Jarðalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:23:22 (4830)


[14:23]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Í umræðunni um aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði hafa ýmsir orðið til að lýsa áhyggjum sínum yfir því að samningur sá leiði til þess að erlendir aðilar fái aukin tækifæri til að kaupa fasteignir hér á landi. Áhyggjur af þessu tagi hafa m.a. heyrst úr þessum ræðustól. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur jafnan verið bent á að þrátt fyrir þær skyldur sem Ísland tekur á sig með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði sé unnt með innlendri löggjöf að hafa stjórn á slíkum fjárfestingum og tryggja hagsmuni þjóðarinnar. Hins vegar kann menn að greina á hversu langt beri að ganga í þessu efni, jafnt í átt til frjálsræðis sem takmarkana. Á grundvelli þess frv. sem hér er lagt fram er það hlutverk Alþingis að segja til um hvort og þá hvar beri að draga mörk í þessu efni hvað varðar þær fasteignir og þau

fasteignaréttindi sem jarðalögin taka til.
    Haustið 1991 óskaði ég eftir því við Tryggva Gunnarsson hæstaréttarlögmann að hann kannaði hvaða áhrif þá fyrirhugaður samningur um Evrópska efnahagssvæðið hefði á löggjöf um eignarhald og nýtingu jarða og annars lands og landsréttinda sem jarðalög, nr. 65/1976, og önnur lög sem ráðuneytið annast framkvæmd á taka til. Að lokinni frumathugun þeirra mála og í tilefni af hliðstæðri athugun í dóms- og kirkjumálaráðuneyti vegna laga um eignarrétt og afnotarétt á fasteignum, nr. 19/1966, var það niðurstaða mín og dóms- og kirkjumrh. að láta sameiginlega taka saman álitsgerð um áhrif samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði á íslenska löggjöf um eignarhald á fasteignum og fasteignaréttindum. Til verksins voru fengnir Ólafur Walter Stefánsson, skrifstofustjóri dóms- og kirkjumrn., Stefán Már Stefánsson prófessor og Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður.
    Álitsgerð þeirra lá fyrir í júlí 1992 og var m.a. dreift til þingmanna en kafli úr niðurstöðu álitsgerðarinnar varðandi jarða- og ábúðarlög fylgir með frv. sem fskj.
    Álitsgerð þessi og þær athugasemdir sem fylgja frv. ættu að auðvelda þingmönnum að taka afstöðu til þess hvaða breytingar þeir kjósa að gera á þessari löggjöf í tilefni af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Þó að þetta frv. sé flutt sem eitt af svonefndum fylgifrumvörpum samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði þá hefur tækifærið einnig verið notað til að leggja til breytingar á nokkrum ákvæðum jarðalaga í ljósi fenginnar reynslu. Verður nánar gerð grein fyrir þeim ákvæðum hér síðar.
    Með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði skuldbinda samningsríkin sig til að koma á auknu frjálsræði milli landanna á tilteknum sviðum viðskipta. Þannig skuldbinda ríkin sig til að heimila frjálsa för launþega milli landa og veita aðilum frá hinum samningsríkjunum sama rétt og innlendum aðilum til að stofna til atvinnurekstrar og reka þjónustustarfsemi. En þessi réttindi eru til lítils ef ekki er jafnframt heimilað að flytja fjármagn milli landa og fjárfesta þar í þágu þeirra. Launþegi fær þannig rétt til þess að leigja eða kaupa sér nauðsynlegt húsnæði og sama gildir um atvinnurekstur. Það er líka grundvallaratriði í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði að hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs sé bönnuð á gildissviði samningsins nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans. Eins og lýst er í álitsgerð þeirri sem ég vísaði til hér áður er hvað varðar fjárfestingarreglur á hinu Evrópska efnahagssvæði verið að taka upp hliðstæðar réttarreglur og gilda innan Evrópubandalagsins. Þessi breytta staða girðir hins vegar ekki fyrir að Íslendingar geti í innlendri löggjöf sett ýmis efnisleg skilyrði fyrir því að innlendir og erlendir aðilar eignist fasteignir hér á landi enda séu slík skilyrði í eðlilegum tengslum við nýtingu eignarinnar.
    Tilkoma samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði leiðir til þess að sá hópur einstaklinga og fyrirtækja sem á þess kost að fjárfesta hér á landi í fasteignum stækkar til muna og í vissum tilvikum ber að veita erlendum aðilum sama rétt og Íslendingum. Þessi breytta staða er því tilefni til að hugað sé að endurskoðun íslenskra laga um þessi mál. Það heyrist gjarnan haft á orði að okkur Íslendingum sé annt um land okkar og að landsins gæði séu í eigu og forræði Íslendinga sjálfra. Reyndar er það svo að í stjórnarskránni er sérstaklega tekið fram að ákveða skuli með lögum hvaða heimild útlendingar hafi til að eiga fasteignaréttindi hér á landi. Hér má líka minna á að aukin ásókn erlendra aðila til að kaupa hér fossa og vatnsföll í byrjun aldarinnar varð tilefni til þess að sett voru í lög skorður við slíku og síðar kom til löggjöf varðandi veiði.
    Barátta okkar fyrir landhelginni er á sinn hátt af sama meiði. Það þarf því fáa að undra þó að andmæli séu höfð uppi þegar Íslendingar undirgangast skuldbindingar um að veita erlendum aðilum sama rétt og Íslendingum til kaupa á fasteignum þegar ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Á móti kemur hins vegar að þetta er ekki einhliða réttur því við Íslendingar fáum með sama hætti rétt til að fjárfesta sem launþegar og í þágu atvinnurekstrar í þeim löndum sem aðild eiga að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Með vaxandi samstarfi þjóða og tengsl milli landa ætti líka að draga úr þeirri tortryggni sem eignarhald útlendinga á fjárfestingum hefur valdið víða um lönd. Það er síðan á færi stjórnvalda í hverju landi að tryggja með innlendri löggjöf að nýting fasteignanna og meðferð þeirra sé með þeim hætti að innlendir hagsmunir séu tryggðir. Þar koma t.d. til ákvæði skipulagslaga, náttúruverndarlaga og jarðalaga sem einmitt er viðfangsefnið hér.
    Í samræmi við áðurgreindan áskilnað stjórnarskrárinnar hafa verið í gildi hér á landi sérstök lög um heimildir útlendinga til að eignast og fá afnot af fasteignum hér á landi. Núgildandi lög um það efni eru lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, en viðamiklar breytingar voru gerðar á þeim lögum nr. 23/1991 og lögum nr. 133/1993 og réttur útlendinga til að eignast fasteignir hér á landi vegna atvinnurekstrar rýmkaður.
    Samkvæmt nefndum lögum er áfram gert ráð fyrir því að meginreglan verði sú að aðeins íslenskir ríkisborgarar eða þeir sem hafa átt lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár geti öðlast eignarrétt á afnotarétti yfir fasteignum hér á landi. Til að fullnægja skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði er hins vegar sett sú undanþága að erlendur aðili sem nýtur réttar hér á landi samkvæmt reglum samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt eða þjónustustarfsemi fær rétt til að eignast hér og fá til afnota fasteignir sem nauðsynlegar eru til að nýta þessi réttindi.

    Af framansögðu leiðir að aðili samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði fær ekki rétt til þess að kaupa hér fasteignir eingöngu til að fjárfesta í þeim nema hann hafi átt hér lögheimili í fimm ár. Það er skilyrði að aðili samkvæmt samningi hins Evrópska efnahagssvæðis ætli að nýta fasteignina sem launþegi hér á landi eða nýta hana í þágu atvinnurekstrar. Óski slíkur aðili, sem ekki er búsettur hér á landi, eftir að kaupa sumarbústað hér á landi til hefðbundinna einkanota, þá verður slíkt ekki heimilt nema viðkomandi fái til þess leyfi ráðherra samkvæmt þessum lögum.
    Jarðalögin hafa að geyma ýmsar heimildir sem veita stjórnvöldum, einkum sveitarstjórnum og jarðanefndum, færi á að hafa áhrif á aðilaskipti og nýtingu þeirra fasteigna sem lögin taka til en gildissvið þeirra er skv. 3. gr. laganna markað svo að þau taka til alls lands utan þéttbýlissvæða sem skipulögð eru fyrir fasta búsetu manna sem ekki stunda landbúnað. Í jarðalögunum eru líka ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sem slíkur kallar ekki á breytingar á ákvæðum jarðalaga og hið sama gildir um ábúðarlögin. Okkur er heimilt að viðhalda reglum sem áskilja að stjórnvöld þurfi að samþykkja aðilaskipti að eignum sem jarðalögin taka til og hið sama gildir um forkaupsrétt opinberra aðila. Við verðum hins vegar að framkvæma þessa reglu með þeim hætti að hið sama gangi yfir Íslendinga og aðila samkvæmt samningi hins Evrópska efnahagssvæðis.
    Jarðalögin voru vissulega umdeild á þeim tíma þegar þau voru sett og ýmsir töldu að með þeim væri verið að setja óeðlilegar hömlur á viðskipti manna með jarðir og jarðnæði. Við megum hins vegar ekki gleyma því að löggjöf hliðstæð íslensku jarðalögunum er til staðar í flestum nágrannalöndum okkar. Löggjafarvald í þessum löndum hefur með sama hætti og Alþingi talið rétt og nauðsynlegt að hafa strangar reglur um meðferð og nýtingu landbúnaðarlands og veita stjórnvöldum í ýmsum tilvikum færi á að hafa áhrif á aðilaskipti að því. Það sýnir sig líka nú þegar menn hafa áhyggjur af hugsanlegri ásókn erlendra aðila í að eignast fasteignir hér á landi að ákvæði jarðalaga fela að óbreyttum lögum í sér ákveðna vernd. Spurningin er síðan sú hvort menn telja hana nægilega.
    Við samningu á því frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á jarðalögum var af hálfu landbrn. lögð á það áhersla að draga fram þá möguleika og leiðir sem hægt er að fara innan þess ramma sem samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði setur til að tryggja rétt íslenskra stjórnvalda til að hafa áhrif á eignarhald og nýtingu þeirra fasteigna sem jarðalögin taka til. Þær raddir höfðu heyrst að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði útilokaði setningu slíkra reglna en í umræðum um þessi mál hafa menn hins vegar orðið til að lýsa áhyggjum sínum yfir því að með frv. væri mönnum settar of þröngar skorður. Það hefur alltaf legið fyrir að þær reglur sem við settum í þessu efni þyrftu að ganga jafnt yfir Íslendinga sem erlenda aðila er byggja rétt sinn á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég legg hins vegar áherslu á að Alþingi taki afstöðu til þess í hvaða mæli sé þörf á að setja reglur af þessu tagi þannig að ekki sé um of gengið á íslenska hagsmuni. Ég geng ekki til þess leiks með þeim orðum að svona skuli þetta vera og alls ekki öðruvísi heldur er þetta frv. tillaga sem sýnir hversu langt ríkisstjórnin og þeir sérfræðingar sem hún hefur kallað til aðstoðar í þessu máli telja að hægt sé að ganga í þessum efnum. Það er síðan verkefni Alþingis að taka afstöðu til þess hvar setja beri mörkin eða velja girðingarstæðið, eins og sagt er, og hversu þétt verður girt, svo notað sé orðalag sem mönnum hefur orðið tamt að nota í umræðum um þessi mál.
    Eins og ég nefndi fyrr, þá eru tillögur samkvæmt frv. tvíþættar. Annars vegar er lagt til að jarðalögunum verði breytt í tilefni af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og hins vegar eru lagðar til breytingar á einstökum ákvæðum í ljósi fenginnar reynslu við framkvæmd laganna. Þau ákvæði frv. sem lúta beint að breytingum vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði er í 3., 5., 8. og 14. gr. frv. Samkvæmt núgildandi lögum er í 6. gr. þeirra mælt fyrir um að sveitarstjórn og jarðanefnd þurfi að samþykkja fyrirhuguð aðilaskipti að réttindum yfir fasteignum sem lögin taka til. Tekið er fram að ef sveitarstjórn og jarðanefnd telja ráðstöfun fasteignar andstæða hagsmunum sveitarfélags sé þeim rétt að synja um áformaða ráðstöfun eignarinnar.
    Í 1. gr. jarðalaganna segir að tilgangur þeirra sé að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búsetujörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda. Í samræmi við þennan tilgang laganna hafa sveitarstjórnir og jarðanefndir m.a. litið til þess við afgreiðslu beiðna um samþykki á aðilaskiptum hver væru áform um búsetu á eigninni og nýtingu hennar. Núgildandi lög heimila hins vegar ekki sveitarstjórn og jarðanefnd að setja búsetu í tiltekinn tíma og ákveðna nýtingu sem skilyrði fyrir samþykki á aðilaskiptum.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að sveitarstjórn og jarðanefnd fái heimild til að binda samþykki sitt skv. 6. gr. laganna, þ.e. er við sölu eða önnur aðilaskipti, því skilyrði að sá sem öðlast réttindi yfir fasteign hafi í allt að fimm árum fasta búsetu á eigninni eða innan eðlilegrar fjarlægðar frá henni til að nýta hana. Lagt er til að með sama hætti verði heimilt að binda samþykki skilyrðum um að eignin verði nýtt til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi í samræmi við þau áform sem lýst er í beiðni um samþykki. Síðan er lagt til að sett verði regla um viðbrögð ef aðili fullnægir ekki þessum skilyrðum.
    Ég legg áherslu á að þetta er fyrst og fremst heimildarákvæði fyrir sveitarstjórnir og jarðanefndir og því óvíst í hvaða mæli því verður beitt. Ég lít á þetta sem öryggisákvæði til að tryggja að markmiði jarðalaganna verði náð. Það þótti ekki fært að binda þetta skilyrði í öllum tilvikum við búsetu á fasteigninni og því er bætt við heimildinni um búsetu innan eðlilegrar fjarlægðar. En eins og tekið er fram í athugasemd með greininni, þá verður við mat á því hvað sé eðlileg fjarlægð í merkingu greinarinnar fyrst og fremst að líta til þess hvort sá sem öðlast réttindi yfir eigninni geti annast búreksturinn eða þá atvinnustarfsemi sem hann ætlar að vera með á eigninni frá heimili sínu.
    Í 5. gr. frv. er sett fram tillaga um reglu sem felur í sér verulega breytingu frá núgildandi heimildum til að eignast fasteignir sem nýta á til landbúnaðar. Á síðustu árum hafa komið fram hugmyndir um að gera það að skilyrði fyrir kaupum á jörðum að kaupandi hafi hlotið ákveðna menntun á sviði landbúnaðarfræða líkt og gert er t.d. í Danmörku. Þessar tillögur hafa ekki náð fram að ganga. Með tilkomu samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði stöndum við frammi fyrir því að erlendir aðilar sem njóta réttar samkvæmt samningnum fá heimild til að stofna til atvinnurekstrar hér á landi og öðlast réttindi yfir nauðsynlegum fasteignum vegna þeirrar atvinnustarfsemi. Þessi regla gildir m.a. um þá erlendu aðila sem vilja koma hingað til lands og reka hefðbundinn landbúnað eða nýta að öðru leyti jarðir og hlunnindi þeirra til atvinnustarfsemi, svo sem útleigu á veiði og ferðamannaþjónustu. Ég hygg að við sjáum ekki fram á að erlendir aðilar muni í stórum stíl sækja í að reka hefðbundinn búskap hér á landi á næstu árum og fjárfesta í kaupum á jörðum af þeim sökum.
    Ég sé líka ekki hvaða hætta væri því samfara að danskur eða þýskur bóndi flytti sig um set og færi að stunda kúabúskap hér á landi og höfum við reyndar góða reynslu af því fyrir norðan ef svo vill til að það gerist.
    Við athugun á þessum málum staðnæmast menn hins vegar við þau tilvik þar sem jarðir og einstök lönd eru nýtt til annarrar atvinnustarfsemi en hefðbundins landbúnaðar. Dæmi um slíkt væri t.d. kaup á jörð til að leigja út lax- og silungsveiði eða fuglaveiðiréttindi eða kaup á landi þar sem náttúra er sérstæð til að reka þar ferðaþjónustu. Slík starfsemi fellur almennt undir atvinnustarfsemi og þeir sem njóta réttar hins Evrópska efnahagssvæðis eiga því að geta komið upp slíkri starfsemi hér á landi, enda uppfylli þeir sambærileg skilyrði og sett eru varðandi Íslendinga sjálfa. Þess var áður getið að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði útilokar ekki að sett séu almenn málefnaleg skilyrði sem menn þurfa að uppfylla til að kaupa fasteignir, enda séu slík skilyrði í eðlilegum tengslum við nýtingu eignarinnar. Samkvæmt gildandi lögum eru ekki gerðar neinar sérstakar kröfur varðandi menntun eða starfsþjálfun þeirra sem öðlast réttindi yfir fasteignum til að reka þar landbúnað og er raunar að ýmsu leyti óljóst hvaða starfsemi fellur undir hugtakið ,,landbúnaður`` á hverjum tíma. Niðurstaðan varð því sú að setja fram tillögu um ákvæði þar sem annars vegar væri farin sú leið að túlka hugtakið landbúnaður í þessari merkingu rúmt og láta það m.a. ná til nýtingar og/eða útleigu á veiði og öðrum hlunnindum sem fylgja landi, svo og húsum sem ætluð eru til dvalar um takmarkaðan tíma án lóðarréttinda. Hins vegar er lagt til að í þeim tilvikum sem fá þarf samþykki til að öðlast réttindi yfir fasteign skv. 6. gr. jarðalaga og ætlunin er að nýta hana til landbúnaðar þurfi viðkomandi að hafa starfað við landbúnað í fjögur ár og þar af tvö hér á landi. Fyrirmynd þessarar reglu er reyndar sótt í danskar reglur um hliðstæð efni, en þar er starfsreynsla af þessu tagi látin koma í stað tiltekinnar lágmarksmenntunar í landbúnaðarfræðum. Rétt er að benda sérstaklega á að þessari reglu er ætlað að taka til þeirra tilvika þegar nýta á eignina til atvinnurekstrar á sviði landbúnaðar. Sé það eingöngu ætlun þess sem kaupir jörð eða fasteign, sem jarðalögin taka til, að fjárfesta í eigninni eða nota hana til eigin dvalar og tómstunda, á reglan ekki við. Íslendingar munu því áfram geta fest kaup á jörðum í því augnamiði en heimildir erlendra aðila í því efni ráðast hins vegar af ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna eins og áður sagði.
    Samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði veitir útlendingum sem búsettir eru erlendis ekki rétt til að kaupa hér eignir til að fjárfesta í þeim eða til sumardvalar. Ég vek líka athygli á því að þessi regla á aðeins við í þeim tilvikum þegar fá þarf samþykki skv. 6. gr. og því á hún m.a. ekki við í fyrsta lagi ef eigandi ráðstafar fasteignarréttindum til maka síns, barna sinna, barnabarna, kjörbarna, fósturbarna, systkina eða foreldra. Í öðru lagi ef aðilaskipti verða að eignarréttindum fyrir lögerfðir eða ráðstöfun slíkra réttinda til annars hjóna við búskipti. Þessi nýja regla, verði hún tekin upp, mun því ekki hafa áhrif þegar um hefðbundin ættliðaskipti er að ræða á jörðum.
    Í annan stað er gert ráð fyrir að ráðherra geti veitt undanþágu frá þessu ákvæði að fenginni umsögn sveitarstjórnar og jarðanefndar. Það er líka ljóst að gildissvið þessarar reglu mun mjög mótast af þeim ákvæðum sem sett verða í reglugerð um hvaða starfsemi telst til landbúnaðar í merkingu ákvæðisins, til hvaða fasteigna ákvæðið tekur og hvaða aðili eða aðilar þurfa að uppfylla skilyrði ákvæðisins þegar félög og aðrir lögaðilar eða einstaklingar fleiri saman öðlast réttindi yfir fasteign. Tilvikin sem þarna er verið að fást við eru margbreytilegri en svo að hægt sé að leysa úr þeim öllum í lagatextanum og þessar reglur verða að einhverju leyti að mótast af þeirri þörf sem uppi er á hverjum tíma.
    Þær raddir hafa heyrst að með þessu ákvæði muni verð á jörðum falla og þær verði lítt seljanlegar. Ég minni á að sjónarmið af þessu tagi heyrðust einnig þegar jarðalögin voru sett árið 1976, en ég fæ ekki séð að þau hafi haft áhrif í þá átt. Eins og ég nefndi fyrr er líka ljóst að þessi regla mun ekki hafa áhrif í öllum tilvikum þegar jarðir skipta um eigendur. Ég tel líka að of snemmt sé að spá fyrir um hvaða áhrif þessi regla muni hafa á meðan ekki er búið að útfæra nánar skilgreininguna á hugtakinu landbúnaði og öðru sem ákveða skal í reglugerð. Ég játa það fúslega að það er ekki góð aðferð við lagasetningu að hafa þennan hátt á, en ég hef áður skýrt ástæðu þess að sú leið er farin hér.

    Áður en ég skil við þetta ákvæði vil ég ítreka að ákvæði 5. gr. frv. er sett fram sem tillaga um leið í þessu efni. Hafi menn hins vegar aðrar tillögur er sjálfsagt að þær verði teknar til skoðunar í þingnefnd.
    Þau ákvæði frv. sem að öðru leyti eru sett fram í tilefni af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði eru ákvæði 8. og 14. gr. um heimild sveitarstjórnar til að framselja forkaupsréttinn til Jarðasjóðs ríkisins. Við athugun á þessum málum var sérstaklega hugað að því hvort setja ætti í lög almenn ákvæði um forkaupsrétt ríkisins að öllum eignum sem falla undir jarðalögin. Slíkt hefði hins vegar haft í för með sér mikla skriffinnsku og því var niðurstaðan að leggja til þá leið sem frv. gerir ráð fyrir um heimild sveitarstjórnar til framsals á forkaupsréttinum.
    Almennt er það verkefni sveitarstjórnar að taka afstöðu til þess hvort aðstæður séu með þeim hætti að það sé í þágu hagsmuna sveitarfélagsins að neyta forkaupsréttar að eign. Hugsanlega kann verð eignar að vera sveitarfélagi ofviða, en líklegt er að það verði einkum í þeim tilvikum þegar um sérstæðar eignir er að ræða vegna hlunninda, sérstæðs náttúrufars eða staðsetningar. Í slíkum tilvikum gæti sveitarstjórn framselt rétt sinn til Jarðasjóðs ríkisins og það væri þá háð mati landbrh. og fjárhagsstöðu sjóðsins hvort ríkið notaði forkaupsrétt sinn, t.d. vegna þess að það væri talið mikilvægt vegna samfélagslegra sjónarmiða að ríkið eignast tiltekna fasteign eða réttindi eða eignarhöld ríkisins væru að öðru leyti talin í þágu hagsmuna viðkomandi sveitarfélags. Hvaða áhrif þessi ákvæði hafa er ekki síst háð því hvaða fjárveitingar Jarðasjóður ríkisins fær og það er verkefni Alþingis að taka ákvarðanir þar um.
    Aðrar breytingar sem lagt er til að gerðar verði á jarðalögunum með þessu frv. lúta fyrst og fremst að því að skýra og taka af öll tvímæli um framkvæmd einstakra ákvæða. Ég tel rétt á þessu stigi að vekja sérstaka athygli á tveim atriðum. Við gildistöku jarðalaganna 1976 var sett sú regla að ekki mætti taka land sem þá var nýtt til landbúnaðar til annarra nota nema heimild væri til slíks í lögum eða með leyfi ráðherra. Ekki var í lögunum tekið sérstaklega fram hvaða þýðingu það hefði að öðru leyti ef slíkt leyfi væri veitt. Með breytingu á jarðalögunum 1984 var sett sú regla að hefði sumarbústaðalóð verið tekin úr landbúnaðarnotum þyrfti ekki framvegis að afla samþykkis við aðilaskiptum skv. 6. gr. laganna. Formlega stóð forkaupsréttur sveitarfélags og í vissum tilvikum ábúanda áfram. Þetta hefur skapað óvissu um framkvæmd laganna.
    Með ákvörðun um að taka land úr landbúnaðarnotum hafa stjórnvöld átt þess kost að leggja mat á hvort slíkt sé í samræmi við þá hagsmuni sem jarðalögunum er ætlað að vernda. Verði það niðurstaða stjórnvalda að veita slíkt leyfi sýnist ekki ástæða til að leita þurfi eftir leyfi sveitarstjórnar og jarðanefndar við síðari aðilaskipti að eigninni eða forkaupsréttur sveitarfélags og ábúanda verði virkur við slíkar sölur. Er því lagt til að breytingar verði gerðar á jarðalögunum í samræmi við þetta. Telji sveitarstjórn þörf á forkaupsrétti vegna skipulagsástæðna hefur hún heimildir í skipulagslögum til að setja sérstakar samþykktir um slíkt.
    Eins og áður sagði miðaðist bannið við töku lands úr landbúnaðarnotum við það land sem nýtt var til landbúnaðar við gildistöku jarðalaganna árið 1976. Af hálfu stjórnvalda hefur jafnan verið litið svo á að þessi regla tæki til þess lands sem nýtt hafði verið til landbúnaðar og unnt var að nýta til slíkrar starfsemi árið 1976. Þar með tók þetta ákvæði m.a. til eyðijarða. Í ljósi hæstaréttardóms frá árinu 1991 er talið rétt að taka af öll tvímæli í þessu efni og því er lagt til að bætt verði við ákvæði 12. gr. laganna, sbr. 6. gr. frv.
    Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fjalla um það frv. sem hér liggur fyrir og vísa til þeirra athugasemda sem fram koma í greinargerð með frv. Ég hygg að í hópi þingmanna megi bæði finna þá menn sem telja að með þessu frv. sé of skammt gengið í að reisa svonefndar girðingar og einnig hina sem telja að með þessu sé gengið of langt í því efni. Frv. er fyrst og fremst ætlað að sýna hversu langt ríkisstjórnin hefur treyst sér til að ganga í þessu efni sé það á annað borð vilji Alþingis að setja girðingar af þessu tagi. Ég tel nauðsynlegt að þingmenn taki afstöðu til þess hversu langt þeir vilja ganga í þessum efnum. Hér hafa menn efnisviðinn og geta tálgað hann til eins og einn þingmaður hefur komist að orði í blaðaviðtali.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.