Skipun nefndar til að kanna útlánatöp

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 16:04:36 (4838)


[16:04]
     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa lagt hér orð í belg í þessari umræðu um frv. sem var einmitt flutt til þess að reyna að skapa ákveðið aðhald að innlánsstofnunum og fjárfestingarlánasjóðum og töldu flutningsmenn þess enga ástæðu til annars en reyna að láta rannsaka þessa hluti hér á landi rétt eins og í löndunum í kringum okkur. Eins og ég sagði í minni framsögu að þó að það séu sértækar ástæður í hverju landi sem skapa vanda, þá eru mjög mörg sameiginleg einkenni á þeirri bankakreppu sem hefur nú verið ríkjandi um alllangt skeið á Norðurlöndunum og hér á landi. En ég þakka hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, og hv. 14. þm. Reykv., Guðrúnu Helgadóttur, fyrir sitt innlegg í þetta mál sem var að mínu mati mjög gott.
    Það komu fram hjá hv. þm. Jóhannesi Geir efasemdir um að þessir 40 milljarðar kr., sem hafi verið lagðir á afskriftareikning hjá sjóðum og bönkum á sl. 5 árum, hafi yfirleitt einhvern tíma verið til. Hann sagði að í rauninni hafi hann efasemdir um að það hafi nokkurn tímann verið verðmætasköpun til að standa undir þessu. Það kann vel að vera rétt að sú verðmætasköpun hafi aldrei átt sér stað, en þá bendir það til vafasamrar lánastefnu hjá sjóðunum og hjá bönkunum ef það hafa aldrei verið nein verðmæti sem bjuggu að baki þessum útlánum sem síðan hefur þurft að afskrifa. Ég lít því á þetta sem rök og innlegg í þá umræðu að ástæða sé til þess að skoða þessa hluti.
    Þingmaðurinn benti jafnframt á að þeir sem standa í skilum hafi orðið að greiða þennan reikning. Þetta fé hefur ekkert horfið. Þeir sem standa í skilum og þeir sem borga vexti hafa þurft að greiða þennan reikning og reyndar hafa skattgreiðendur líka þurft að gera það með framlögum sem hafa verið samþykkt hér á Alþingi. Þetta hefur sem sagt sýnt sig í þeim háu vöxtum sem hér hefur verið haldið uppi m.a. vegna útlánatapa. Þá komum við að þeirri víxlverkun sem er í þessum málum. Þ.e. við erum annars vegar með útlánatöp og útlánatöpin gera það að verkum að raunvextir eru háir. Háu raunvextirnir gera það aftur að verkum að það verða útlánatöp vegna þess að einhverjir geta ekki staðið í skilum með þessa háu raunvexti. Þarna er því komin ákveðin skrúfa sem mjög erfitt er að eiga við og þetta er kannski svipað og var með verðbólguna þegar hún geisaði hér. Það er mjög erfitt að breyta þessu ástandi, brjótast inn í það eða rjúfa það nema með einhvers konar handafli. Það var kannski það sem var gert með verðbólguna þó ég ætli ekki að mæla því bót hvernig það var alltaf gert. Við munum t.d. eftir leiftursókninni, sem ég vil kalla svo, 1983 þegar kjörin voru rýrð um 30% til þess að reyna að ná niður verðbólgu, og svo aftur í þjóðarsáttinni, þá var í rauninni gripið til ákveðinna handaflsaðgerða til þess að ná verðbólgunni niður. Ég held að það sé mjög erfitt að brjótast inn í þessa víxlverkun á milli útlánatapa og vaxta sem við er að glíma í þjóðfélaginu.
    Þingmaðurinn vék líka að aðgerðum á Vestfjörðum sem hefur verið fjallað nokkuð um að undanförnu. Nú er allt í einu orðið réttlætanlegt að grípa til sértækra aðgerða á Vestfjörðum og greiða þangað 300 millj. kr. til ákveðinna fyrirtækja sem standa höllum fæti. Þær aðgerðir hafa verið útskýrðar af hæstv. fjmrh. með samdrætti í þorskafla og það standi til bóta, menn gefi sér það að þorskafli aukist og þess vegna muni þessar aðgerðir væntanlega skila sér í framtíðinni. En auðvitað hafa menn alltaf getað útskýrt sértækar aðgerðir með ýmsum hætti og það hafa alltaf verið ákveðin rök fyrir þeim. Hins vegar virtist fjmrh. og ríkisstjórnin vera þeirrar skoðunar, a.m.k. þegar þeir settust inn í Stjórnarráðið, að þær ættu almennt ekki rétt á sér. Ég las áðan upp úr ræðu sem hæstv. fjmrh. flutti við fjárlagaumræðuna í vetur þar sem hann taldi að Byggðastofnun hefði verið um of útausandi á fé og ekki gert kröfur á móti. Það er náttúrlega nákvæmlega sama gagnrýni og beinist nú að fjmrh. ásamt ríkisstjórnarflokkunum að litlar kröfur séu gerðar á móti þessum 300 millj. sem talað hefur verið um að leggja til Vestfjarða.

    Varðandi útlánatöpin almennt, þó að maður geti kannski gælt við þá von að bankarnir séu komnir yfir erfiðasta hjallann, þá er reyndar mjög fátt sem bendir til þess. Er skemmst að minnast aðalfundar Landsbankans sem var haldinn í síðustu viku þar sem kom fram að á þessu ári, 1994, er reiknað með því að bankinn þurfi að leggja 200 millj. á mánuði inn á afskriftareikning þannig að það er ekkert lát á þessu. Þrátt fyrir að hér hafi verið gripið til aðgerða sem voru kannski ekki stórar í sniðum, þá er ekkert lát á þessum málum. Mér segir svo hugur að sumt af því sem Landsbankinn er núna að afskrifa séu ekkert mjög gömul lán. Það sé jafnvel verið að afskrifa ný lán sem eru að tapast. Menn virðast því ekki enn hafa áttað sig alveg á því að það þurfi að sýna ákveðna varúð.
    Auðvitað eru ýmsar ástæður, eins og ég gat um, fyrir þessum útlánatöpum og ekki ætla ég að kveða upp úr um það hvað veldur. En sú skuldaaukning sem verið hefur á undanförnum árum á sinn stóra hlut. Skuldsetning hefur aukist mjög í kjölfar þess að frjálsræði á lánamarkaðnum var aukið, vextir voru gefnir frjálsir og frjálsræði almennt aukið á lánamörkuðum. Það er meginástæðan fyrir erfiðleikunum hér eins og annars staðar að menn virtust ekki alveg getað fótað sig í því frjálsræði sem ríkt hefur a.m.k. sl. áratug á lánamörkuðum og hafi farið of geyst í því að veita fólki lán.
    Í því sambandi vil ég benda á athyglisverða samantekt Neytendasamtakanna um fjárhagsvanda heimilanna. Þar sér maður mjög glöggt hvernig útlán hafa farið úr böndunum því þar kemur fram, eins og ég sagði hér áðan, að skuldir heimilanna hafa fjórfaldast. Menn hafa gjarnan viljað tala um að það sé fyrst og fremst í húsnæðismálum og auðvitað er það rétt. Í grein frá Sólrúnu Halldórsdóttur, hagfræðingi hjá Neytendasamtökunum, segir að ef litið er á síðustu sjö árin hafi skuldaaukning heimilanna verið 143,5 milljarðar og lánveiting til húsnæðiskaupa á þessu sama tímabili var 87,4 milljarðar. Þarna erum við því að tala um rúma 50 milljarða sem hafa verið til neyslu en ekki til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði og þetta eru ekki síst lánveitingar út úr bönkunum.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir taldi að kannski væri fyrst og fremst ástæða til að skoða frá árinu 1990 og þyrfti kannski ekki að fara mikið aftar. Ég er sammála henni í því að það hljóta öðru fremur að vera þessi ár eftir 1990 þegar útlánatöpin aukast verulega sem komi til skoðunar. Hins vegar getur lánið sem þarf síðan að afskrifa átt sér eldri sögu þannig að nefndin getur þurft að fara talsvert aftar til þess að skoða forsendurnar fyrir lánveitingunni á sínum tíma. Mér fannst ekki ástæða til að sníða henni ákveðinn stakk í því hvaða árabil hún ætti að skoða heldur hefði nefndin ákveðið frjálsræði um það, en ég hygg að hún muni hljóta að verða að fara aftur til ársins 1990 og jafnvel enn aftar til að skoða þessi mál, en mér fannst ekki ástæða til þess að kveða nánar á um þetta.
    Ég vil bara þakka þeim sem hér hafa lagt til umræðunnar fyrir þeirra innlegg og vonast til, þó ég viti reyndar að miklar annir séu í allshn., þá geti hún gefið sér tíma til að skoða málið og flýta þessu nokkuð, a.m.k. þannig að það komist út úr þinginu fyrir vorið.