Fjáraukalög 1993

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 15:26:06 (4895)


[15:26]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil að það komi skýrt fram hér af minni hálfu að samstarf fjmrn. og Alþýðusambands Íslands hefur að mínu áliti verið mjög gott. Það standa núna yfir viðræður um það hvernig staðið hefur verið að fjárfestingum af hálfu ríkisins og við teljum að þær viðræður eigi að haldi áfram. Og ég vænti þess satt að segja að samstarf okkar verði héðan í frá með svipuðu sniði og það hefur verið hingað til. Ég vil hins vegar láta það koma fram að ég geri mun á því þegar fyrirliðar Alþýðusambandsins koma fram í krafti síns embættis á vegum Alþýðusambands Íslands til viðræðna við ríkisstjórnina annars vegar og hins vegar þegar þeir á vegum stjórnarandstöðuflokks taka þátt í yfirlýsingum sem eru yfirlýsingar um það að ríksstjórnin eigi að fara frá. Og ég er að segja að mér þykir það ekkert óeðlilegt að flokksbundnir alþýðubandalagsmenn í forustusveit Alþýðusambandsins taki þátt í því á þeim vígstöðvum.
    Ég verð að gera mun á því hvort þeir tala í krafti síns embættis sem forustumenn Alþýðusambandsins eða hvort þeir tala sem fulltrúar stjórnarandstöðuflokks sem eðli máls samkvæmt hlýtur að fara gegn ríkisstjórninni.