Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 16:24:47 (4842)


[16:24]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að við náðum samkomulagi um meðferð þessarar brtt. sem var lögð fram fyrr í dag og ekki var vel tekið í sjálfu sér. Ég held að sú breyting á orðalagi sem þarna hefur komið fram hafi verið nauðsynleg til þess að skýra nákvæmlega hvað fyrir mönnum vakti. Það var ekki ágreiningur þegar það hafði verið skýrt fyrir nefndarmönnum hvað menn ætluðu sér með þessari tillögu en með breytingu á orðalagi er fyrst og fremst verið að afmarka það nákvæmlega að það sé verið að tala um að veita styrki til þeirra sveitarfélaga sem sameinast vegna þess að þau eru með fleiri en eina höfn og hefðu þess vegna, ef þau hefðu ekki sameinast, átt rétt á því að fá styrki vegna stofnunar hafnasamlaga. Um þetta voru menn út af fyrir sig alveg sammála. Ég tel að það hafi ágætlega til tekist með þessa breytingu.
    Mig langar til þess að fara síðan örlítið yfir þær breytingar sem meiri hluti samgn. leggur til við frv. til hafnalaga eins og það lá fyrir eftir 2. umr. Þær eru allar til bóta. Ég get lýst yfir ánægju minni með sumar hverjar af þessum breytingum. Ég vil fara yfir það í stuttu máli en þó gera grein fyrir því að við munum flytja brtt. sem eru á borðum þingmanna og eru á þskj. 676. Á því þskj. eru fimm brtt. sem minni hluti samgn. stendur að og ég ætla að fara yfir það með fáum orðum áður en ég fer yfir brtt. meiri hlutans.
    Fyrsta brtt. er við 2. gr. Við leggjum til að orðin ,,og skipaður til fjögurra ára í senn`` í 4. málsl. falli brott og að orðið ,,Tvo`` í upphafi 5. málsl. falli brott.
    Þetta hljómar þá svona ef við byrjum á viðeigandi setningu í miðri 2. gr.: ,,Þrír fulltrúar eru skipaðir af samgrh. og skal einn þeirra vera starfsmaður samgrn. og er hann jafnframt formaður ráðsins. Fulltrúa samgrh. skal skipa að nýju við ráðherraskipti.``
    Það sem við erum að leggja til er einfaldlega þetta: Hæstv. samgrh. á að hafa rétt til þess að skipa alla þá þrjá aðila sem hann skipar í ráðið þegar hann tekur við embætti sínu. Það er óeðlilegt finnst okkur að hann hafi einungis leyfi til að skipa tvo og að sá ráðherra sem á undan honum sat hafi skipað formann nefndarinnar til lengri tíma eins og þarna er ráð fyrir gert. Við teljum ef að ráðherrann á á annað borð að hafa þennan möguleika að skipta um menn í stjórn þá sé langmikilvægast fyrir hann að hann skipti um formann nefndarinnar og er skrýtið að hafa akkúrat þann mann undanþeginn. Við höldum okkur því við þessa brtt.
    Síðan erum við með brtt. við 8. gr. um það að 2. málsl. falli brott og það er kannski eitt af aðaldeilumálunum allan tímann sem hefur verið fjallað um þetta mál og það eru orðin tvö ár. Upphaflega var þetta þannig að það var lagt til að hafnir gætu verið hluthafar í fyrirtækjum og að hafnir gætu líka verið hlutafélög. Þessu hefur verið breytt eins og ýmsu öðru í þessu frv. til batnaðar en enn er inni þetta að hafnir geti verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra og skilgreiningin á því í hvers konar fyrirtækjum hafnirnar geti tekið þátt er ákaflega óljós og óskýr. Ég er sannfærður um það að í framtíðinni eiga

menn eftir að lenda í vandræðum vegna þessa ákvæðis þegar öflugar hafnir fara að beita sér sem eignaraðilar í fiskmörkuðum eða öðrum fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi sem þarna er verið að opna fyrir með þessum hætti. Þetta held ég að menn hefðu átt að skoða svolítið betur. Við leggjum sem sagt til að þessi málsliður sem ég las þarna upp falli brott.
    Við 11. gr. erum við líka með brtt. og þær eru í raun og veru hluti af andstöðu okkar við þetta 25% álag á vörugjöld sem er í frv. Við leggjum til að 6. töluliður 11. gr. falli brott og að síðari málsgrein 11. gr. falli líka brott. 6. liðurinn í fyrri málsliðnum er um þetta sérstaka vörugjald sem ég nefndi áðan og ég fer nánari orðum um það á eftir. En síðari liðurinn hljóðar svo í frv.:
    ,,Nú á annar aðili en hafnarsjóður bryggju innan hafnarsvæðisins og skal þá greiða vörugjöld í hafnarsjóð af þeim farmi sem um þá bryggju fer. Eiganda slíkrar bryggju er óheimilt að innheimta til sín vörugjöld af vörum sem fara um bryggjuna nema hafnarstjórn samþykki.``
    Þarna teljum við að það sé nánast verið að leggja alfarið í vald hafnarstjórnanna hvaða gjaldskrá sé notuð ef annar aðili á bryggju innan hafnarsvæðisins. Við teljum það óeðlilegt og erum með brtt. sem tekur á þessu máli og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Eigi annar aðili en hafnarsjóður bryggju innan hafnarsvæðis skal gera samkomulag milli viðkomandi aðila og hafnarsjóðs um innheimtu gjalda. Skal í því samkomulagi miða við að eigandi mannvirkisins fái eðlilegan hlut gjaldanna til sín miðað við umfang og mat mannvirkja. Náist ekki samkomulag milli aðila skal ráðherra skera úr deilunni.``
    Þarna erum við að leggja til að aðilar verði jafnsettir og ef ekki næst samkomulag um það hvernig eigi að skipta þessum gjöldum sem tilheyra viðkomandi hafnarmannvirkjum þá skeri ráðherra úr deilunni og þarf út af fyrir sig ekki nánari útskýringar við þetta.
    Við leggjum síðan til að við 12. gr. verði sú breyting að 4.--6. mgr. falli brott. Þar er á ferðinni þetta 25% álag á vörugjöld sem við höfum gert ágreining um allan tímann eins og ég sagði áðan og við leggjum hreinlega til að það falli út. Það hefur ekki áhrif á fjárhag Hafnabótasjóðs á þessu ári vegna þess að það eru lög í gildi sem tryggja þá peninga eins og er en auðvitað þurfa menn síðan að taka öðruvísi á þessu máli við fjárlagagerðina í haust.
    Þá er einungis ein brtt. eftir og hún er í einfaldleika sínum þannig að við leggjum til að þær breytingar sem gert er ráð fyrir í þessu frv. á 26. gr. laganna verði ekki, þ.e. við leggjum til að ákvæðin um skiptingu þátttöku ríkissjóðs í hafnargerðum verði óbreytt. Það er sú brtt. sem við hér gerum.
    Eins og ég sagði áðan eru einnig á ferðinni brtt. í fjórum liðum frá meiri hluta samgn. og ég nefndi það í upphafi máls míns að ég gæti fallist á ýmislegt sem þar stendur og margt væri til bóta. Þar vil ég fyrst segja að þær breytingar sem þarna eru gerðar vegna ferja og flóabáta eru að mínu viti mjög vel útfærðar og eðlilegar og ég tel að þar hafi verið tekið alveg hárrétt á málinu. Mér sýnist að það hafi verið gert og ég tel líka eðlilegt að ferjurnar séu teknar út úr eins og þarna er lagt til, þ.e. að hafnarstjórnirnar geti ákveðið sérgjaldskrá fyrir ferjur og flóabáta í ljósi þess sem hér er gert á undan, þannig að ég tek undir þá breytingu.
    Síðan er önnur brtt. hjá meiri hlutanum um það að ráðherra skuli kveða nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu, þ.e. 25% álaginu á vörugjald. Það sem þar er sagt er út af fyrir sig að mínu viti til bóta en þetta er ákaflega óljós frágangur á málinu. Þetta er sem sagt alfarið lagt í hendur ráðherra að meta, bæði hve oft megi leggja þetta álag á og hvernig eigi að fara með innheimtu þess. Ég verð því að segja að ég er ekki alveg ánægður með fráganginn á því máli en tek þó skýrt fram að ég trúi því að þarna muni verða reynt að koma til móts við þá gagnrýni sem við höfum sett fram á þetta og að reynt verði að leysa þetta þannig að það mismuni ekki byggðarlögum eða fólki eins og það gerir í dag, þetta mismunandi álag á vörugjöld eins og það er núna lagt á.
    Þriðja tillagan frá meiri hlutanum er um tollaðstöðu fyrir farþegaferjur og ég ætla ekki að hafa um það önnur orð en þau að við samþykkjum það, það er a.m.k. engin fyrirstaða frá okkar hendi í sambandi við það mál.
    Fjórði liðurinn er um það að ráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessara laga og það er breyting frá því sem lá fyrir áður og við höfðum verið með ágreining um. Ég tel að þessi frágangur á málinu sé góður og tek undir það.
    Þegar við stöndum í þeim sporum að vera að ljúka frágangi á hafnalögum þá er kannski ástæða til að fara örfáum orðum um það hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Ég verð að segja það eins og er að ég tel að þarna hafi verið á ferðinni frv. sem þurfti mikilla endurbóta við og auðvitað hefur reyndin verið sú að það hefur þurft að gera fjölmargar brtt. Meiri hlutinn hefur nú flutt 30 brtt. við frv. og við erum með brtt. hér til viðbótar. Það segir ekki nema eitt, það segir að menn hafa ekki staðið nægjanlega vel að upphafi málsins. Og sá hvellur sem varð í dag út af nýjustu brtt. sem kom upp með þessari skyndingu sem við sáum fyrr í dag segir kannski út af fyrir sig ekkert um það hvernig málið var undirbúið að öðru leyti en það var kannski svolítið skemmtilegur lokapunktur við þetta mál af því það hefur gengið svona fyrir sig að það hefur ekki verið betur undirbúið en staðreyndirnar sýna okkur.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég mun eftir atvikum sitja hjá eða greiða atkvæði með þeim brtt. sem nú liggja fyrir frá meiri hlutanum eftir að okkar tillögur hafa verið afgreiddar.