Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:52:21 (4802)


[17:52]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Því miður átti ég þess ekki kost að vera viðstaddur þessa umræðu fyrr en nú. Í fyrsta lagi vegna þess að ég þurfti að vera við jarðarför og síðan var boðaður fundur í utanrmn. klukkan fjögur sem hefur staðið þar til nú fyrir skömmu.
    Ég vildi hins vegar fyrst umræðan stendur enn nota tækifærið, sem ég ætlaði mér ef ég hefði haft aðstöðu til þess að vera við umræðuna fyrr, til þess að lýsa því með almennum orðum að ég tel að í frv. sé á ferðinni athyglisverð og nauðsynleg tilraun til að þróa íslenskt stjórnkerfi áfram með markvissum hætti að þeirri staðreynd að annars vegar er búið að stofna umhvrn., sem þarf að styrkja með margvíslegum hætti, en hins vegar er nauðsynlegt líka að efla sjálfstæði og skapa grundvöll fyrir óháða álitsgerð og óháða gagnrýni af hálfu þeirra almannasamtaka og fulltrúa á sviði náttúruverndar sem vilja veita stjórnvöldum aðhald.
    Sá sem hér stendur hefur sem einstaklingur verið áhugamaður um náttúruvernd og umhverfismál án þess að taka kannski virkan þátt í því stjórnkerfi náttúruverndar sem verið hefur starfandi á Íslandi á undanförnum árum. Þess vegna er ég ekki í sjálfu sér bundinn af einhverjum ákveðnum viðhorfum sem ég hef mótað mér varðandi þá þróun mála. Á hinn bóginn hef ég nokkuð í þeim störfum sem ég hef sinnt á alþjóðavettvangi kynnst viðhorfum sem þar hafa verið að mótast og skýrast á undanförnum árum varðandi nauðsyn þess að efla starfsemi sjálfstæðra stofnana og ráða sem veitt geta stjórnvöldum aðhald og hins vegar að styrkja umhverfisráðuneyti í glímu þeirra við önnur ráðuneyti innan stjórnkerfa. Í flestum ríkjum eru umhverfisráðuneyti mjög ný af nálinni. Þau hafa víða þurft að heyja nokkuð harða glímu til þess að skapa sér áhrifasess til hliðar við og ásamt hinum hefðbundnu ráðuneytum sem eðli málsins samkvæmt vilja gjarnan vera nokkuð heimarík.
    Ég fann það mjög í tíð síðustu ríkisstjórnar að bæði innan stjórnkerfisins og eins á Alþingi var það nokkuð hörð glíma að heyja nægilegan verkefnaforða til umhvrn. til þess að það gæti verið burðugt ráðuneyti. Það hafði lengi verið stefna Alþb., allt frá því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fyrstur manna vék á því máls í okkar flokki að nauðsyn væri að stofna umhvrn. á Íslandi, að stuðla að því ekki aðeins að umhvrn. væri stofnað heldur einnig að það yrði öflugt. Því miður var það þannig að þegar verið var að vinna að breytingu stjórnarráðslaganna og koma umhvrn. á fót þá voru fjölmargir, bæði embættismenn og pólitísk öfl, sem vildu setja sem minnst í þann heimanmund sem umhvrn. fengi.
    Það er þess vegna nokkuð síðan ég gerði upp þá afstöðu mína að ég mundi reyna að stuðla að því á fyrstu starfsárum umhvrn. að leggja því lið að ráðuneytið væri eflt og styrkt. Það fengi á tiltölulega skömmum tíma bæði nægilegt fjármagn og nægilega sterka stöðu í stjórnkerfinu til þess að geta starfað með áhrifaríkum hætti. Ég tel að þó að mig greini á við hæstv. umhvrh. í ýmsum málum þjóðmála, þá hafi hann hins vegar á þeim stutta tíma sem hann hefur starfað sýnt virðingarverða viðleitni til þess að reyna að styrkja umhvrn. og ég er alveg tilbúinn til að leggja viðleitni hans lið.
    Ég held líka að hæstv. umhvrh. beri sem betur fer enn þá slík merki pólitísks uppeldis síns að hann skilji vel mikilvægi þess að frjáls félagasamtök áhugamanna og ákafafólks um málefni fái sterkan sess. Það hefur satt að segja aldrei verið hefð Alþfl. að efla mjög slík sjálfstæð og gagnrýnin samtök. Hins vegar hefur það mjög verið hefð Alþb. að reyna að styrkja starfsemi slíkra sjálfstæðra og gagnrýninna samtaka. Mér sýnist fljótt á litið þegar litið er yfir þetta frv. að í því sé að finna ýmsar ánægjulegar vísbendingar um það að þessi viðhorf um mikilvægi frjálsra, gagnrýninna og óháðra samtaka eigi að hafa árif á umræðu og afstöðu í umhverfisvernd og náttúruvernd og þess vegna beri að skoða með jákvæðum huga hvernig því er fyrir komið.
    Í sjálfu sér er það með þetta eins og margt annað að það er hægt að hafa ýmis sjónarmið varðandi það hvernig það eigi að gerast nákvæmlega en ég held að það sé mjög brýnt að við notum tímann sem við höfum núna á fyrstu starfsárum umhvrn. til þess að styrkja það. Af því að það er enginn fulltrúi Sjálfstfl. í salnum þá ætla ég að segja það alveg skýrt og það er ekkert leyndarmál að sterk öfl innan Sjálfstfl. hafa viljað veikja umhvrn. Sjálfstfl. barðist hatrammri baráttu á Alþingi gegn stofnun umhvrn. Ég hef talið að það væri mikilvægt að meðan hægt er að mynda bandalag manna úr öðrum flokkum, hvað sem líður afstöðu til ríkisstjórnar hverju sinni og ég hef tekið eftir því að núv. hæstv. umhvrh. hefur ekki talað mikið um þjóðmálin upp á síðkastið, að meðan aðstæður eru til þess að mynda bandalag þvert á skiptilínu stjórnar og stjórnarandstöðu um að styrkja umhvrn. sem hefur möguleika á því að byggja inn í löggjöfina í friði fyrir Sjálfstfl. slíka þætti þá eigum við að gera það. Ég er ekkert að móðga Sjálfstfl. með

þessum yfirlýsingum, ég tel að þetta sé bara lýsing á staðreyndum byggð á reynslu minni á síðasta kjörtímabili. ( GÁ: Er þér ekki sama um það?) Nei, það er ástæðulaust að vera að gera það að óþörfu, og eins ýmsu því sem maður heyrir frá þeim hagsmunasamtökum utan þings sem eiga sterka áhrifaaðila innan Sjálfstfl., m.a. á þingi. Ég hef þess vegna nokkra löngun til þess að túlka þetta frv. sem ákveðið samstarfstilboð til okkar í stjórnarandstöðunni sem og annarra þingmanna til að reyna að festa í löggjöfinni annars vegar ákveðna styrkingu umhvrn. en hins vegar réttmæta og lögbundna aðild óháðra, gagnrýninna félagasamtaka til þess að þau geti veitt stjórnvöldum aðhald. Það held ég að sé mjög mikilvægt.
    Ég hef haft vissar áhyggjur af því á undanförnum árum að Náttúruverndarráð hefur verið dálítið tvíátta í þessum efnum. Ég vil nefna t.d. umfjöllunina um háspennulínur og línulagnir á Norðausturlandi. Þar fannst mér Náttúruverndarráð einum of mikið ganga inn í hlutverk stjórnsýsluaðilans sem væri að taka tillit til ýmiss konar innri lögmála nánast eins og ráðuneyti. Þannig var komið í veg fyrir að gagnrýnið og óháð aðhald, sem Náttúruverndarráð hefði eðli málsins samkvæmt að mínum dómi átt að veita í þessu stórmáli sem línulagnirnar eru á Norðausturlandi ef til stórvirkjana kemur á því svæði, fékk ekki þann framgang sem nauðsynlegt var. Svo þeir einstaklingar eða þau samtök sem með gagnrýnum hætti vildu taka á því máli fengu ekkert skjól hjá Náttúruverndarráði. Ég held að það sé nokkuð rétt lýsing hjá mér að þau fengu ekkert skjól hjá Náttúruverndarráði. Það var óeðlilegt. Ef hægt er með þessari löggjöf að tryggja það að Náttúruverndarráð þurfi ekki að haga sér nánast eins og ráðuneytisangi, eins og mér fannst það gera í því máli, þá er það vel.
    Virðulegi forseti. Ég vona að við sem sitjum í umhvn. getum tekið þetta frv. til ítarlegrar skoðunar og náð að ljúka afgreiðslu þess fyrir lok þessa þings áður en til óvissu sumarsins kemur og enginn veit hvað þessi ríkisstjórn lifir lengi eða hver skipar þetta umhvrn. eða hvaða flokkur fer með það og meðan við, sem viljum veg þessara mála vel hvað sem líður afstöðu okkar til ríkisstjórnar, höfum þetta nokkurn veginn í okkar hendi þá getum við reynt að ganga frá þessari löggjöf þannig að við séum sæmilega sátt við það áður en við stöndum upp í vor.