfars. Landvarslan getur með samningum falið öðrum aðilum umsjón náttúruminja og friðlýstra svæða að þjóðgörðum þó undanskildum. Þetta á t.d. við um sveitarfélög, áhugasamtök um náttúruvernd, ferðafélög og einstaklinga. Ákvæði þetta er í samræmi við 4. gr. reglugerðar um náttúruvernd frá 1973. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að setja þetta ákvæði í lög til að bæta þannig framkvæmd þessara mála sem hafa ekki verið í nógu góðum farvegi. Í frv. er skýrt tekið fram að í slíkum samningum Landvörslunnar verði kveðið rækilega á um réttindi og um skyldur samningsaðila hvað varðar umsjón með viðkomandi svæði, mannvirkjagerð þar og aðrar framkvæmdir, móttöku ferðamanna, fræðslu og ráðstöfun tekna af gjaldtöku ef hún er leyfð. Landvarslan mun áfram fylgjast með slíkum svæðum og sjá til þess að aðilar fari að samningum um meðferð landsins.
    Ég tel sjálfur nauðsynlegt að Landvarslan sé í góðum tengslum við ferðaþjónustuna, ekki síst vegna þess að stofnuninni ber að sjá til þess að land í hennar umsjá skaðist ekki af völdum ágangs ferðamanna. Raunar getur hún lokað svæðum í vörslu hennar ef hætta er á slíku. Í þessu sambandi má nefna það nýmæli sem er að finna í frv. að Landvörslunni er gert að gefa ráðherra skýrslu um ástand lands í umsjón hennar og aðstöðu þar til að taka á móti ferðamönnum. Hún á jafnframt að gera tillögur til úrbóta og gefa álit sitt varðandi stöðu ferðaþjónustunnar frá sjónarhóli náttúruverndar. Þetta er afar mikilvægt í þeirri viðleitni að draga úr mögulegum hagsmunaárekstrum í framtíðinni og samræma þessa tvo þætti betur sem í raun eru mun háðari innbyrðis en menn gera sér ef til vill grein fyrir. Virk náttúruvernd er nefnilega í raun undirstaða ferðamála hér á landi og þess vegna ekki síst er nauðsyn á samvinnu við ferðaþjónustuna.
    Fræðsla er forsenda virkrar náttúruverndar. Fræðsla er einnig ómetanleg til að fólk læri að njóta þess sem náttúran hefur upp á að bjóða. Af þessum ástæðum er gert ráð fyrir að fræðslumál verði stór hluti af starfsemi Landvörslunnar. Hún skal hafa forgöngu um fræðslu á svæðum í hennar umsjón og einnig fyrir skóla og almenning í samráði við umhvrn. Sérstaklega vil ég hér nefna heimild til að setja á stofn svonefndar gestastofur í þjóðgörðum landsins sem eru nýmæli og skýtur lagastoð undir mjög virðingarvert frumkvæði Náttúruverndarráðs á því sviði sem sýnir jafnframt einmitt vaxandi tengsl ferðaþjónustu og náttúruverndar.
    Samkvæmt frv. fá þjóðgarðsverðir skýrari stöðu en nú er og gert er ráð fyrir því að ráðherra skipi þá til fimm ára í senn. Það er líka nýmæli að umhvrh. getur falið þeim víðtækara eftirlits- og stjórnunarhlutverk á svæðum í umsjón Landvörslunnar í viðkomandi landshluta. Í framtíðinni gæti það aukið skilvirkni og hagkvæmni í umsjón og eftirliti með svæðum sem Landvarslan hefur á sinni könnu.
    Í nýrri 8. gr. er skotið styrkari stoðum undir friðlýsingarsjóðinn en hingað til. Í skipulagsskrá Þjóðhátíðarsjóðs er kveðið á um það að fjórðungur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins skuli renna til friðlýsingarsjóðs til náttúruverndar á vegum Náttúruverndarráðs. Auk þess hefur sjóðurinn tekið við gjöfum og fengið tekjur, m.a. vegna fjáröflunarstarfsemi Náttúruverndarráðs. Hingað til hefur Náttúruverndarráð farið með vörslu sjóðsins og jafnframt stjórn hans. Í frv. er gert ráð fyrir því að Landvarsla ríkisins taki við því hlutverki, en hins vegar verði skipuð sérstök stjórn sem úthluti styrkjum úr honum. Það er gert ráð fyrir því að Náttúruverndarráð tilnefni formann stjórnar en aðrir verði tilnefndir af Landvörslunni og ráðherra.
    Veikasti hlekkurinn í framkvæmd náttúruverndarmála eru náttúruverndarnefndirnar sem hafa ekki gegnt því hlutverki sem þeim var ætlað á sínum tíma. Í frv. er lagt til að þeim verði fækkað og miðist eftirleiðis við kjördæmi þannig að umdæmi þeirra verði mun stærri en nú. Í frv. er einnig gert ráð fyrir tengslum náttúruverndarnefnda við eftirlitsmenn Náttúruverndarráðs og náttúrustofur kjördæma. Með þessum hætti er ætlunin að auka náttúruverndarstarf úti í héruðunum og jafnframt að skjóta styrkari stoðum undir starfsmenn náttúruverndarnefnda og gera þær virkari.
    Náttúruverndarþing mun að mestu starfa óbreytt en verða haldið oftar eða annað hvort ár í stað þriðja hvers í dag til að auka tengsl ráðsins við sína umbjóðendur. Lítils háttar breyting er á því hverjir eiga sæti á þinginu en hins vegar er gert ráð fyrir því að eins og hingað til sé hægt með reglugerð að fjölga samtökum sem þar eiga fulltrúa.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að Náttúruverndarráð verði nú skipað níu mönnum, sjö kosnum af náttúruverndarþingi, einum tilnefndum af Sambandi ísl. sveitarfélaga og einum af Ferðamálaráði. Þetta er gert til þess annars vegar að efla tengsl og gott samstarf ráðsins við sveitarfélögin í landinu og hins vegar til að skapa liprari farveg milli ferðaþjónustu og ráðsins.
    Þar sem eitt af markmiðum frv. er að gera Náttúruverndarráð sjálfstæðara nú mun ráðherra samkvæmt frv. ekki lengur skipa formann og varaformann ráðsins heldur verða þeir, eins og aðrir í ráðinu, kosnir af náttúruverndarþingi. Í því skyni að tryggja Náttúruverndarráði óheft svigrúm til að gegna hlutverki sínu sem fulltrúi frjálsra samtaka er gert ráð fyrir því að í lögum verði mælt skýrt fyrir um að hið opinbera tryggi því fjármagn til að halda skrifstofu og framkvæmdastjóra og greiði auk þess þóknun til ráðsliða.
    Hvert er þá hlutverk hins nýja Náttúruverndarráðs? Það er einkum þrenns konar:
    1. Að stuðla að almennri náttúruvernd og fylgjast með því að náttúru landsins sé ekki spillt.
    2. Að vera stjórnvöldum til ráðgjafar með umsögnum um lagafrumvörp áður en þau eru lögð fram, um reglugerðir og almenna stefnumótun og framkvæmdir á sviði náttúruverndarmála.
    3. Náttúruverndarráð hefur mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna þó eðlilega muni það breytast frá því sem nú er.
    Í fjórða lagi mætti e.t.v. nefna að það eigi að sjá um að tryggja rétt almennings til að njóta náttúru landsins.
    Til að ná þessum markmiðum skal Náttúruverndarráð marka sér sjálfstæða og rökstudda stefnu í náttúruverndarmálum og kynna hana almenningi og stjórnvöldum. Hér tel ég vera um afar mikilvægt atriði að ræða sem störfum hlaðið Náttúruverndarráð hefur e.t.v. ekki náð að sinna sem skyldi á síðustu árum. Sé stefnan vel unnin og skýr eiga stjórnvöld erfiðara með að sniðganga hana og Náttúruverndarráð hefur að sama skapi sterkari stöðu til að veita stjórnvöldum virkt aðhald og gagnrýni. Náttúruverndarráði ber þannig að vera rödd almannahagsmuna í náttúruverndarmálum. Þetta hlutverk er ómetanlegt og því nauðsynlegt að gefa Náttúruverndarráði svo skýra lagalega stöðu sem hér er lagt til.
    Til þess að tryggja betur samráðs- og ráðgjafarrétt Náttúruverndarráðs er í frv. kveðið á um a.m.k. tvo fundi á ári með umhvrh. Náttúruverndarráð getur áfram gert tillögur til ráðherra um friðlýsingar, en það verður hins vegar hann sem tekur ákvarðanir um friðlýsingar og stofnanir ráðuneytisins sem undirbúa þær

og framkvæma. Ráðherra verður hins vegar að leita álits Náttúruverndarráðs áður en friðlýsing er staðfest. Náttúruverndarráð mun því ekki hafa það beina vald til friðlýsinga sem felst í núgildandi lögum en áhrif þess á friðlýsingar verða mikil eftir sem áður.
    Verulegur hluti af starfi Náttúruverndarráðs hefur verið að framfylgja 29. gr. laga um náttúruvernd. Með nýjum lögum um mat á umhverfisáhrifum flyst það hlutverk hins vegar að miklu leyti til embættis skipulagsstjóra ríkisins sem hefur lögum samkvæmt umsjón með matinu. Eftir sem áður er þörf á virku eftirliti Náttúruverndarráðs og er því kveðið á um það í nýrri 13. gr. að ráðið fjalli um framkvæmdir sem eru háðar mati á umhverfisáhrifum.
    Náttúruverndarráði ber einnig samkvæmt nýrri 14. gr. að fylgjast með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum sem brjóti í bága við náttúruverndarlög. Ráðinu verður heimilt að ráða til einstakra verka sérstaka eftirlitsmenn til þess að sinna þessu verkefni. Gert er ráð fyrir að samvinna verði höfð við héraðsnefndir og náttúrustofur um ráðningu eftirlitsmanna og skiptingu kostnaðar af störfum þeirra enda hafa þessir aðilar aðgang að eftirlitsmönnum. Það ætti að stefna að því tel ég að flytja þetta eftirlit í ríkari mæli út til héraðanna, til náttúruverndarnefnda og náttúrustofa þegar þær rísa í kjördæmum landsins. Slíkir eftirlitsmenn hafa raunar starfað um langt skeið á vegum Náttúruverndarráðs og haft eftirlit með almennum framkvæmdum. Kostnaður hefur í flestum tilfellum verið greiddur af viðkomandi framkvæmdaraðila og verður áfram.
    Í nýrri 15. gr. er framkvæmdaraðila gert að bera kostnað af eftirliti samkvæmt fyrirframgerðri áætlun þegar um er að ræða framkvæmdir sem falla undir ákvæði 13. og 38. gr. laganna eins og þau verða samkvæmt frv. En þessar greinar fjalla annars vegar um umhverfismat og hins vegar um spillingu lands vegna mannvirkja. Þetta ákvæði er í samræmi við gildandi lög og reglugerð um náttúruvernd og nauðsynlegt til að gera Náttúruverndarráði kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu af fullum krafti.
    Ný 16. gr. er efnislega samhljóða 5., 6. og 7. mgr. 7. gr. gildandi laga. Eina breytingin er að í stað Náttúruverndarráðs mun umhvrn. vinna að gróðurvernd ásamt Landgræðslu ríkisins og skógvernd ásamt Skógrækt ríkisins. Þetta verkefni ráðuneytisins er í samræmi við það samkomulag sem gert var þegar ráðuneyti umhverfismála var sett á sínum tíma á laggir.
    Önnur gr. frv. fjallar um III. kafla núgildandi laga, Greiðsla kostnaðar af framkvæmd laganna. Í nýrri 18. gr. verður umhvrh. heimilt að fengnum tillögum Landvörslu ríkisins að ákveða hóflegt gjald fyrir veitta þjónustu í þjóðgörðum og friðlöndum. Heimild þessi er þó bundin því skilyrði að vel sé skilgreint hverju sinni hvað verið er að greiða fyrir. Jafnframt verður ráðherra heimilt að ákveða tímabundið gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæðum að fenginni umsögn Landvörslu ríkisins ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna á viðkomandi svæðum eða að hætta talin á spjöllum. Um gjaldtökuna skal gilda sú almenna regla að tekjum skuli varið til eftirlits eða framkvæmda á sama svæði og þeirra er aflað. Þessi regla er nauðsynleg til að tryggja að gjaldtaka verði ekki notuð til almennrar fjáröflunar af hendi ríkisins eða annarra aðila. Þess ber að geta að víða þurfa ferðamenn nú þegar að greiða fyrir veitta þjónustu á friðlýstum svæðum. Þar nægir að nefna greiðslu fyrir tjaldstæði og aðgang að hreinlætisaðstöðu. Slík gjöld eru t.d. innheimt í þjóðgörðunum sem eru ríkisreknir og á svæðum þar sem ferðafélög hafa byggt upp aðstöðu fyrir ferðamenn. Gjaldtaka þessi er ekki nema að litlu leyti samræmd og í sumum tilfellum virðast gjöld hafa verið hærri en nauðsyn hefur verið til að standa straum af kostnaði. Það hlýtur hins vegar að teljast eðlilegt að tekjum sé varið til uppbyggingar og rekstrar á sama svæði og þeirra er aflað en fyrir því er í sjálfu sér engin trygging nú. Gildar ástæður eru fyrir því að setja í lög heimild til sérstakrar og tímabundinnar gjaldtöku fyrir aðgang að svæðum þar sem spjöll hafa orðið eða hætta er á spjöllum. Tilgangur slíkrar gjaldtöku er að draga úr aðsókn sérstaklega stórra hópa ferðamanna og til að afla fjár til fyrirbyggjandi aðgerða. Þess má geta að gjaldtaka á sér vissa fyrirmynd í lögunum frá 1928 um helgistað á Þingvöllum en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld á Þingvöllum og verja því fé upp í kostnað við friðunina.`` Þá má nefna að slík gjaldtaka er heimil skv. 34. gr. um skipulag ferðamála, nr. 79/1985.
    Greinar 3, 4 og 5 eru að mestu aðlögun laganna að þeim breytingum sem eru lagðar til í 1. gr. Í stað þess að Náttúruverndarráð setji reglur, veiti leyfi og undanþágur færist slíkt til umhvrh. Veigamesta breytingin í þessum greinum varðar friðlýsingar og náttúruminjaskrá. Eins og lögin eru í daga getur Náttúruverndarráð eitt friðlýst náttúruvætti, lífverur, friðlönd og stofnað þjóðgarða en ráðherra staðfestir friðlýsingar. Ráðherrann hefur aðeins ákvörðunarvald eftir að Náttúruverndarráð hefur fjallað um málið og tekið sína ákvörðun. Það er eðlilegt tel ég að umhvrn. sem æðsta stjórnvald á sínu sviði fari með friðlýsingarmálin.
    Í frv. er kveðið á um það í 5. gr. að áður en ráðherra tekur fullnaðarákvörðun um friðun og friðunarákvæði skal leita eftir áliti Náttúruverndarráðs. Ráðið fær þá sex vikur til að fjalla um málið og gera við það athugasemdir. Þetta ákvæði er afar mikilvægt til að tryggja að áhrif Náttúruverndarráðs á framkvæmd friðlýsingar séu til staðar. Samkvæmt frv. verður friðlýsingarferillinn þessi: Umhvrh. getur friðlýst sérstæðar náttúrumyndanir ef telja verður mikilvægt að varðveita þær sakir fræðilegs gildis þeirra eða þess að þær eru fagrar eða sérkennilegar að mati annars vegar Náttúruverndarráðs og hins vegar Landvörslu ríkisins eða Náttúrufræðistofnunar.
    Umhvrh. getur að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem samkvæmt lögum sem gilda

um þá stofnun á að framkvæma rannsóknir á náttúru landsins, friðlýst örverur, jurtir eða dýr sem miklu máli skipta frá náttúrufræðilegu sjónarmiði. Landsvæði sem er mikilvægt að varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs, getur umhvrh. friðað í heild að fenginni umsögn Náttúruverndarráðs annars vegar og hins vegar Landvörslu ríkisins eða Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Frumkvæði að friðlýsingum getur legið hjá umhvrh., Landvörslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun og Náttúruverndarráði. En það er umhvrh. sem fer með hið beina friðlýsingarvald. Það er gert ráð fyrir því að Landvarslan hafi fyrst og fremst frumkvæði hvað varðar vænlega ferðamannastaði og útivistarsvæði almennings. Náttúrufræðistofnun sinnir fræðilegri hlið friðlýsinga, lýsingarþættinum, sem stundum hefur svo verið nefndur. Náttúruverndarráð getur hins vegar, sem fulltrúi hinna frjálsu félagasamtaka sem vinna að málinu, gert tillögur um hvaðeina sem varðar friðlýsingar og þannig komið á framfæri þeim óskum sem koma fram á náttúruverndarþingum um þá þætti eða í gegnum aðra farvegi til ráðsins.
    Til að styrkja friðlýsingarstarfið er nauðsynlegt að efla náttúruminjaskrána. Í frv. er gert ráð fyrir því að umhvrn. gefi skrána út en vinnan við hana verði að mestu í höndum Náttúrufræðistofnunar og Landvörslunnar eftir atvikum. Á náttúruminjaskrá skulu vera upplýsingar um öll náttúruverndarsvæði landsins og um náttúrumyndanir, lífverur og vistkerfi sem friðlýst hafa verið eða æskilegt er talið að friðlýsa eða leggja undir fólkvanga og þjóðgarða.
    Í framtíðinni er nauðsynlegt að náttúruminjaskráin verði mun ítarlegri og betur rökstudd en nú er. Þar kemur ekki síst til atbeini Náttúrufræðistofnunar og síðar náttúrustofa sem hafa yfir að ráða sérfræðilegu atgervi til þessa verks sem ekki hefur verið að finna í jafnríkum mæli hjá Náttúruverndarráði. Það hefur eðlilega hamlað t.d. lýsingu friðlýstra svæða og svæða á náttúruminjaskrá. Náttúruverndarráð sem fulltrúi hinna frjálsu félaga getur síðan gert tillögur um hvað eina varðandi náttúruminjaskrána og mun fjalla ítarlega um hana áður en hún verður gefin út.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að fara yfir frv. Eins og ég hef rakið er kjarninn í frv. tímabærar og nauðsynlegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála. Náttúruverndarráð sjálft fjallaði ítarlega um drög að þessu frv. á fundi sínum 2. des. 1993 og samþykkti eindreginn stuðning við það. Ráðið hafði efasemdir um nokkur atriði og gerði tillögur um úrbætur. Fallist var á flestar þessar tillögur en ekki allar. Þrjú atriði ber þar helst á milli. Það fyrsta og mikilvægasta varðar friðlýsingarsjóð en Náttúruverndarráð leggur til óbreytta tilhögun frá því sem nú er. Annað atriðið varðar tilnefningu Ferðamálaráðs í Náttúruverndarráð og stjórn Landvörslu ríkisins. Náttúruverndarráð gerði athugasemd við tilnefndingu Ferðamálaráðs í stjórn Landvörslunnar og telur slíkan hagsmunaaðila of áhrifamikinn í jafnfámennri stjórn. Þriðja atriðið varðar kjörgengi og kosningarrétt til Náttúruverndarráðs. Ráðið gerði athugasemd við að svipta framkvæmdastjóra Landvörslunnar, þjóðgarðsverði og landverði kosningarrétti og kjörgengi til Náttúruverndarráðs.
    Það er hins vegar svo, virðulegur forseti, að ekkert þessara þriggja atriða varðar megindrætti frv. og ég vænti þess að umhvn. muni komast að sinni niðurstöðu um hvernig rétt sé að standa að þessum atriðum.
    Virðulegur forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hæstv. umhvn. að lokinni þessari umræðu.