Fjárframlög til stjórnmálaflokka

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:40:11 (4854)

[17:40]
     Flm. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 163. Flm. ásamt mér eru aðrar þingkonur Kvennalistans, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa níu manna nefnd til að undirbúa löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka. Jafnframt verði nefndinni falið að leggja mat á það hvort nauðsyn beri til að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokka að öðru leyti.
    Nefndina skipi fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, fulltrúi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, fulltrúi Rannsóknastofnunar í siðfræði og fulltrúi Lögfræðingafélags Íslands auk fulltrúa frá fjármálaráðuneyti sem jafnframt sé formaður nefndarinnar.``
    Öðru hverju gýs upp sú umræða hér á landi hvort setja eigi lög um starfsemi stjórnmálaflokka. Síðast var lagt fram hér á þingi frv. um það efni veturinn 1975--1976 af hv. þáv. þm. Benedikt Gröndal. Þann sama vetur voru reyndar lögð fram fjögur þingmál sem öll tengdust starfi stjórnmálaflokka. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lagði fram tvö frumvörp í neðri deild um það efni og voru þau tengd. Annað var um breytingu á lögum nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Efnislega var það sama breyting, eða svipuð, og samþykkt var núna rétt fyrir jólin, að framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka væru skattfrjáls, þ.e. að þau teldust til rekstrarkostnaðar fyrirtækja svo sem auglýsinga og fleira. En einnig að stjórnmálaflokkar væru framtalsskyldir þó þeir væru skattfrjálsir. Þar nefndi Eyjólfur Konráð einnig að hvergi væri skilgreint í íslenskum lögum hvað stjórnmálaflokkur væri.
    Hitt frv. var flutt samhliða. Það var um breytingu á lögum nr. 51/1968, um bókhald, þar sem tekin voru af öll tvímæli um það að stjórnmálaflokkar væru bókhaldsskyldir. Nokkuð skiptar skoðanir voru í umræðum og athyglisvert að þá lýsti hv. þáv. þm. Sighvatur Björgvinsson, núverandi viðskrh., yfir algerri andstöðu við það að framlög til stjórnmálaflokka væru flokkuð með framlögum til líknarmála. En hann samþykkti það síðan nú fyrir jólin og hafði þá greinilega skipt alveg um skoðun. En hvorugt þessara frumvarpa var samþykkt á þinginu 1975--1976.
    Þriðja málið var þáltill. frá Alþb. þar sem lagt var til að Alþingi skipaði fimm manna nefnd til að rannsaka fjárreiður stjórnmálaflokka, svo og fjármál fyrirtækja, fasteigna og blaða sem þeim væru tengd. Og síðasta þingmálið þessa efnis var eins og áður sagði frv. til laga um stjórnmálaflokka sem Benedikt Gröndal flutti í neðri deild. Í greinargerð með því frv. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Undanfarin ár hefur komið fram hörð gagnrýni á það valdakerfi sem íslenska þjóðin býr við. Hafa stjórnmálaflokkarnir orðið mjög fyrir barðinu á þeirri gagnrýni, en þeir hafa verið kenndir við misrétti, misbeitingu valds, samtryggingu hagsmuna, annarlega fjáröflun og lélega frammistöðu í því meginhlutverki að stjórna landinu. Oft hefur það viðkvæði heyrst að setja þurfi lög um stjórnmálaflokka og hafa margir forustumenn flokkanna sjálfra tekið undir það.``
    Síðan rekur Benedikt hverja nauðsyn hann telur á því að starfandi séu stjórnmálaflokkar þó þeir geti verið ærið ólíkir. Sumir séu baráttutæki hagsmunahópa eða þjóðarbrota, aðrir séu flokkar bænda, verkamanna eða auðmagns, sumir baráttutæki fyrir einstaka menn eða einstök stefnumál. Og allt sem þarna er sagt er í raun og veru í fullu gildi enn í dag.
    Meginefni frv. var í þá veru að opna stjórnmálaflokkana, tryggja lýðræðislega starfshætti þeirra og jafnrétti alls flokksfólks. Það átti að draga úr tortryggni í garð flokkanna og gera þá hæfari til að gegna sínu mikilvæga hlutverki í stjórnskipun lýðveldisins.
    Ekkert af þessum fjórum þingmálum hlaut fullnaðarafgreislu þingsins, en segja má að þeim hafi lokið með því að samþykkt var þingsályktun þess efnis að kjósa milliþinganefnd sjö manna til að undirbúa frv. til laga um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka. Sú nefnd skilaði af sér og samdi frv. til laga um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka en það var aldrei lagt fram á þingi. Þar er enn á ný vakin athygli á því að engin lög eru til um flokkana, stöðu þeirra, hlutverk, fjárreiður og innra starf.
    Nú í sumar og haust, má segja síðustu missirin, hefur komið fram hörð gagnrýni á það valdakerfi sem íslenska þjóðin býr við. Stjórnmálaflokkar eru þar ekki undanskildir og hefur gagnrýnin ekki síst beinst að því að um þá gilda ekki nein skýr lög eða reglur, hvorki varðandi fjárreiður né annað, og er skemmst að minnast áskorunar átta háskólakennara frá 15. sept. sl. sem birt er sem fylgiskjal með þessari þáltill. Þar sem stjórnmálaflokkar og -samtök eru tæki almennings til að hafa áhrif á stjórnkerfið er nauðsynlegt að eyða allri tortryggni um óeðlileg fjárhagsleg hagsmunatengsl flokkanna við fjársterk fyrirtæki eða hagsmunasamtök.
    Í bréfi þessara átta háskólakennara segir m.a., með leyfi forseta: ,,Við undirritaðir kennarar í hagfræði og stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands beinum því þeirri áskorun til formanna stjórnmálaflokkanna að
    þeir geri grein fyrir því fé sem flokkarnir hafa tekið við undanfarin sjö ár, þar á meðal fjárframlögum í kosningasjóði flokkanna fyrir alþingiskosningarnar 1987 og 1991 og sömuleiðis fyrir sveitarstjórnarkosningar á sama tímabili;
    þeir hlutist síðan til um að t.d. Ríkisendurskoðun ásamt óháðum endurskoðendum utan stjórnkerfisins verði falið að kanna hvort fjárframlög til flokkanna bendi til óeðlilegra fjárhags- og hagsmunatengsla að einhverju leyti og
    þeir beiti sér loks fyrir því [þ.e. stjórnmálaflokkarnir eða formenn þeirra] að setja skýrar reglur eða lög um fjárframlög til flokkanna til samræmis við lög og reglur í öðrum löndum með niðurstöður Ríkisendurskoðunar að leiðarljósi.
    Í lögum nr. 62/1978 er kveðið á um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka. Ekkert er hins vegar að finna í lögum um fjárframlög íslenskra aðila til stjórnmálaflokka annað en þá lagagrein sem samþykkt var með fjárlögum nú fyrir jólin. Þar sem það er eðlileg krafa að bókhald og fjárreiður stjórnmálaflokka og félagasamtaka þeirra séu öllum landsmönnum opin og aðgengileg er hér lagt til með þessari þáltill. að Alþingi beiti sér fyrir því að lög og reglur kveði skýrt á um það.
    Virðulegi forseti. Að loknum þeim umræðum sem hér verða e.t.v. um þetta mál, þá legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. allshn.