Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:33:58 (4919)


[11:33]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ævinlega litið svo á að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sé einn af þeim sem bera hingað nýja og ferska strauma inn í þessi salarkynni. Því miður verð ég að segja það að ræða hv. þm. afsannaði það. Ég kýs að vísu að líta svo á að það sé undantekningin sem sanni þá reglu sem hann mun væntanlega fylgja í framtíðinni eftir að honum hefur verið veitt leiðsögn af öðrum félögum hans í stjórnarliðinu.
    Hann heldur því fram, virðulegi forseti, að um þetta mál ríki mjög góð sátt. Eigi að síður er það svo að hér hefur þessi tillaga verið flutt af þingmönnum úr tveimur kjördæmum, m.a. því kjördæmi þar sem síldarverkun er hvað umfangsmest. Ekki bendir það til þess að hér ríki mjög góð sátt. Það hefur líka verið vitnað til þess að tveir hv. þm. annars flokks hafa flutt svipaða tillögu og benda á það í tillögunni að margt hefur farið úrskeiðis einmitt í þessum greinum. Hv. þm. kom hámenntaður frá Englandi á sínum tíma og talaði um að það væri nauðsynlegt að leggja af höft og bönn. Hvað er orðið um þann þingmann? Þekkir hv. þm. ekki þau lög sem gilda um síldarútvegsnefnd? Þar segir til að mynda í 3. gr., með leyfi forseta: ,,Síldarútvegsnefnd veitir leyfi til söltunar á síld fyrir innlendan og erlendan markað.`` Er það í takt við þá stefnu sem Sjálfstfl. hefur fylgt að fara að verja þetta kerfi?
    Það kemur líka fram í 6. gr., virðulegi forseti, að útflytjendur og síldarsaltendur eru skyldir til að

gefa nefndinni allar upplýsingar sem hún óskar um hvað eina sem snertir söltun og útflutning síldar og hefur nefndin frjálsan aðgang að verslunarbókum og skjölum þeirra þar að lútandi.
    Hvers konar kerfi er þetta sem hv. þm. er að verja? Er hann viss um að hann muni í hvaða flokki hann er? Er hann ekki í þeim flokki sem ætlar að afnema höft og bönn? Hér stendur hann upp, hinn frjálsborni foringi Vestfirðinga og er að verja höft? Hvað er að gerast? ( SJS: Hún er svo léleg, þessi enska menntun.)