Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:05:27 (5019)


[19:05]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ræða hæstv. utanrrh. var þríþætt. Í fyrsta lagi þá tek ég það ekki sem góða og gilda vöru að ríkislögmaður og þessir þrír lögfræðingar hafi ekki lagt sig fram um að orða texta fyrir landbn. með þeim hætti að hann væri samræmi við þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur vegna milliríkjasamninga. Ég hygg að það orðalag sem hæstv. utanrrh. notaði hafi þess vegna verið óskýrt því ekki dettur mér í hug að hann hafi verið að brigsla þeim ágætu lögmönnum um það með vilja. Ég hygg að þeir hafi alveg fulla hæfni til þess að skilja skuldbindingar okkar gagnvart slíkum hlutum, að öðru leyti held ég að það sé rétt að fara að segja ríkislögmanni upp.
    Ég vil í öðru lagi segja að það er fróðlegt að heyra það úr munni hæstv. utanrrh., ég hefði betur spurt hann fyrr, ég hafði borið blak af ríkisstjórninni í heild sinni varðandi cohesion-listann. Nú er það komið fram að eins og að honum er staðið þá stóðu fyrri stjórnarflokkar að því og þá hefur hann væntanlega verið undirbúinn og sendur með þeim hætti þannig að Framsfl. ber þá fulla ábyrgð á honum eins og hann leit út við stjórnarskiptin síðustu.