Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 12:07:10 (4932)


[12:07]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst dálítið merkilegt, af því að hv. 5. þm. Austurl. er í forsætisnefnd Alþingis, ef hann hefur álitið nauðsynlegt að flytja þáltill. til þess að fá samþykkt þingsins fyrir því að það megi endurskoða lög. Það má auðvitað endurskoða öll lög, til þess erum við hér og það eru engin tíðindi út af fyrir sig. Hins vegar tel ég og hef oft látið það koma fram að framkvæmdarvaldið á hverjum tíma, og þá ætla ég ekkert að taka þessa ríkisstjórn sérstaklega fyrir, hefur verið dálítið duglegt við það að róta um og umbylta lagabálkum sem hafa reynst ágætlega. Það gæti verið að það væri svoleiðis í þessu tilfelli.
    Það var aðeins það sem ég vildi láta koma fram við þessa umræðu. En að það sé bannað að endurskoða lög, því fer fjarri. Við erum hér til þess að endurskoða lög sem hafa reynst illa en ekki til að endurskoða lög sem hafa reynst vel.