Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 16:49:05 (4786)


[16:49]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frv. er hér fram komið. Eins og um getur í skýrslu umhvrh. um mótun stefnu í umhverfismálum, sem lögð var fram á 116. löggjafarþingi, þá var það boðað að endurskoðun stjórnunarþáttar náttúruverndarlaga stæði yfir. Þar var jafnframt gert ráð fyrir því, í þeim kafla sem um náttúruvernd fjallar, að það yrði unnið markvisst að fjölgun þjóðgarða og friðlýstra svæða. Stefnt yrði að því að fjármagna eins og kostur er landvörslu, framkvæmdir og þjónustu á friðlýstum svæðum. Þetta er nú komið fram í þessu frv. og ég fagna því sérstaklega.
    Hér hafa farið fram ágætar og fróðlegar umræður í dag, en mér þykir hins vegar afar leiðinlegt að heyra hv. 4. þm. Austurl., Hjörleif Guttormsson, gera lítið úr starfsemi ráðuneytis umhverfismála og gera lítið úr þeim ráðherrum sem þar hafa starfað á undanförnum árum. Ég tel slík ummæli algerlega ástæðulaus. Það er aldrei svo að ekki megi eitthvað betur fara, en ég fullyrði að þeir ráðherrar sem þar hafa setið, ráðuneytið og starfsmenn þess, hafi lagt sig alla fram um að reyna að gera umhverfismálum sem hæst undir höfði og bæta úr þar sem frekast hefur þótt vera þörf á.
    Hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, nefndi einnig nefnd þá er átti að endurskoða náttúruverndarlög. Sú nefnd starfaði um alllangan tíma, langt umfram þann tíma sem henni hafði verið ætlaður. Ég tók sæti í nefndinni á seinni hluta starfstímans, reyndar eftir að hún hefði raunverulega átt að vera búin að skila sínu verkefni af sér. Reynsla mín af setu í nefndinni var sú að það væri afskaplega hæpið að hún mundi nokkurn tímann ná saman um sameiginlegt álit eða sameiginlegt frv. Því held ég að það hafi verið skynsamleg ráðstöfun hjá hæstv. umhvrh. að leggja nefndina af og semja frv. í ráðuneytinu í þeim dúr sem hér er fram komið.
    Það er ekki rétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það hafi ekki komið fram svipaðar hugmyndir í nefndinni sem átti að endurskoða náttúruverndarlögin og eru í þessu frv. Ég minnist þess að hafa sjálfur reifað þar hugmyndir um að aðskilja stjórnsýsluþáttinn frá Náttúruverndarráði og færa hann yfir til umhvrn., eins og ástæða er til að mínu mati eftir að það ráðuneyti er komið til skjalanna og ætti þar með að uppfylla þann stjórnsýslulega þátt sem ráðuneyti fara með í öðrum svipuðum málaflokkum. Ég vil hins vegar ekki ganga svo langt að segja að ég hafi átt allar þær hugmyndir sem eru í þessu frv., en ég get heils hugar tekið undir frv. í flestum atriðum
    Mér þykja þær breytingar sem lagðar eru til vera flestar bæði eðlilegar og skynsamlegar og til þess fallnar að styrkja umhvrn. Tillögurnar felast aðallega í því að aðskilja stjórnsýsluþáttinn frá starfsemi Náttúruverndarráðs og færa hann inn í ráðuneytið. Það styrkir þann þátt verulega, það gefur honum meira vægi og styrkir umhvrn. og það hefur þeim mun betri tök á þeim málaflokki sem það á um að fjalla. Jafnframt er tekinn undan Náttúruverndarráði sá þáttur er fjallar um rekstur og umsjón með þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Hér er um hreinan og kláran rekstur að ræða og ég held að það sé betur komið undir stofnun svipaðri Landvörslunni heldur en undir stofnun eins og Náttúruverndarráði, eins og til þess er stofnað og eins og ég ímynda mér að það ætti að starfa. Það mætti auðvitað hugsa sér einhvern annan og jafnvel betri hátt á því að stjórna og stýra svona svæðum heldur en fyrirbæri eins og hugsanleg Landvarsla ríkisins verður, en ég held að sem fyrsta skref í breytingum á þessum málum sé það ágætt og mun ég styðja að það verði gert.
    Frv. gerir það hins vegar að verkum að Náttúruverndarráð fær þeim mun meira vægi sem stefnumarkandi og aðhalds- og eftirlitsstofnun. Það sama á við um náttúruverndarþing. Ég held að þeir sem telja að dregið sé úr mikilvægi Náttúruverndarráðs og náttúruverndarþings vaði í villu og svima í þessu efni. Náttúruverndarþing og Náttúruverndarráð fá enn þá meira vægi eftir að þessar breytingar hafa náð fram að ganga heldur en þau hafa í dag vegna þess að ráðið og þingið geta einbeitt sér að því að móta stefnu og veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með því sem er að gerast úti í náttúrunni og við þurfum að fá að vita af.
    Þetta frv. styrkir stefnu ráðuneytisins í friðlýsingarmálum. Það styrkir rekstur þjóðgarða og friðlýstra svæða og styrkir tengsl þessa rekstrar við ferðaþjónustuna. Og ég verð að segja að ég er afar hissa á því þegar það kemur hér fram hjá ræðumönnum að þeim þyki miður að ferðaþjónustan, þeir aðilar sem nota landið einna mest, skuli eiga aðild að þessum stofnunum. Ég held að það sé til framdráttar málefninu að þeir sem mestan hag hafa af því að hlutirnir séu í lagi komi þar að verki.
    Ég tel að þetta frv. styrki náttúruverndarþing, gefi því aukið vægi. Náttúruverndarþing kemur oftar saman. Það styrkir Náttúruverndarráð, eins og ég sagði áðan, vegna þess að það styrkir hlutverk þess til að móta stefnu og veita aðhald og hafa eftirlit. Það styrkir þetta grasrótarstarf, sem ég vil kalla, þennan vettvang almennings til að hafa áhrif bæði á stefnumótun og veita aðhald. Ég get hins vegar tekið undir með hv. þm. Auði Sveinsdóttur að það hefði mátt skoða þessa hluti í víðara samhengi. En það er nú svo að við búum ekki í fullkomnum heimi og eitt skref áfram er betra en að stíga ekkert skref áfram, þó það mætti kannski vera heldur stærra. En við eigum þá bara einhver verkefni eftir til að takast á við síðar, til að hlakka til að takast á við, því það er um engin mál eins ánægjulegt að fjalla hér á þinginu eins og umhverfismálin. Þau eru mál sem horfa til framtíðar og þeir sem um þau hugsa eru ekki að hugsa til skamms tíma heldur til lengri tíma og því miður skortir oft á þann hugsunarhátt, ekki bara hér á Alþingi heldur í þjóðfélaginu öllum.
    Það hefur einnig verið drepið á að það þyrfti að styrkja umhverfismálin að miklum mun með auknu fjármagni. Sjálfsagt er það rétt að við gætum vel notað meira fjármagn í umhverfismálin heldur en við gerum í dag og að það fjármagn mundi skila góðum arði. En við verðum hins vegar að gæta að þeim aðstæðum sem við búum við í þjóðfélaginu, þ.e. efnahag þjóðarinnar og reyndar efnahag heimsins alls. Og á þeim tímum þegar þjóðarframleiðsla annaðhvort stendur í stað eða dregst saman og við búum við ríkissjóðshalla sem milljörðum nemur, þá er afar erfitt að taka einn málaflokk út úr og auka umsvif hans því það yrði ekki gert nema á kostnað annarra málaflokka.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir fjallaði lítillega um áhrif og völd náttúruverndarþings og Náttúruverndarráðs og talaði um það að engir peningar, engin völd þýddu engin áhrif. Ég er algerlega ósammála hv. þm. því ég tel að Náttúruverndarráð og náttúruverndarþing geti haft veruleg áhrif án þess að þær stofnanir séu að fjalla um stjórnsýsluleg málefni eða að þær séu að vasast í rekstri þjóðgarða og friðlýstra svæða. Ég er hræddur um að Indverjinn frægi Mahatma Gandhi hafi ekki haft mikla peninga eða mikil völd, en það er alveg augljóst að það hefur enginn Indverji alla vega á þessari öld haft eins mikil áhrif á indverskt þjóðlíf eins og Mahatma Gandhi hafði.